Risalax úr Haukadalsá

Stefán vandaði sig við að mæla fiskinn. Hann reyndist vera ...
Stefán vandaði sig við að mæla fiskinn. Hann reyndist vera 106 sentímetrar og þar með stærsti laxinn úr Haukadalsá í sumar. Ljósmynd/SES

Stefán Elí Stefánsson matreiðslumaður landaði draumafiskinum í Haukadalsá í morgun. Þetta var fyrsta veiðiferð hans í Haukadalsá. „Við vorum búnir að verða varir við fiska í Símabreiðu og í morgun fór ég þangað aftur. Ég var einn og byrjaði með tvær smáflugur. Tók bara tvö rennsli og setti svo undir Frances, rauða númer tólf. Hann negldi hana og tók svo svaka roku. Þetta var svakalega gaman,“ sagði Stefán í samtali við Sporðaköst.

Stefán með 102 sentímetra lax úr Aðaldalnum. Þetta var hans ...
Stefán með 102 sentímetra lax úr Aðaldalnum. Þetta var hans stærsti fiskur þar til í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Viðureignin var furðulega stutt og tók ekki nema tæpar sex mínútur að sögn Stefáns. „Ég tók rosalega á honum og náði honum fljótlega inn á dautt vatn og náði svo að sporðtaka hann.“

Þetta er stærsti lax sem Stefán hefur landað. Fram til þessa var stærsti laxinn hans úr Laxá í Aðaldal 102 sentímetrar.

Þetta er fiskurinn sem Stefán landaði og mældist 106 sentímetrar.
Þetta er fiskurinn sem Stefán landaði og mældist 106 sentímetrar. Ljósmynd/SES

Stefán sleppti fisknum og tók það nokkra stund en þegar hann fór var hann sprækur.

Haukadalsá á það til að gefa stóra laxa á haustin. Skemmst er að minnast þess að haustið 2015 var 108 sentímetra fiski landað í Hauku.

mbl.is