Fyrstu árin

Upplestur í Vesturbæjarskóla. Á fyrstu árunum þarf hreinlega að baða …
Upplestur í Vesturbæjarskóla. Á fyrstu árunum þarf hreinlega að baða börn í tungumálinu. mbl.is/Unnur Karen

Mikilvægi ríkulegra samskipta við börn er óumdeilt. Í allri umræðunni um læsi gleymist hvað málþroskinn skiptir miklu. Svava Þ. Hjaltalín, Margrét Pála Ólafsdóttir og Hermundur Sigmundsson segja í grein sinni að hreinlega þurfi að baða börn í tungumálinu.

Í allri umræðu um læsi barna gleymist oft að læsið, hið risavaxna verkefni á yngsta stigi grunnskólans, byggir á grunni málþroskans. Sá grunnur er lagður heima hjá fjölskyldum hvers barns og síðar í leikskólum sem nánast öll börn á Íslandi sækja á aldrinum 1-5 ára.

Málþroskinn er langtímaferli sem tengist öllum öðrum þroskaþáttum þannig að læsi í grunnskóla tengist líka tilfinninga- og félagsfærni, hreyfifærni, einbeitingarhæfni á fyrstu árunum svo dæmi séu tekin. Málþroskinn tengist m.a. samspili gena og umhverfis þar sem örvun tengd tungumálinu frá umhverfi, foreldrum, fjölskyldum og kennurum er í lykilhlutverki.

Áskoranir

Einbeiting og athygli barna hefur minnkað nema þegar þau eru í leik og námi tengt þeirra áhugasviði. Kannanir sýna einnig að stöðugt fleiri þriggja ára börn eru í áhættuhópi hvað varðar málþróun og orðaforða. Stöðugt fleiri börn ná ekki að lesa eftir 2. bekk (ca. 40% í Reykjavík á árunum 2002-2019). Árangur í PISA fer stöðugt niður á við í mikilvægum fögum eins og lesskilningi þar sem 19% stúlkna og 34% drengja 15 ára lesa sér ekki til gagns (PISA 2018). Svo er það hópur sem dettur út úr framhaldsskóla. 31% drengja, 22% stúlkna og 62% innflytjenda. Oft má rekja þeirra áskoranir til að grunnskólanámið gekk ekki vel hjá þeim. Margar ástæður geta hafa valdið því og þar má nefna slæma lestrarkunnáttu, vöntun á áskorunum miðað við færni þannig að flæði næst ekki, kvíða, leiða, vöntun á þjálfun og/eða vöntun á eftirfylgni sem getur verið bæði frá foreldrum/forráðamönnum og kennurum.

Hermundur Sigmundsson er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í …
Hermundur Sigmundsson er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar við Háskóla Íslands. Kristinn Magnússon


Norskar rannsóknir sýna fram á sterkt samband milli árangurs í grunnskóla og hverjir ljúka framhaldsskóla. Stöðugt fleiri börn mælast of þung. Stöðugt fleirri börn taka svefnlyf, róandi lyf og eru greind með ADHD. Einnig mælast stöðugt fleiri börn með skerta félagsfærni. Þetta er stór samfélagsleg áskorun sem við verðum að taka á. Stjórnmálamenn verða að fara að taka á þessari alvarlegu stöðu og vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum en ekki eingöngu plástra með átaksverkefnum. Foreldrar verða að fara að skoða forgangsröðun sína og gefa börnum meiri tíma og stuðning.

Vísindi

Rannsóknir sýna klárlega mikilvægi þess að lítil börn búi við örvandi umhverfi sem er úthugsað af fagmennsku (ekki Sensory Overload eða kaffæra skilningarvitin). Bæði hefur það jákvæð áhrif á færni hvað viðkemur fjölmörgum þáttum eins og tungumáli, orðaforða og málskilningi auk þess að efla vitsmunafærni og efla tengsl og félagsfærni. Kenning Gilberts Gottliebs sýnir okkur að þróun einstaklinga er alltaf samspil milli gena, taugakerfis, atferlis og umhverfis. Bæði Esther Thelen, Karen Adolph, Minja Hadders-Algra og við höfum með verklegum rannsóknum sýnt fram mikilvægi örvandi umhverfis til að efla færni, þekkingu og þróun. Einnig sýna nýjar rannsóknir að aukin örvun í umhverfi barna á aldrinum 3 til 21 viku til 5 ára aldurs gefur stærri heila sem þýðir stærra taugakerfi með meiri möguleikum á öllum sviðum. Rannsóknir dr. Valdísar Jónsdóttur benda til þess að hávaði sé alltof mikill í leik- og grunnskólum og að hátt hlutfall barna heyri ekki nógu vel í kennara. Þetta telur hún vera eina af rótum lélegs árangurs í PISA, en hávaði dragi úr les- og málskilningi barna.

Möguleikar

Við sem foreldrar, afar, ömmur, leikskólakennarar og aðrir sem vinnum með börn höfum mikilvægt hlutverk með að gefa börnum bæði örvandi og ögrandi umhverfi. Einnig þurfum við að gefa börnum réttar áskoranir. Bíðum með að láta börn hafa snjallsíma fyrr en eftir barnaskólann og minnkum notkun á tækjum sem tengjast neti. Við eigum að skammta tímann í netheimum og vera þar með börnunum okkar við sjónvarp eða í símanum, fylgjumst með, tökum þátt og ræðum það sem er að gerast. Gefum þeim áskoranir sem tengjast málþróun, hreyfingu, félagsfærni eða að læra nýja hluti. Í stað þess að láta barn fá ipad í hendurnar, getum við boðið upp á samskipti og þátttöku í fullorðinsstörfum, opinn og þroskandi efnivið og kubba, blað og liti, leir o.fl. Barnið þarf að vera virkt og skapandi í leik og vinna með áskoranir og nota til þess huga, hjarta og hönd þannig að víðtækur þroski eigi sér stað.

Svava Hjaltalín er grunnskólakennari og verkefnastjóri við Rannsóknasetur um menntun …
Svava Hjaltalín er grunnskólakennari og verkefnastjóri við Rannsóknasetur um menntun og hugarfar við Háskóla Íslands.

Eflum:

Málþróun/orðaforða: eflum málþróun og orðaforða með ríkulegum samskiptum. Tölum við börnin frá fyrsta degi með hjali og hljóðum, orðum og setningum, svipbrigðum og líkamstjáningu, hreyfingu, leikjum, söngvum og þulum. Rannsóknir sýna að við tölum meira við stúlkur frá fæðingu þannig að aldrei má gleyma drengjunum. Lesum fyrir öll börn og sýnum þeim myndabækur með myndum af ólíkum hlutum eins og bílum, dýrum, fuglum og notum fjölbreytt og stór orð. Það má segja að við þurfum að baða börnin í tungumálinu.

Tengsl/félagsfærni: eflum tengsl og félagsfærni hjá börnum. Sköpum jákvæðar aðstæður þar sem börn fá möguleika til að upplifa góða samveru, vingjarnleika og samtöl. Sem hefur sýnt sig að vera mjög mikilvæg fyrir heilastarfsemi. Rannsóknir Pauls Gilberts hafa ótvírætt leitt í ljós að kærleiksrík samvera hefur áhrif á hormónastarfsemi. þar sem hormónið oxytósín hefur mikil áhrif á okkar vellíðunartilfinningu. Gilbert bendir á að upplifa góðvild, hógværð, hlýju og samúð hefur jákvæð áhrif á alla líkamsstarfsemi okkar og er eins konar vítamín fyrir heilastarfsemi okkar.

Margrét Pála Ólafsdóttir er kennari og höfundur Hjallastefnunnar.
Margrét Pála Ólafsdóttir er kennari og höfundur Hjallastefnunnar.

Hreyfingu: eflum hreyfingu barna á leikskólaaldri þannig að börn séu að lágmarki að stunda hreyfingu í einn tíma á dag. Gefum þeim kost á leik, bæði inni og úti, þar sem efldar eru bæði fínhreyfingar og grófhreyfingar. Hreyfing er einnig mikilvæg fyrir sjálfsmynd og hreysti.

Snemmtæka íhlutun: búum leikskólaumhverfið þannig úr garði að hægt sé að grípa barn með málþroskaröskun eins fljótt og þarf, t.d. með aðkomu talmeinafræðinga.

Einbeitingu og athygli: minnkum hávaða sem og sjónrænan hávaða (e. visual noise) í umhverfinu. Hlustun og skilningur byggir á að barn heyri skýrt.

Tíma fullorðinna til að vera með börnum. Tölum við þau en ekki til þeirra, spyrjum þau meira og svörum minnu sjálf. Verum í augnsambandi til að barnið hlusti og skilji betur. Hvílum símann.

Þar að auki væri mikilvægt að vinna að því að efla gróskuhugarfar hjá foreldrum og starfsfólki leikskóla. Sjáum alltaf möguleikana hjá hverju barni og hvernig það getur vaxið þegar áhugi og hvatning er fyrir hendi. Notum jákvæða styrkingu í anda Csikszentmihalyi og í stað þess að einblína á útkomuna, skulum við beina athyglinni að ferlinu og framförunum hjá hverju barni.

Hlúum að börnunum okkar og eflum mannauð!

Hermundur er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og við Rannsóknasetur um menntun og hugarfar við Háskóla Íslands. Svava er grunnskólakennari og verkefnastjóri við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar. Margrét Pála er kennari og höfundur Hjallastefnunnar.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »