Mikilvægi stöðumats

Mikilvægt er að meta stöðu nemenda til að þau geti …
Mikilvægt er að meta stöðu nemenda til að þau geti fengið verkefni við hæfi, segja höfundar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ýmislegt bjátar á í íslensku skólakerfi og virðist til dæmis svo sem rúmlega þriðjungur barna eigi á brattann að sækja í lestri og stærðfræði, skrifa Hermundur Sigmundsson, prófessor við Háskóla Íslands, og Svava Þ. Hjaltalín, grunnskólakennari og verkefnastjóri við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar í Háskóla Íslands, og bæta við aðgera megi betur því á Íslandi eigum við góða skóla fulla af metnaðarfullu og kraftmiklu fólki.

Staða: Svo virðist sem um 38-40% barna nái ekki grunnfærni í námsgreinum eins og lestri og stærðfræði, samkvæmt þeim mælingum sem liggja fyrir. Það er há tala og aðkallandi að bregðast við með árangursríkum hætti. Hvert barn skiptir máli, vegur framtíðar þess er óráðinn en veganestið þarf að vera gott.

Hvaða tölur höfum við? 3 ára: Allt að 40% barna eru í áhættuhópi hvað viðkemur málþróun og orðaforða (kannanir í einu bæjarfélagi á tímabilinu 2015-2020). Árið 1998 voru 16% í þeim áhættuhópi. Hérna þarf kannanir á landsvísu.
7/8 ára: 39% þeirra ná ekki að lesa sér til gagns eftir 2. bekk. Þetta eru tölur frá 2019 í Reykjavík. Árið 2002 voru það 33% barna. Hérna þarf kannanir á landsvísu.
15 ára: 38% þeirra ná ekki grunnfærni í lesskilningi og stærðfræði. Einnig eru 30% þeirra í vanda hvað viðkemur félagsfærni (lægst í Evrópu af OECD-ríkjum).

Hermundur Sigmundsson, prófessor við Háskóla Íslands og Norska tækni- og …
Hermundur Sigmundsson, prófessor við Háskóla Íslands og Norska tækni- og vísindaháskólann. Kristinn Magnússon

Getum gert betur

Þessar tölur sýna að það þarf að gera betur og við getum gert betur.
Vísindi: K. Anders Ericsson (1947-2020) og Mihaly Csikszentmihalyi (1934-2021) settu fram gífurlega mikilvægar kenningar innan námssálarfræði (learning psychology) og um áhugahvatarþætti (motivational factors).

Kenning Ericssons er um markvissa þjálfun (deliberate practice) og kenning Csikszentmihalyis er um flæði (flow). Náir þú barni í flæði gengur því vel, en of þung verkefni geta valdið kvíða og of létt verkefni leiða.

Lykill í kenningu Ericssons (markviss þjálfun) er stöðumat og eftirfylgni. Lykill í kenningu Csikszentmihalyis (flæði) er áskoranir miðað við færni.
Til að geta veitt markvissa þjálfun og viðeigandi áskoranir er stöðumat algjör lykill. Stöðumat sem gefur til kynna hvar hver einstaklingur er staddur í því sem við viljum bæta.

Leitum í sarpinn til þessara sem og annarra vísindamanna.

Svava Þ. Hjaltalín, grunnskólakennari og verkefnastjóri við Rannsóknarsetur um menntun …
Svava Þ. Hjaltalín, grunnskólakennari og verkefnastjóri við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar við Háskóla Íslands.

Hvar er stöðumatið?

Þegar við sem dæmi tökum fyrstu skref í lestrarkennslu - þá verðum við að vita hversu marga bókstafi og þeirra hljóð barnið kann. Þegar við vitum það er hægt að setja í gang markvissa þjálfun og barnið fær þá réttar áskoranir. Þess vegna er það með ólíkindum að í íslensku menntakerfi virðist einfalt stöðumat hafa „gleymst“ (finnst ekki) – og það kemur þess vegna klárlega niður á markvissri þjálfun. Þegar er spurt hversu mörg prósent barna geta lesið þegar þau hefja skólagöngu – er fátt um svör. Það sama gildir þegar ólík bæjarfélög voru spurð hversu mörg prósent barna geta lesið sér til gagns eftir 2. bekk. Engin svör bárust nema tölur úr Reykjavík frá 2002-2019, sem sýna þróunina 67% til 61%.

Sem sagt: Það vantar möguleika til að mæla árangur og framfarir.
Í Finnlandi er lögð áhersla á beina kennslu/markvissa þjálfun, á gott stöðumat/mælingar og megindlega aðferðafræði. Enda eru finnsku stúlkurnar fremstar (númer 3 af 76) í heiminum í PISA. Það er ekki úr vegi að leita til finnska menntakerfisins og þeirra mætu vísindamanna.
Möguleikar: Við teljum það gífurlega mikilvægt að þróa einfalt stöðumat fyrir grunnfærni eins og lestur, stærðfræði og náttúrufræði. Stöðumat þarf að miðast við hvern árgang. Í rannsóknar- og þróunarverkefninu Kveikjum neistann höfum við valið að kalla það vörður. Niðurstöður einfaldra mælinga gera kennara kleift að veita hverju barni réttar áskoranir miðað við færni þess og setja í gang markvissa þjálfun. Það er mikilvægt að styðja starf kennara og leiða það til góðs árangurs.

Við þurfum einnig að fá kannanir á landsvísu hvað viðkemur:
3 ára: Málþróun/orðaforða/félagsfærni
6 ára: Hvað eru mörg prósent barna búin að brjóta lestrarkóðann, eru farin að hljóða sig gegnum orð við byrjun skólagöngu?
7/8 ára: Hvað eru mörg börn fulllæs, mælt út frá aldurssvarandi texta eftir 2. bekk?
9 ára: Hvað eru mörg prósent sem búa yfir 80% kunnáttu í stærðfræði og náttúrufræði?

Þeim mun einfaldari mælitæki, þeim mun betra.

Við þurfum að efla grunnfærni hjá börnum og unglingum svo markvisst sé hægt að bæta við þekkingu þeirra. Við eigum góða skóla á Íslandi, fulla af metnaðarfullu og kraftmiklu fólki. Í skóla sem er jöfnunartæki höfum við á Íslandi alla burði til að gera vel. Eflum mannauð!

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »