Sá stærsti úr Vatnsdalsá í sumar

Lúðvík Lúðvíksson með hrygnuna sem áætluð er 23 pund. Hún …
Lúðvík Lúðvíksson með hrygnuna sem áætluð er 23 pund. Hún tók þýska Snældu í Þórhöllustaðahyl. Ljósmynd/Aðsend

Stærsti lax sem veiðst hefur í Vatnsdalsá í sumar veiddist í Þórhöllustaðahyl í dag. Það var Lúðvík Lúðvíksson sem setti í 23 punda hrygnu á Snældu. Þetta var þýsk Snælda og eins og nafnið bendir til þá skartar hún fánalitum Þýskalands.

Þetta er annar fiskurinn í Vatnsdal sem nær hundrað sentímetrum og yfir. Sá fyrri var sléttir hundrað sentímetrar og veiddist í Línufljóti. Það sem gerir fiskinn úr Þórhöllustaðahyl merkilegri er að þetta er hrygna. Algengara er að veiða hænga í plús hundrað flokknum en færri hrygnur veiðast svo stórar.

Aðstæður í Vatnsdalsá eru ágætar núna og vatnsstaða er nálægt því að vera kjörvatn, sem hefur ekki gerst fyrr í sumar í þeim miklu þurrkum sem hafa plagað vesturhelming landsins frá því seint í apríl.

Uppfært klukkan 20:22

Lúðvík var að veiða á efsta svæði Vatnsdalsár þar sem símasamband er stopult. En við náðum í hann nú rétt áðan. „Hún mældist 102 sentímetrar og var svakalega þykk. Viðureignin tók um fjörutíu mínútur og ég gaf henni aldrei tommu eftir. Maður þarf að taka á þessum fiskum og stytta viðureignina eins og hægt er til að betur gangi að sleppa þeim,“ sagði Lúðvík í samtali við Sporðaköst í kvöld.

Hann sleppti hrygnunni og kyssti hana bless eftir góð kynni. „Ég var smá tíma að fá hana til að jafna sig, en þegar hún kvaddi fór hún með látum,“ sagði kátur veiðimaður.

Lúðvík hefur veitt Vatnsdalinn árum saman og er hluti af Slökkviliðshollinu í Vatnsdalsá.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Laxá á Ásum Chis Warne 6. ágúst 6.8.
100 cm Fnjóská Gunnar Jónsson 2. ágúst 2.8.
101 cm Laxá í Dölum Arnór Ísfjörð Guðmundsson 30. júlí 30.7.
102 cm Laxá í Dölum Arnór Ísfjörð Guðmundsson 26. júlí 26.7.
106 cm Nesveiðar Ingvi Jökull Logason 25. júlí 25.7.
102 cm Nesveiðar Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 25. júlí 25.7.
102 cm Nesveiðar Nils Folmer Jörgensen 21. júlí 21.7.

Skoða meira