Apple greiddi háar bætur eftir að viðkvæmt myndefni fór á netið

Atvikið átti sér stað fyrir fimm árum.
Atvikið átti sér stað fyrir fimm árum. AFP

Bandaríska tæknifyrirtækið Apple greiddi bandarískri konu milljónir dala í bætur eftir að það kom í ljós að viðgerðarmenn, sem sérhæfa sig í viðgerðum á iPhone-símum, settu viðkvæmar ljósmyndir og myndskeið á netið, sem voru í síma konunnar. 

Þetta kemur fram í málsskjölum sem fjölmiðlar hafa nú opinberað. Þar segir að konan hafi í janúar 2016 farið með símann sinn í viðgerð hjá símaviðgerðarfyrirtækinu Pegatron Technology Service í Kaliforníu, sem hafði verið vottað af Apple. Starfsmenn fyrirtækisins gerðust síðan sekir um að birta mjög viðkvæmt og persónulegt myndefni á netinu, þar á meðal á Facebook-síðu konunnar. 

Það mátti upphaflega halda að konan hefði vísvitandi birt myndefnið sjálf, en svo var ekki. Hún varð eðli máls samkvæmt fyrir miklu áfalli, en það voru vinir hennar sem höfðu samband við hana eftir að hafa séð myndefnið á Facebook. 

Konan höfðaði í framhaldinu mál við Apple sem bauð dómsátt og endaði á því að greiða konunni margar milljónir dala í bætur. Nafn Apple kom þó aldrei fyrir í upphaflegu málsskjölunum þar sem fyrirtækið vildi halda málinu leyndu. 

Nýtt mál varpaði ljósi á það gamla

Það breyttist hins vegar þegar lögmenn í öðru og nýrra dómsmáli, sem tengist einnig Apple og Pegatron, vísuðu í mál umræddrar konu í sínum málsskjölum. Þar kom skýrt fram að umrætt fyrirtæki væri Apple. 

Talsmenn Apple staðfestu við breska blaðið The Guardian að dómsátt hefði verið gerð á sínum tíma. Fyrirtækið segir í yfirlýsingu að það taki öryggis- og persónuverndarmál viðskiptavina sinna mjög alvarlega, og Apple hafi stigið mörg skref til að tryggja það að öll gögn njóti verndar á meðan viðgerð stendur. 

Varðandi atvikið árið 2016, þá segir Apple að það hafi gripið til aðgerða þegar í stað og í framhaldinu hafi verið unnið að því að styrkja þeir reglur sem eru í gildi hjá þeim fyrirtækjum sem þjónusta Apple-vörur. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem tæknimaður hefur verið sakaður um að stela myndum frá viðskiptavini og birta þær síðan á netinu. Árið 2013 fór kona í mál við Best Buy eftir að myndefni, sem var að finna í tölvu sem hún fór með í viðgerð, rataði á netið. 

mbl.is