Mikil fjölbreytni í Eyjafjarðará

Sigurður Árni með bleikjuna úr Ármótum. Hann er ættaður frá ...
Sigurður Árni með bleikjuna úr Ármótum. Hann er ættaður frá Torfufelli þannig að hann var sannarlega á heimavelli. Ljósmynd/Jón Svavar

Það er óhætt að segja að fjölbreytileikinn sé allsráðandi í Eyjafjarðará þessa dagana. Stolt hennar, sterkur sjóbleikjustofn, er mætt og er fólk að gera ágæta veiði þegar kemur að henni. Óvíða á landinu eru svo stórar sjóbleikjur eins og í Eyjafjarðará. Það kom berlega í ljós í gær þegar Sigurður Árni Jósefsson landaði fallegri 61 sentimetra bleikju í Ármótum á fimmta svæði. „Þarna fellur Torfufellsáin í Eyjafjarðará. Ég er einmitt frá Torfufelli sem gerði þetta að besta fisk sem ég hef landað,“ sagði Sigurður Árni í samtali við Sporðaköst. „Hún tók púpuna Lilju sem er svört vínilpúpa með bleiku skotti. Ég hnýti hana í dag alltaf með bleikum glimmerkraga og eins skotti.“

Efst á myndinni er nýgenginn hnúðlaxahængur. Rétt svo mótar fyrir ...
Efst á myndinni er nýgenginn hnúðlaxahængur. Rétt svo mótar fyrir kryppunni. Í miðjunni er hnúðlaxahrygna og neðst er lax. Þetta veiddi ljósmyndarinn sama daginn. Ljósmynd/Snævarr Örn

Það hefur heldur betur verið boðið upp á fjölbreytta veiði í Eyjafjarðará síðustu daga. Þannig segir frá því á Facebook-síðu árinnar að Snævarr Örn Georgsson hafi um helgina veitt hnúðlaxapar og einn hefðbundinn lax. Hann var við veiðar á neðsta svæðinu. Þeir veiðast ekki margir laxarnir á hverju ári, en eins og gefur að skilja er það misjafnt milli ára. Nokkuð hefur borið á báðum tegundum í Eyjafjarðará í sumar. Veiðimenn eru hvattir til að hirða hnúðlaxinn og sleppa honum ekki.

Sjóbirtingurinn er einnig mættur og hefur verið að veiðast í vaxandi mæli. Það er því ávallt spennandi að fá töku í á sem býður upp á slíka fjölbreytni. Menn vita aldrei hvað er á hinum endanum.

mbl.is