Hvað segja sérfræðingarnir um Icesave

Í Sunnudagsmogganum er leitað til sjö sérfræðinga um þá kosti sem blasa við þjóðinni í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samningana. Í vinnslu blaðsins víxluðust svör Þorvaldar Gylfasonar, prófessors við Háskóla Íslands, og Erlends Magnússonar, framkvæmdastjóra og bankaráðsmanns í Landsbanka Íslands. Beðist er velvirðingar á því og eru svörin endurbirt hér með réttum formerkjum auk þess að með fylgja svör allra sérfræðinganna sjö í fylgiskjali neðst í fréttinni.

Já eða nei við Icesave

Svör Erlends og Þorvaldar.

1. Hvaða afleiðingar telur þú líklegt að það hafi ef Icesave-samningurinn sem Alþingi samþykkti í desember fellur í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Erlendur:

Það verður enginn heimsendir.  Það vilja allir aðilar ná samningum.  Þó svo að örfáir stjórnmálamenn í Bretlandi og Hollandi hafi hátt í fjölmiðlum, mega menn ekki fara á taugum. 

Það er mun æskilegra að samningurinn verði felldur en samþykktur, því óbreyttur samningur er stórhættulegur til lengri tíma litið – þeir sem vilja að hann verði staðfestur eru allt of uppteknir af skammtímasjónarmiðum.  Best af öllu er hins vegar að það náist að gera þær breytingar á núverandi samningum að það þurfi ekki að koma til þjóðaratkvæðagreiðslu, heldur geti Alþingi samþykkt nýjan samning, sem hafi víðtækari stuðning í samfélaginu og forseti geti staðfest.“

Þorvaldur:

Norðurlöndin munu þá næstum örugglega hætta stuðningi við efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar vegna forsendubrests. Þá mun Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) eiga úr vöndu að ráða, því að honum er samkvæmt reglum ekki fært að styðja efnahagsáætlun aðildarlands upp á önnur býti en þau, að lánsféð til stuðnings áætluninni dugi. Sjóðurinn getur samkvæmt reglum ekki útvegað meira fé sjálfur. Vandséð er, að nokkurt annað land bjóði fram fé, ef Norðurlöndin draga sig í hlé.  AGS þarf þá annaðhvort að skilja Ísland eftir einangrað frá erlendum lánsfjármörkuðum eða hjálpa stjórnvöldum að setja saman nýja áætlun með harkalegri niðurskurði ríkisútgjalda og auknum álögum á fólk og fyrirtæki til að fylla gapið, sem opnast við brottfall norrænu lánanna.“

2. Hverjar telur þú þá líkurnar á greiðslufalli íslenska ríkisins á næstu árum?

Erlendur:

Það eru afar litlar líkur á greiðslufalli íslenska ríkisins á þessu ári og hinu næsta.  Gjaldeyrisvarasjóðir verða hins vegar orðnir afar veikir þegar líður á næsta ár, hafi ekki náðst að mynda viðunandi innflæði erlends fjármagns til landsins til þess að standa undir endurfjármögnun erlendra lána ríkisins og þeirra aðila sem njóta ríkisábyrgðar.“

Þorvaldur:

Falli Icesave-samningurinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni eykst  hættan á enn frekari upplausn á vettvangi stjórnmálanna. Þegar það rennur upp fyrir þeim stjórnmálamönnum, sem töfðu afgreiðslu Icesave-málsins á Alþingi von úr viti, að án stuðnings Norðurlanda mun hagur fólks og fyrirtækja þrengjast til muna í bráð, annaðhvort vegna frekara gengisfalls krónunnar og aukinnar verðbólgu, ef AGS dregur sig í hlé, eða vegna herts aðhalds í fjármálum ríkis og byggða. Fari svo, eykst þá einnig hættan á, að ríkið geti ekki staðið við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Á það mun reyna fyrst fyrir lok næsta árs, þegar stórt erlent lán fellur í gjalddaga.“

3. Hvað afleiðingar telur þú líklegt að það hafi ef þjóðin samþykkir Icesave-samninginn frá því í desember?

Erlendur:

Það yrði veruleg ógnun við efnahag, velferð og menningarlíf í landinu næstu áratugi.  Það gæti kostað okkur sjálfstæðið að lokum.  Þó svo að mestar líkur séu á því að það tækist að standa undir kröfunum, með því að skerða lífskjör landsmanna næstu 20 árin, þá eru nokkrar líkur til þess að það gengi ekki. 

Forsendur þess að okkur takist að standa við núverandi samning er að það verði sambærilegur hagvöxtur og verðbólga í okkar heims-hluta og verið hefur síðustu 20 árin. Það er hins vegar margt sem bendir til þess að svo verði ekki.  Íbúum Evrópu fer fækkandi og þeir eldast.  Af því leiðir að þó svo að framleiðni á mann aukist, eru þó nokkrar líkur á því að hagvöxtur í Evrópulöndum verði afar lítill. Það er einnig hætta á að það myndist svipað ástand í Evrópu og í Japan síðustu tvo áratugina, þar sem verðbólga hefur verið svo til engin.  5,5% fastir vextir, þar sem tæplega helmingur er hreinn hagnaður lánveitanda, eru óheyrilega háir vextir að bera af svona stórum höfuðstól verði hagvöxtur og verðbólga lítil.“ 

Þorvaldur:

Þá skapast skilyrði til að halda endurreisnarstarfinu áfram með vel útfærðum umbótum í ríkisfjármálum og bankamálum auk annars. Kostnaðurinn vegna Icesave-skuldbindinganna er umtalsverður, en hann er þó tiltölulega lítill miðað við annan kostnað, sem þjóðin þarf að bera af völdum hrunsins.“

4. Hverjar telur þú þá líkurnar á greiðslufalli íslenska ríkisins á næstu árum?

(Ekkert svar frá Erlendi)

Þorvaldur:

Verði Icesave-samningurinn samþykktur, verða líkurnar á
greiðslufalli ríkisins minni en ella að öðru jöfnu. Hversu miklu minni þær verða getur enginn vitað.“

5. Hvernig er æskilegast fyrir Ísland að vinna sig út úr þessu máli, að þínum dómi?

Erlendur:

Sum pólitísk mál eru það stór að þau á að leysa á þverpólitísk-um grunni.  Icesave er þess konar mál.  Það yrði gríðarlega sterkt að mæta með þverpólitíska nefnd skipaða sterkum stjórnmálamönnum á fundi í London og Amsterdam til þess að finna viðunandi niðurstöðu fyrir alla aðila.  Nefndin þyrfti líka að heimsækja Berlín, París og Brussel til að skýra afstöðu okkar út fyrir ráðamönnum og fá stuðning þeirra.

Allir stjórnmálaflokkarnir eiga nú þegar að skipa nýja samninga-nefnd, skipaða einum manni frá hverjum flokki undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.  Nefndin á að ráða sér eina af öflugustu lögfræðiskrifstofu í London og aðra í Hollandi sér til ráðgjafar, ekki aðeins í skjalagerð heldur einnig í að meta mögulegar lausnir og taka þátt í samningafundum með henni.  Ég hef komið að alþjóðaviðskiptum í meira en tvo áratugi og þekki það af reynslu að þjónusta bestu lögmanna í erfiðum samningum er besta fjárfesting sem til er.  Nefndin þarf umboð allra sinna flokka til þess að semja um viðunandi lausn á pólitískum grunni. 

Málstaður Íslands nýtur mikils stuðnings meðal almennings og viðskiptalífsins í Bretlandi og Hollandi (t.d. yfir 90% þeirra sem skrifuðu athugasemdir á bloggsíðu Financial Times um þetta mál tóku afstöðu með Íslendingum).  Það eru því allar forsendur til þess að ná niðurstöðu, ef menn taka strax á málum.

Ég tel raunhæfa niðurstöðu felast í: 

A) Hollendingar og Bretar lána Íslandi á vaxtakjörum sem eru hin sömu og þeirra eigin fjármagnskostnaður – þannig geta þeir réttlætt innanlands að þeir fái sitt fjármagn til baka.  Það er engin ástæða til þess að þessi lönd séu að græða óheyrilegar upphæðir á íslenskum skattborgurum, þess vegna í meira en mannsævi eins og núverandi samningar fela í sér.

B) Vextirnir verða fljótandi, sem þýðir að þeir fylgja betur hagvexti og verðbólgu – eins og er þýddi það innan við 1% vextir á ári. 

C) Íslendingar byrja strax að greiða vexti, þannig að það safnist ekki upp stór höfuðstóll að óþörfu.  Aukin skuldsetning er ekki það sem landið þarf.

D) Það verður þak á árlegar greiðslur sem tekur mið af þjóðarframleiðslu. 

E) Við sættum okkur í staðinn við að hægt sé að framlengja lánið á 5 ára fresti eftir 2024, hafi það ekki verið greitt upp þá þegar, en í hvert sinn verði sest að samningaborði til þess að meta stöðuna.“

Þorvaldur:

Þjóðin þarf að snúa bökum saman og kappkosta að standa við skuldbindingar ríkisins í útlöndum. Ríkisstjórnin þarf að halda fast við áætlunina, sem lagt var upp með fyrir rösku ári, og sjá jafnframt til þess, að ábyrgðarmenn hrunsins, bankamenn og aðrir, séu látnir sæta ábyrgð að lögum.  Þannig og aðeins þannig getur ríkisstjórnin áunnið sér traust almennings og sannfært hann um nauðsyn þess að bíta á jaxlinn, standa skil á erlendum skuldum ríkisins og reisa landið aftur úr rústum hrunsins.“

6. Voru gerð mistök við gerð Icesave-samningsins í upp-hafi eða var rétt að honum staðið af hálfu stjórnvalda?

 Erlendur:

Við eigum ekki að eyða orku okkar og tíma í að rekja hvaða mistök voru gerð og af hverjum.  Leggjum niður deilur okkar
innanlands og vinnum að lausn sem bæði við og mótaðilar
okkar geta orðið sáttir við.“

Þorvaldur:

Icesave-samningurinn getur talizt nokkuð hagfelldur Íslendingum í þeim skilningi, að Bretar og Hollendingar taka samkvæmt honum á sig hálfa ábyrgðina með því að krefja Íslendinga um ca. helming þeirrar fjárhæðar, sem þurfti til að bæta 400.000 innstæðueigendum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi skaðann, sem þeir urðu fyrir, þegar Landsbankinn hrundi. Það má kallast nokkuð vel sloppið miðað við kringumstæður. Falli samningurinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni, geta Bretar og Hollendingar krafizt þess að fá skaðann bættan að fullu. Erlendur dómstóll þyrfti að fjalla um þá kröfu.“

 
mbl.is

Bloggað um fréttina