Elinóra fyrst kvenna til að gegna embættinu

Elinóra Inga tekur við viðurkenningu frá Alireza Rastegar, forseta IFIA.
Elinóra Inga tekur við viðurkenningu frá Alireza Rastegar, forseta IFIA. Ljósmynd/Aðsend

Elinóra Inga Sigurðardóttir, stofnandi og formaður KVENN, Félags kvenna í nýsköpun, var í gær kjörin varaforseti Alþjóðasamtaka uppfinningafélaga (IFIA) á aðalfundi samtakanna í Genf í Sviss.

Hún er fyrst kvenna til að gegna því embætti í 55 ára sögu félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

IFIA var stofnað árið 1968 af sjö uppfinningafélögum í jafnmörgum löndum þar á meðal Svíþjóð sem á elsta uppfinningafélag í heimi stofnað 1896. Fjöldi aðildarlanda nú eru yfir 100 talsins, þar á meðal eru Kína og Indland.

Allir geta fengið góða hugmynd

Elinóra Inga hefur setið í framkvæmdarnefnd samtakanna í 15 ár sem fulltrúi Íslands þar sem hún hefur verið formaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna á árunum 1998 til 2007, og situr enn í stjórn þeirra.

Elinóra Inga hefur verið ötul í að hvetja fólk til nýsköpunar, enda menntuð sem nýsköpunarráðgjafi og hefur m.a. tilnefnt yfir 70 íslenskar konur og teymi til GlobalWIIN viðurkenningar síðan 2007. Elinóra situr í nýsköpunarnefnd FKA, og í BPW. Hún hefur talað fyrir samvinnu milli ólíkra aðila til að auka möguleika þeirra til að koma hugmyndum í framkvæmd. Allir geta fengið góða hugmynd óháð aldri, kyni, uppruna, menntun eða búsetu, lykillinn er að tala við fólk með reynslu og vera þáttakandi í tengslaneti eins og SFH og KVENN,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert