Lakkrísát dró mann til dauða

Vandamálið er lakkrísrótarsýra.
Vandamálið er lakkrísrótarsýra. mbl.is/Brynjar Gauti

Ást byggingaverkamanns í Massachusetts á lakkrís endaði á að kosta hann lífið.Mataræði mannsins í nokkrar vikur, sem einkenndist af einum og hálfum poka af sælgætinu á hverjum degi, hafði slæm áhrif á heilsu hans og varð á endanum til þess að hjarta hans stöðvaði.

Maðurinn var 54 ára.

Lítið magn getur aukið blóðþrýsting

Frá þessu greina læknar í nýjustu útgáfu læknisfræðiritsins New England Journal of Medicine.

„Jafnvel lítið magn af innbyrtum lakkrís getur aukið blóðþrýsting þinn smávegis,“ segir dr. Neel Butala, hjartalæknir við Massachusetts General-sjúkrahúsið, sem lýsir máli sjúklingsins í ritinu.

Vandamálið er lakkrísrótarsýra (e. glycyrrhizic acid), sem finnst í lakkrís og mörgum öðrum matvælum og fæðubótarefnum sem innihalda efni unnin úr lakkrísrót.

Hættulega lítið magn kalíns

„Þetta er meira en lakkrísstangir. Þetta geta verið hlaupbaunir, lakkríste, og fullt af hlutum sem fást í búðum. Jafnvel einhverjir bjórar, til dæmis belgískir bjórar, innihalda þetta efni,“ hefur fréttastofa AP eftir dr. Robert Eckel, hjartalækni við Colorado-háskóla og fyrrverandi formanni bandarísku hjartasjúkdómasamtakanna.

Læknar komust að því að í líkama mannsins var hættulega lítið magn kalíns, sem er nauðsynlegt efni fyrir virkni frumna í öllum lífverum. Þessi skortur hafði leitt til hjartsláttartruflana og fleiri vandamála, og dró manninn að lokum til dauða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert