Laxalúsin strádrepur seiði í Noregi

Þar sem laxaseiði ganga til sjávar í Noregi í námunda …
Þar sem laxaseiði ganga til sjávar í Noregi í námunda við opnar eldiskvíar er mikil hætta á að lús leggist á þau. Dæmi eru um 90% afföll að mati Hafrannsóknastofnunarinnar í Bergen. Ljósmynd/Aðsend

Gríðarleg vandamál steðja nú að villtum laxastofnum víða við Atlantshaf. Samverkandi aðstæður hafa gert það að verkum að víða er laxveiði vart svipur hjá sjón. Á Englandi og syðri hluta Skotlands er talað um hrun í veiðinni. Lítið af fiski og þurrkar og hitar steðja að. Á sama tíma horfa menn einbeittir til sjókvíaeldis úti fyrir ósum laxveiðiánna með margþættum vandamálum sem sífellt fleiri horfa til. Í Sporðaköstum á föstudag sögðum við frá lokunum á laxveiðiám í Noregi vegna mikilla hita og þurrka.

Jens Olav Flekke er formaður NASF North Atlantic Salmon Fund í Noregi og einnig mikill veiðimaður. Sporðaköst leituðu til hans með stóru spurninguna. Hver er staðan í Noregi með tilliti til villta laxins?

„Við erum víða að glíma við mikil vandamál. Ég var að koma úr ánni Lerdal sem rennur í Sognfjörð. Veiðin þar er ekki svipur hjá sjón. Fyrir þremur árum var hollið okkar með 56 laxa og meðalvigt var tíu kíló. Hollið okkar veiðir í fimm daga og þessi túr endaði með því að við fengum allt í allt þrjá laxa. Og þetta er breytingin á aðeins þremur árum,“ sagði Jens Olav í samtali við Sporðaköst.

Hefurðu kenningu um hvað veldur?

„Þarna erum við náttúrulega að tala um villta náttúru svo maður getur ekki fullyrt nema upp að vissu marki. En þó það sem við vitum er að fiskeldið í Sognfirði er skila frá sér miklu af laxalús og stundum verður þetta hreinlega óviðráðanlegt.“

Hafið þið einhverjar sannanir um að laxalúsin sé vandamálið?

„Við horfum á niðurstöður Hafrannsóknastofnunarinnar í Bergen. Vísindamenn þar hafa áætlað út frá rannsóknum og talningum að stór hluti seiðanna drepist á leið sinni framhjá eldiskvíunum. Tölurnar síðustu þrjú árin sína að ótrúlega hátt hlutfall af seiðunum drepst. Þetta er fiskurinn sem nú á að vera að ganga í sumar. Árgangurinn sem gekk út í sumar var einnig mældur og telur stofnunin að níutíu prósent seiða sem gengu út hafi drepist af völdum laxalúsar. Tölurnar fyrir árin 2016 til 2018 voru heldur lægri en samt gríðarleg afföll. Á bilinu sextíu til áttatíu prósent seiðanna drápust á leið sinni út fjörðinn. Þetta ástand er svo alvarlegt að þetta endar með því að ánni verður hreinlega lokað, ef ekkert verður að gert.“

Jens Olav segir mjög litlar laxagöngur hafa verið í Lerdalsána í sumar og hún vart svipur hjá sjón miðað við fyrri ár.

Þar sem laxalúsin fer úr böndum verður magn hennar skefjalaust. …
Þar sem laxalúsin fer úr böndum verður magn hennar skefjalaust. Jens Olav segir áhættuna aukast í réttu hlutfalli við aukinn lífmassa í opnum kvíum. Ljósmynd/JOF

Hann segir norsk yfirvöld í raun vera búin að samþykkja stórfelldan dauða seiða villtra laxa með svokallaðri umferðaljósastýringu milli eldisfyrirtækja og villtra seiða. Sýni mælingar að á bilinu 0 – 10% seiða drepist á útleið þá fá fiskeldisfyrirtækin grænt ljós á aukna framleiðslu. Ef dánarvísitalan er á bilinu 10 - 30% prósent þá kviknar gult ljós og bannað er að auka eldið. Ef vísitalan fer upp fyrir 30% þá tekur við rauða ljósið og fiskeldisfyrirtækið verður að draga úr framleiðslu um sex prósent. Þessi reglugerð tekur gildi í janúar á næsta ári. Hvað finnst Jens Olav um hana?

„Þetta er bara geðveiki. Með þessu er verið að samþykkja að allt að þrjátíu prósent seiða úr villtri laxveiðiá, séu eðlileg afföll þar sem sjókvíaeldi er stundað.“

Hann segir hávær mótmæli hafa verið sett fram en mjög erfitt sé að berjast við fiskeldisiðnaðinn. „Það er einhvern veginn þannig að nokkur hluti stjórnmálamanna telur þetta gríðarlega mikilvægt fyrir norskt efnahagslíf. Það er bara rangt.“

Óttastu að villti laxinn í Noregi, allavega á sumum svæðum verði hreinlega í útrýmingarhættu?

Já, það er minn ótti. Það er raunar að gerast nú þegar. Við sjáum bara stöðuna í Harðangursfirði. Þar er nánast enginn lax eftir. Í Sognfirði virðist þróunin á sama veg og þar eru nokkrar af þekktustu laxveiðiám Noregs.“

Hver er heildarstaðan í Noregi með laxveiðiárnar?

„Auðvitað eru sum svæði á ágætu róli og sérstaklega ef horft er til Norður Noregs. Þar er ástandið mun betra en í suður og vestur hlutanum. Versta ástandið er í kringum Harðangursfjörð. Þar er búið að loka flestum ám. Besta dæmið er hin fræga Vosso á. Síðasta góða árið hennar var 1989. Þarna er mikið af sjókvíaeldi og það hefur haft gríðarleg áhrif. Í Vosso ánni er búið að reyna allt sem hægt er. Þetta er mjög sorgleg saga og ekki hefur tekist að endurreisa ána. Það var einmitt á þessum slóðum sem eldið í Noregi hófst á sjöunda áratug síðustu aldar.“

Jens Olav viðurkennir að auðvitað sé margt fleira sem spilar inn í ástand villtu laxastofnanna en hann er algerlega sannfærður þegar hann segir; „Sjókvíaeldi og villtir laxastofnar eiga ekki samleið og eldið verður að vera aðskilið frá villta umhverfinu svo að náttúrulegi laxinn geti þrifist. Og þegar maður hugsar til þess hvað þið eruð að gera á Íslandi þá er bara ekki glóra í því að setja laxinn í sjókvíar. Ykkar sjór er mun kaldari en okkar og auðvitað ættu þið að nota allt heita vatnið ykkar í landeldi og ala laxinn við hitastig á bilinu tíu til tólf gráður, en það er þá sem hann vex hraðast. Þetta leiðir til þess að framleiðslukostnaður verður bara hærri. En heita vatnið er ykkar forskot á markaðnum. Hvort sem er lokaðar sjókvíar eða landeldi.“

Ertu að segja að Ísland sé á þeirri stefnu sem þið upplifið nú í Noregi?

„Já það er klárt. Þetta er bara spurning um tíma og hversu mikill lífmassi verður settur í eldi. Ein kví skiptir engu máli. En ef þær skipta hundruðum þá hefur þetta gríðarleg áhrif. Ef vandamál kemur upp í einni kvínni með lús þá aukast líkur á að hún breiðist út milli kvía.“

Jens Olav segir Ísland hafa forskot á mörgum sviðum. Bæði mikið landrými og heitt vatn. Þetta eigi Íslendingar að nýta sér og um leið að spyrna gegn skaðlegum umhverfisáhrifum af opnu sjókvíaeldi.

„Þið eigið að vera landið sem er þekkt fyrir sjálfbæra villta laxastofna og ekki ógna framtíð allra þeirra bænda og landeigenda sem taka arð af veiðiréttindum. Mikill fjöldi fólks vinnur líka beint við veiðina með einum eða öðrum hætti. Besta leiðin til að tryggja þetta er að stunda eldi í lokuðum kerfum í sjó eða einfaldlega landeldi.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert