Verðlaunaðir fyrir uppboðskenningar

Paul Milgrom og Robert Wilson.
Paul Milgrom og Robert Wilson. AFP

Bandarísku hagfræðingarnir Paul Milgrom og Robert Wilson hljóta Nóbelsverðlaunin í hagfræði í ár fyrir kenningar sínar um uppboðsviðskipti þar á meðal uppboð á vörum og þjónustu sem erfitt er að selja með hefðbundnum hætti, svo sem tíðnisvið.

Tvíeykið er verðlaunað fyrir umbætur sem það hefur gert á uppboðskenningunni. Nóbelsverðlaunanefndin segir að uppgötvanir Milgroms og Wilsons hafi komið seljendum, kaupendum og skattgreiðendum víða um heim til góða.

Wilson, sem er 83 ára er prófessor við Stanford háskóla, lagði fram kenninguna um uppboð í viðskiptum þar sem verðgildið er óþekkt í byrjun. Milgrom, sem er 72 og einnig prófessor við Stanford, kom með almennari kenningu varðandi uppboð með því að greina skipulega hegðun bjóðenda í ólíkum tegundum uppboða. 

Að það skipti máli hvað var boðið upp, almenn vara eða sértækir hlutir eins og lendingarheimildir á flugvöllum og útvarpstíðni. 

mbl.is