Öryggisatriði fyrir veiðifólk

Neglt filt. Sífellt fleiri veiðimenn nota nagla til tryggja meiri …
Neglt filt. Sífellt fleiri veiðimenn nota nagla til tryggja meiri stöðugleika þegar vaðið er. Ljósmynd/ES

Eftir hörmulegt banaslys í Úlfljótsvatni er rétt að nefna nokkur öryggisatriði sem veiðifólk ætti að hafa í huga. Í fyrsta lagi skiptir miklu máli þegar fólk klæðist öndunarvöðlum að vera alltaf og undantekningarlaust með belti sem er hæfilega strekkt. Góð regla er líka að lofttæma vöðlurnar með því að setjast á hækjur sér áður en beltið er spennt. Sérstaklega á þetta við þegar vaðið er í stöðuvötnum og eða í miklu straum og dýpi. Ef fólk hrasar eða dettur er mikil hætta á að vatn þrýsti lofti neðst í vöðlurnar ef þær eru opnar og veiðimaður hreinlega snúist á hvolf.

Undirlag á vöðluskóm er mikilvægt öryggisatriði, sérstaklega þegar vaðið er á sleipum eða viðsjáverðum stöðum. Filtsólar eru betri á grjóti og klöppum en geta verið sleipir í grasi og mold en gúmmísólar eru góðir við þær aðstæður en þeir geta verið varhugaverðir ónegldir á klöppum og grjóti. Slitnir filtsólar geta verið hættulegir, þar sem gripið er orðið minna.

Frá Bíldsfelli við Sogið. Á þar sem veiðimenn ættu að …
Frá Bíldsfelli við Sogið. Á þar sem veiðimenn ættu að huga að björgunarvestum. svfr.is

Þar sem veitt er við erfiðar aðstæður eða hreinlega að fólk er óöruggt er sjálfsögð varúðarregla að vera með vaðstaf sér til halds og trausts. Hægt er að útbúa sinn eigin vaðstaf og setja í hann band þannig að hann liggi einfaldlega út frá veiðimanninum þegar veitt er og auðvelt er að grípa til hans þegar haldið er til baka. Veiðibúðir selja líka margar hverjar vaðstafi sem eru brotnir saman og fer lítið fyrir.

Í nokkrum ám ættu veiðimenn að huga að björgunarvestum. Þetta gildir einkum um vatnsmiklar ár og ár þar sem geta orðið snöggar breytingar á vatnshæð eins og í Soginu og fleiri ám þar sem eru virkjanir og stíflur ofan við veiðisvæðið. Sum veiðivesti og jakkar eru þannig úr garði gerð að þau eru líka björgunarvesti.

Þegar veitt er af bátum eða bryggjum er undantekningalaust rétt að klæðast björgunarvesti.

Loks eru það gleraugun sem hafa bjargað mörgu auganu. Sérstaklega á þetta við um fluguveiði, en allir geta átt misheppnað kast eða fengið á sig óvænta vindhviðu. Þá getur flugan hæglega lent í veiðimanni og þá er það bara spurning um heppni hvar hún lendir.

Þetta eru atriði til umhugsunar fyrir alla og sérstaklega ættu reyndari veiðimenn að kenna þeim yngri þessi atriði og gefa hvergi afslátt í byrjun þannig að þetta verði hluti af veiðinni sjálfri.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
105 cm Blanda Nigel Hawkins 8. júlí 8.7.
104 cm Svalbarðsá Viggó Júlíusson 6. júlí 6.7.
104 cm Nesveiðar Hugo 29. júní 29.6.
104 cm Nesveiðar Aron Pálmarsson 27. júní 27.6.
107 cm Nesveiðar Hilmar Hafsteinsson 25. júní 25.6.
101,5 cm Laxá í Kjós Guðjón Þ. Guðjónsson 23. júní 23.6.
101 cm Blanda Pétur Pálsson 21. júní 21.6.

Skoða meira