Herlögreglu fyrirskipað að spila Pokémon Go

Pokémon Go naut gríðarlegra vinsælda á heimsvísu sumarið 2016. Kanadíski …
Pokémon Go naut gríðarlegra vinsælda á heimsvísu sumarið 2016. Kanadíski herinn þurfti að bregðast við tíðum komum Pokémon-þjálfara inn á bannsvæði. AFP

Að minnsta kosti þremur kanadískum herlögreglumönnum var, árið 2016, fyrirskipað að spila tölvuleikinn Pokémon Go í herstöðvum í landinu, eftir að spilarar úr röðum almennings ráfuðu inn á lokuð umráðasvæði hersins til þess að reyna að fanga Pokémona í snjallsíma sína.

Kanadíska ríkissjónvarpið CBC greinir frá því að yfirmenn í hernum hafi velt vöngum yfir því af hverju fjöldi fólks hefði skyndilega byrjað að fara inn á herstöðvarnar, en mikil aukning varð á því háttalagi sumarið 2016. Þetta kemur fram í skjölum hersins sem CBC hefur undir höndum.

„Vinsamlegast látið yfirmenn vita af því að svo virðist vera sem Fort Frantenac sé bæði PokéGym og PokéStop,“ ritaði Jeff Monaghan majór í skilaboðum til yfirboðara sinna. „Ég er fullkomlega hreinskilinn þegar ég segi að ég veit ekkert hvað það er,“ bætti majórinn við.

Í kjölfarið var að minnsta kosti þremur herlögreglumönnum falið að sækja tölvuleikinn og ganga um herstöðvar vítt og breitt um landið til þess að átta sig á því hvar Pokémon-innviði væri að finna.

„Við ættum að ráða einhvern 12 ára til þess að hjálpa okkur með þetta,“ sagði í skilaboðum sem David Levenick öryggissérfræðingur hjá hernum ritaði, en herinn sendi frá sér tilkynningu sumarið 2016 um að fólk ætti ekki að fara inn á herstöðvar þrátt fyrir að þar væru Pokémon-stöðvar.

Sambærilegar fréttir bárust víða að úr heiminum og rötuðu margir metnaðarfullir Pokémon-þjálfarar í vandræði vegna viðleitni sinnar til þess að „ná þeim öllum“, sama hvað það kostaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert