Gætu þurft að draga úr framleiðslu á iPhone 13

Líklega munu ekki allir fá draumajólagjöfina í ár.
Líklega munu ekki allir fá draumajólagjöfina í ár. AFP

Tæknirisinn Apple gæti þurft að draga töluvert úr framleiðslu á iPhone 13-símum vegna skorts á örgjörvum sem rekja má til hökts í aðfangakeðju á heimsvísu í tengslum við Covid-heimsfaraldurinn. The Guardian greinir frá.

Apple hafði gefið út að framleiddar yrðu 90 milljónir iPhone 13 síma, en miðað við stöðuna eins og hún lítur út í dag gæti þurft að fækka þeim um allt að 10 milljónir. Vegna þessara frétta hefur Hvíta húsið varað við því að ekki geti allir fengið jólagjöfina sem þeir óska sér.

Birgjarnir Broadcom og Texas Instruments hafa verið í vandræðum með að afhenda íhluti, að fram kom í frétt Bloomberg í gær, en Apple hefur þegar tilkynnt framleiðendum sínum að til standi að draga úr framleiðslunni vegna þessa.

Hlutabréf í Apple féllu um 1,2 prósent eftir tilkynnt var um skort á íhlutum, sem varð svo til frekari lækkunar á hlutabréfum á bandaríska og asíska verðbréfamarkaðnum, vegna ótta við að langvarandi áhrif Covid muni leiða til óðaverðbólgu.

mbl.is