Þjónusta Starlink nú aðgengileg á Íslandi

Loftnet Starlink.
Loftnet Starlink. AFP/Yasuyoshi Chiba

Netþjónusta bandaríska tækni- og fjarskiptafyrirtækisins Starlink er nú aðgengileg á Íslandi, en um er að ræða netþjónustu sem veitt er í gegnum gervihnetti. 

Starlink er í eigu SpaceX, sem er að stórum hluta í eigu Elon Musk. Mark­mið Starlink-verk­efn­is­ins er að dreifa netteng­ingu um all­an heim­inn. Kerfið fékk talsverða athygli þegar Musk ákvað að opna fyrir notkun þess í Úkraínu eftir að Rússar gerðu innrás í landið, en það hefur auðveldað samskipti talsvert frá landinu og átakasvæðum.

Á korti á vefsíðu Starlink má sjá að hægt er að panta þjónustu fyrirtækisins hér á landi í dag, en áður hafði verið greint frá því að þjónustan yrði aðgengileg hér á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Skoðun blaðamanns bendir til að einfaldur móttakari fyrir einstaklinga kosti 78.500 krónur, en hægt er að fá sterkari móttakara fyrir rúmlega 400 þúsund. Þá er mánaðargjald þjónustunnar 15 þúsund krónur. Ekki virðist enn í boði þjónusta fyrir fyrirtæki. Hægt er að skoða kortið á vefsíðu Starlink hér.

Steinn Örvar Bjarnason, netkerfasérfræðingur hjá Advania, segir það standa til hjá Advania að fara í prófanir og safna gögnum til að meta hvort Starlink geti verið spennandi kostur, þá aðallega fyrir fyrirtækinu í landinu. Advania hefur gengið frá pöntun fyrir þann búnað sem þarf og Steinn gerir ráð fyrir því að hann berist eftir tvær til fjórar vikur.

Elon Musk fer með stjórn SpaceX sem er eigandi Stalink …
Elon Musk fer með stjórn SpaceX sem er eigandi Stalink fyrirtækisins. AFP/Jim Watson

En hvað er Starlink og hverjir eru kostir þjónustunnar?

„Í grunninn erum við að tala um að þetta sé netsamband við hinn ytri heim, að enn verði hægt að ná sambandi við þjónustu sem er utan Íslands ef það kemur til dæmis eitthvað vandamál upp með sæstrengina okkar,“ segir Steinn í samtali við mbl.is.

„Þetta væri líka hægt að nota til að þjónusta landsbyggðasvæði hér á landi sem ekki ná netsamandi í gegnum streng á landi,“ segir hann jafnframt. Þá gæti þjónustan einnig nýst skipum á sjó.

mbl.is