Brak eldflaugar hafnaði í Indlandshafi

Kínverska Long March-5b eldflaugin.
Kínverska Long March-5b eldflaugin. Ljósmynd/Wikipedia.org/篁竹水声

Brak kínverskrar eldflaugar sem eyðilagðist á leið sinni til jarðar hefur fundist vestur af Maldíveyjum í Indlandshafi suðvestur af Sri Lanka. Þetta kemur fram í fréttum kínverskra ríkisfjölmiðla í dag. Grannt hefur verið fylgst með komu flaugarinnar Long March-5b inn í lofthjúp jarðar af bandarískum sem og evrópskum eftirlitsstofnunum undanfarið. 

Kínversk yfirvöld segja að hluti hennar hafi komið inn í lofthjúp jarðar klukkan 10:24 að staðartíma í Peking, sem er klukkan 2:24 að íslenskum tíma. Bandarísk yfirvöld segjast geta staðfest að Long March-5b hafi komið til baka yfir Arabíuskaga. Ekki sé vitað hvort leifar hennar hafi hafnað á láði eða legi. 

Óttast hafði verið að leifar hennar gætu hafnað á byggðu bóli og segir varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Lloyd Austin, að kínversk yfirvöld hafi gerst sek um vanrækslu með því að leyfa eldflauginni að falla af braut. Sérfræðingar segja að afar litlar líkur séu á að verða fyrir geimrusli, ekki síst vegna þess að stór hluti yfirborðs jarðar er sjór og stór landsvæði óbyggð. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert