„Stórkostleg vísindauppgötvun“ boðuð

Athafnasvæði Lawrence Livermore-rannsóknarstofunnar í Livermore-Amador-dalnum suður af Oakland í Kaliforníu.
Athafnasvæði Lawrence Livermore-rannsóknarstofunnar í Livermore-Amador-dalnum suður af Oakland í Kaliforníu. Ljósmynd/Encyclopeda Britannica

Orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna boðaði í gær fréttir af „stórkostlegri vísindauppgötvun“ sem von væri á nú í vikunni í kjölfar þess er fjölmiðlar vestra greindu frá stóru skrefi sem stigið hefði verið á vettvangi rannsókna á kjarnasamruna, líklega öflugasta orkugjafa sólkerfisins.

Að sögn blaðsins Financial Times voru það vísindamenn við Lawrence Livermore-rannsóknarstofuna í Kaliforníu sem lýstu því yfir að þeir hefðu náð að framleiða meiri orku með minni í tilraunaofni, það sem kallað er „net energy gain“ á vettvangi vísindanna.

Standist sú yfirlýsing er það í fyrsta sinn sem slík orkuframleiðsla næst með kjarnasamruna, sem er orkugjafi sólarinnar, og yrði gríðarstórt skref í átt að orku sem ekki byggist á bruna jarðefnaeldsneytis.

Bara spurning um tíma

Orkumálaráðuneytið og talsmenn Lawrence Livermore tjáðu AFP-fréttastofunni að þeir gætu ekki tjáð sig um fregnir Financial Times að svo búnu en sögðu Jennifer Granholm orkumálaráðherra tilkynna formlega um uppgötvunina á morgun, þriðjudag. Samkvæmt Lawrence Livermore-stofunni stendur greiningarvinna enn yfir og starfsfólk stofunnar hlakkaði til að deila frekari fréttum með almenningi.

Dagblaðið Washington Post hefur enn fremur greint frá árangrinum og kveðst hafa fengið hann staðfestan frá tveimur heimildarmönnum sem þekkja til rannsóknanna. „Í augum okkar flestra var þetta bara spurning um tíma,“ segir annar þeirra við blaðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert