Alexa hvatti barn til að snerta innstungu

Amazon hefur uppfært raddstýrikerfið Alexu eftir að það hvatti barn …
Amazon hefur uppfært raddstýrikerfið Alexu eftir að það hvatti barn til hættulegs athæfis. AFP

Bandaríski verslunarrisinn Amazon hefur uppfært raddstýrikerfið Alexu eftir að það hvatti 10 ára gamla stúlku til þess að snerta innstungu með smápeningi.

„Dóttur mína langaði að reyna fleiri áskoranir“

Þegar stúlkan hafði beðið Alexu um hugmyndir að áskorunum sagði hún: „Stingdu símhleðslutæki hálfa leiðina í samband og snertu svo óvarða hleðsluklóna með smápeningi.“

Talsmenn Amazon segjast hafa lagað þessa villu í kerfinu um leið og fyrirtækinu hafi verið gert vart við, að því er greint frá í frétt BBC.

„Við höfðum verið að leika okkur að líkamlegum áskorunum eins og að leggjast niður og rúlla okkur í hring með skó á fætinum, áskorun sem við sáum á Youtube. Það var vont veður úti og dóttur mína langaði að reyna fleiri áskoranir,“ skrifar Kristin Livdahl, móðir stúlkunnar, um atvikið á samfélagsmiðlinum Twitter.

Það er þá sem gagnvirki hátalarinn Echo, sem er frá Amazon og er raddstýrt af Alexu, lagði til að mæðurnar reyndu við áskorunina umræddu sem hann sagðist hafa fundið á netinu.

Ákorunin geti leitt til þess að fólk missti útlimi

Hin hættulega áskorun sem kölluð hefur verið „the penny challenge“ (e. smápeningaáskorunin) fór í dreifingu á TikTok og öðrum samfélagsmiðlum fyrir um ári.

Málmar leiða rafmagn vel og sé þeim stungið inn í rafmagnsinnstungur getur það leitt til raflosts, íkveikju eða annars konar skaða.

„Ég veit að það er hægt að missa fingur, hendur og handleggi við þetta,“ sagði Michael Clusker, stöðvarstjóri hjá slökkviliðinu í Carlisle East, í samtali við dagblaðið The Press í Yorkshire árið 2020.

„Þetta endar með því að einhver slasast alvarlega,“ bætti hann við.

Slökkviliðsmenn í Bandaríkjunum hafa einnig mælt gegn því að fólk taki þátt í áskoruninni.

Móðirin greip inn í og öskraði „Nei, Alexa! Nei!“

Þegar Alexa lagði þessa áskorun til greip móðir stúlkunnar inn í og öskraði:„Nei, Alexa! Nei!“ að því er hún greindi sjálf frá í færslu sinni um atvikið á Twitter.

Bætti hún því þó við að dóttir hennar væri „of klár til að gera eitthvað svona“.

Í yfirlýsingu sem Amazon sendi fréttastofu BBC segjast talsmenn fyrirtækisins hafa uppfært Alexu til að koma í veg fyrir að hún mælti með slíkum áskorunum aftur.

„Traust viðskiptavina er miðpunkturinn í öllu sem við gerum og Alexa er hönnuð til að veita viðskiptavinum nákvæmar, viðeigandi og gagnlegar upplýsingar,“ segir í yfirlýsingunni.

„Um leið og við urðum vör við þessa villu brugðumst við strax við og löguðum hana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert