Ný hormónalaus getnaðarvörn í þróun

Oui er ný hormónalaus getnaðarvörn fyrir konur sem er í …
Oui er ný hormónalaus getnaðarvörn fyrir konur sem er í þróun. Hún á að vera inngripsminni og hafa færri aukaverkanir en hefðbundnar hormónagetnaðarvarnir. oui.us

Ný hormónalaus getnaðarvörn fyrir konur er nú í þróun. Gangi prófanir á vörninni eftir gæti hún umbylt lyfjaheiminum. Á bakvið þróun getnaðarvarnarinnar stendur fyrirtækið Cirqle Biomedical.

„Heilsa kvenna hefur mætt algjörum afgangi og verið vanrækt síðustu áratugi,“ segir Frederik Petursson Madsen, framkvæmdastjóri fyrirtækisins í samtali við CNN. „Þrátt fyrir milljarða notenda, hefur verið lítið um nýsköpun í þessum efnum.“

Getnaðarvörnin sem kallast Oui er í formi gel-hylkis sem ætlað er til innvortis notkunar. Samkvæmt Cirqle Biomedical munu konur geta sjálfar komið hylkinu fyrir í leggöngum sínum rétt fyrir samfarir og á vörnin að virka í allt að fimm klukkutíma. Hylkin, sem gerð eru úr vatni og kítósan líffjölliðum og eru án allra hormóna, eiga að þykkja slímhúð legganganna og hindra þannig að sæði nái að ferðast upp að leghálsinum og inn fyrir hann.

Oui er ætlað að vera inngripsminni getnaðarvörn en aðrar innvortis getnaðarvarnir á borð við stafinn eða lykkjuna sem innhalda hormón og einungis viðurkennt heilbrigðisstarfsfólk getur komið fyrir og fjarlægt. Þá á Oui að vera sveigjanlegri valkostur en pillan og á að hafa færri aukaverkanir en aðrar hormónagetnaðarvarnir.

„Konur sem nota getnaðarvarnir gera það til að koma í veg fyrir þungun. Vegna skorts á öðrum valkostum hafa konur þurft að sætta sig við þær getnaðarvarnir sem til eru og þær aukaverkanir sem fylgja notkun þeirra,“ segir Marie Lyhne, hönnunarstjóri fyrirtækisins við CNN.

mbl.is