Laxveiðiár í Noregi loka vegna hita

Annað árið í röð kemur til lokanna í einni þekktustu ...
Annað árið í röð kemur til lokanna í einni þekktustu laxveiðiá Noregs. Nú er lokunin ótímabundin þar til aðstæður lagast. Áin er 20 gráður og lofthiti 32 stig. Ljósmynd/FB síða Gaula

Einni þekktustu laxveiðiá Noregs, Gaula hefur verið lokað tímabundið. Ástæðan er vatnsleysi og mikil hitabylgja. Þetta var tilkynnt í gær  og tók lokunin gildi á hádegi í dag og mun gilda þar til aðstæður batna. Hitastig Gaula er hátt og veðurspá gerir ráð fyrir meiri hitum og nánast ógerningur er talið að lax sem er veiddur og sleppt á nýjan leik, lifi það af.

Norski fiskifræðingurinn Eva B. Thorstad sagði í tísti í dag að þetta væri afar óvenjulegt. Ástæðan væri hár hiti og vatnsleysi vegna hversu veðurlag hefur verið þurrt og heitt lengi. Í dag er hitastig Gaula 20 gráður og lofthiti 32. Búist er við meiri hlýindum og hitamet hafa verið að falla. Gaula er ein af stærstu laxveiðiám Noregs og hefur lax aðgang að 212 kílómetra svæði. Í fyrra veiddust þar 5.100 laxar og var sleppihlutfall 62%. Eva segir einnig að ár á stórum svæðum í bæði Noregi og Svíþjóð séu vatnslitar og afar heitar. Hún segir að komið hafi til lokana í stöku ám í Noregi áður en aldrei jafn mikið og núna. Þá berast einnig fréttir af lokunum á veiðisvæðum í Danmörku sökum veðuráhrifa. Þetta er annað árið í röð sem Gaula lokar tímabundið vegna þurrka og hita. Í fyrra gerðist það 28. júlí.

Ragna Sif Þórsdóttir með fallegan lax úr Víðidalsá. Hún átti ...
Ragna Sif Þórsdóttir með fallegan lax úr Víðidalsá. Hún átti að hefja veiðar í Noregi í gær en ánni Stjordal hefur verið lokað tímabundið. Ljósmynd/Aðsend

„Auðvitað er ég hundsvekkt“

Ragna Sif Þórsdóttir, hönnuður og veiðikona var á leið til Noregs í fyrramálið og átti að hefja veiðar í laxveiðiá í ánni Stjordal á Fossen svæðinu. Þriggja daga veiðitúr var framundan og fékk hún upplýsingar í gær um að ánni hefði verið lokað tímabundið vegna þurrka og mikilla hita. „Auðvitað er ég hundsvekkt. En það er svo sem ekkert að gera við þessu. Bara sýnir okkur hversu slæmt ástandið er. Þeir voru búnir að senda okkur tölvupóst að koma bara með einhendur og sleppa tvíhendunum. Vanalega er þessi á veidd með 14 feta tvíhendum að minnsta kosti.“

Þetta er annað árið í röð sem laxveiðiár í Skandinavíu verða illa úti í miklum hitum og þurrkum. Minnir óneitanlega á það ástand sem ríkir á Vestur hluta Íslands í sumar.

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is