Snjóalög á Sátujökli aðeins 1,2 metrar

Hofsjökull.
Hofsjökull. mbl.is/Sigurður Bogi

Snjóalög á Hofsjökli eru undir meðaltali en þynnst var snjólagið 1,2 metrar á norðanverðum Sátujökli og neðst á Blautukvíslarjökli en þykkast 5,7 metrar á hábungunni í 1.790 m hæð. Metþykkt mældist þar 8,1 metri vorið 2012. 

Þetta er niðurstaða árlegs vorleiðangurs sérfræðinga á Veðurstofu Íslands sem mældu snjóþykkt á jöklinum dagana 27. apríl til 4. maí. Aðeins á norðanverðum Hofsjökli náði snjóþykkt langtímameðaltali.

Borað var gegnum snjólag vetrarins á 20 stöðum og vatnsgildi vetrarafkomu reiknað í hverjum punkti. Þær tölur eru síðan nýttar til að meta vatnsgildi vetrarsnævar á tilteknum ísasviðum jökulsins og má út frá því meta hversu mikill massi bættist á jökulinn frá haustinu 2019 fram til aprílloka 2020.

Sérfræðingar á Veðurstofu Íslands mældu snjóþykkt á Hofsjökli dagana 27. …
Sérfræðingar á Veðurstofu Íslands mældu snjóþykkt á Hofsjökli dagana 27. apríl til 4. maí.

Meðaltalið á hábungunni frá upphafi mælinga 1988 er 6,5 metrar og vatnsgildið að jafnaði um 3 metrar (3.000 mm). Þar er um vetrarafkomu að ræða en dæmigerð heildarúrkoma jökulársins á hábungunni (frá hausti til hausts) er a.m.k. 3.500 mm. Til samanburðar má nefna að ársúrkoma í Reykjavík er að jafnaði um 800 mm, á Akureyri tæpir 500 mm og á Fagurhólsmýri um 1.800 mm.

Á ákomusvæði jökulsins voru svonefnd hausthvörf – skilin milli vetrarlagsins og hjarns frá fyrra ári – óvenjugreinileg. Hjarnið er mun grófara en nýlegur, fínkorna vetrarsnjórinn og eðlisþyngd jókst að jafnaði um rúm 20% þegar komið var niður fyrir hausthvörf. Nákvæmni í greiningu á þykkt vetrarlagsins var því með besta móti segir á vef Veðurstofu Íslands.

„Út frá mælingum á ísasviðum Sátujökuls, Þjórsárjökuls og Blágnípujökuls má áætla að vatnsgildi vetrarafkomu á Hofsjökli öllum veturinn 2019–2020 — þ.e. dýpi vatnslags sem dreift væri yfir jökulinn — hafi að jafnaði verið 1,6 m, sem er nærri 90% af langtímameðaltali. Flatarmál jökulsins er nú um 809 km2 (skv. útlínum haustið 2019) og nemur vetrarafkoman því alls um 1,3 gígatonnum (GT, þ.e. milljörðum tonna).

Ársafkoma jökla er reiknuð frá hausti til hausts og fæst hún þegar leysing sumarsins hefur verið mæld og sumarafkoma reiknuð út frá henni. Ársafkoman er neikvæð ef meira tapast að sumri en bæst hefur á að vetri. Frá upphafi mælinga á Hofsjökli árið 1988 hefur ársafkoma verið neikvæð í 27 skipti af 32, en of snemmt er að spá um niðurstöðu jökulársins 2019-2020,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert