Rafrænar veiðibækur eru framtíðin

Þeir félagar og samstarfsmenn Ólafur Ragnar Garðarsson og Valgarður Ragnarsson …
Þeir félagar og samstarfsmenn Ólafur Ragnar Garðarsson og Valgarður Ragnarsson á góðri stund í Húseyjarkvísl í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Rafrænar veiðibækur eru framtíðin. Fyrirtækið Angling iQ býður upp á slíkar veiðibækur. Nú eru sjö veiðisvæði skráð rafrænt og geta þeir, sem hafa áhuga á að fylgjast með veiðinni frá degi til dags, skráð sig inn á anglingiq.com og geta þá fylgst með daglegum skráningum á veiði í þessum ám. Nú þegar eru Selá og Hofsá í Vopnafirði að nýta þetta fyrirkomulag. Sömuleiðis Miðfjarðará í Bakkafirði, Húseyjarkvísl, Tungulækur og Straumfjarðará.
Ólafur Garðarsson er framkvæmdastjóri og hluthafi í Angling iQ. Valgarður Ragnarsson er meðeigandi. Sporðaköst tóku framkvæmdastjórann tali um rafrænu veiðibækurnar. „Við erum komnir af stað og margir hafa lýst mikilli ánægju með þetta. Snilldin í þessu er að þú sérð um leið og þú kemur inn á síðuna hver staðan er, hvaða hylur er að gefa mest og hvaða flugur virka best. Stærstu fiskarnir eru á sínum stað og öll skráning verður nákvæmari,“ sagði Ólafur í samtali við Sporðaköst.

Framkvæmdastjóri Angling iQ með 81 sentimetra sjóbirting sem hann veiddi …
Framkvæmdastjóri Angling iQ með 81 sentimetra sjóbirting sem hann veiddi í Réttarhyl í Húseyjarkvísl í haust. Allt um þennan fisk má sjá á appinu. Ljósmynd/VR


Framtíðarhugsun þeirra Valla og Ólafs er að þarna verði einnig seld veiðileyfi og ýmiss konar vörur. Til dæmis flugubox hönnuð af helstu leiðsögumönnum í viðkomandi ám.
Já, við erum að þreifa okkur áfram með þetta og hlustum á notendur, en þetta er mjög spennandi og viðtökur hafa verið góðar. Við erum að ræða við ýmsa leigutaka og vonandi bætist í flóruna strax í vor. Svo er þetta frábært fyrir Hafrannsóknastofnun. Þegar við skilum inn gögnum er það bara einn takki og gögnin farin,“ segir Ólafur og brosir.
Angling iQ er ekki bara til að birta veiðibækur. Í raun er þetta miðill þar sem veiðimenn geta haldið utan um sína persónulegu veiðisögu, skráð fiska með myndum og öllum upplýsingum um fiskinn sem þeir veiða svo sem á/vatn, veiðistað, agn og margt fleira.

Þegar farið er inn á síðuna er hægt að sjá alla tölfræði. Besta flugan í Selá í sumar var Frances cone. Hún gaf 226 laxa af tæplega 1.500. Í Hofsá var það hins vegar Sunray Shadow sem gaf best eða 118 laxa af 621. Besti hylurinn í Selá var Fosshylur með 144 laxa af þeim 1.481 sem veiddist í sumar, en aftur á móti í Hofsá var það Arnarhólshylur sem gaf 67 laxa af 621, eða ríflega tíunda hvern lax sem veiddist. Nákvæm skráning er einnig yfir tegundir, urriða, lax, sjóbirting og bleikju og meira að segja hnúðlax.

Hægt er að notast við Angling iQ á vefnum á anglingiq.com en einnig er hægt að nálgast það í App Store og Google Play.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Blanda Tom Tynan 9. júlí 9.7.
105 cm Blanda Nigel Hawkins 8. júlí 8.7.
104 cm Svalbarðsá Viggó Júlíusson 6. júlí 6.7.
104 cm Nesveiðar Hugo 29. júní 29.6.
104 cm Nesveiðar Aron Pálmarsson 27. júní 27.6.
107 cm Nesveiðar Hilmar Hafsteinsson 25. júní 25.6.
101,5 cm Laxá í Kjós Guðjón Þ. Guðjónsson 23. júní 23.6.

Skoða meira