Grænlandsjökull rýrnar um einn Hofsjökul á ári

Mynd frá því í sumar frá Baffinsflóa, nálægt Pituffik í …
Mynd frá því í sumar frá Baffinsflóa, nálægt Pituffik í Grænlandi. AFP/Karem Yücel

Grænlandsjökull rýrnar um það sem nemur einum Hofsjökli á hverju ári.

Í tilkynningu hjá Veðurstofu Íslands segir að afkoma Grænlandsjökuls hafi aðeins mælst jákvæð í tvö skipti en hann hefur rýrnað að jafnaði um 200 gígatonn á ári frá aldamótum, sem er rúmlega einn Hofsjökull. Hofsjökull hefur þá rýrnað um tæplega 1 gígatonn á ári á sama tímabili.

Veðurstofa Íslands og Alþjóðaveðurmálastofnunin (WMO) stóðu fyrir málstofu um breytingar á freðhvolfinu (e.cryosphere) – hugtak sem nær yfir allt frosið vatn á hnettinum – á loftlagsfundi Sameinuðu þjóðanna í Egyptalandi, COP27.

Jöklar í Ölpunum lækkað um 4 metra í ár

Á málstofunni var meðal annars sagt frá því að jöklaleysing í Ölpunum hafi í ár slegið öll met frá upphafi mælinga. Að jafnaði lækkuðu jöklar í svissnesku Ölpunum um 4 metra á þessu ári.

„Er það rakið til óvenju lítillar vetrarsnjókomu og endurtekinna hitabylgna, sem gengu yfir Evrópu á liðnu sumri. Einnig settist ryk frá Sahara á jöklana og olli aukinni leysingu,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

Rúmmál jökla í svissnesku Ölpunum hefur minnkað um rúman þriðjung á þessari öld.

mbl.is