Stórlaxar hrannast inn í Svíþjóð

Peter Sundgren með 13,86 kíló lax úr Mörrum í Svíþjóð. …
Peter Sundgren með 13,86 kíló lax úr Mörrum í Svíþjóð. Þessi fiskur var ekki nema 102 sentimetrar. En spikfeitur. Í gær veiddust sex laxar í Mörrum. Sá minnsti var 7,5 kíló og sá stærsti 13,19 kíló. Ljósmynd/Aðsend

Laxveiðin í Svíþjóð er að komast á skrið. Fiskurinn er afar vel haldinn og í ánni Mörrum eru að veiðast fiskar á bilinu 10 til 13 kíló á hverjum degi. Stefan Enevoldsen er einn af umsjónarmönnum með Mörrum og hann sagði í samtali við Sporðaköst að fiskurinn hefði greinilega átt góðan tíma í sjó. Hvort það hefur einhverja þýðingu fyrir íslenska stofninn er ómögulegt að segja.

„Þetta er að byrja heldur seinna en í fyrra. Þá voru að veiðast fiskar í apríl en það var óvenjusnemmt. Við erum búnir að landa tveimur í morgun og menn eru að sjá þessa stóru. Svo höfum við líka heyrt af mönnum sem eru að veiða í sjónum úti fyrir ósnum og eru að veiða á stöng. Þeir hafa verið að setja í svakalega flotta fiska og ég veit um tíu sem voru yfir tuttugu kíló. Sá stærsti sem ég hef heyrt um frá þessum veiðimönnum var 26,5 kíló eða um 53 pund,“ sagði Stefan í samtali við Sporðaköst nú í morgun. Sá lengsti sem veiðst hefur í ánni sjálfri mældist 109 sentimetrar. Sá vigtaði 13,19 kíló og það var Kelleth Hellquist sem veiddi hann. Þyngsti laxinn fram til þessa vigtaði 13,86 kíló en var aðeins 102 sentimetrar. 

Kenneth Hellquist með 109 sentímetra fisk sem vigtaði 13,19 kíló. …
Kenneth Hellquist með 109 sentímetra fisk sem vigtaði 13,19 kíló. Sá stærsti sem veiðst hefur af báti úti fyrir Mörrum mældist 53 pund eða 26,5 kíló. Ljósmynd/Aðsend

„Það var mjög feitur fiskur,“ hló Stefan. Hann hefur ekki miklar áhyggjur af Covid-19. Segir reyndar að það sé ekki verið að taka mikið af sýnum og slíku. En hann heldur að hann hafi fengið Covid-19 fyrr í vor, þá varð hann veikur og hafði umgengist félaga sinn sem fékk sjúkdóminn. Báðir hafa náð sér að fullu.

Veiðibanni aflétt í Bretlandi

Þá mega breskir veiðimenn fara að veiða aftur á morgun. Í ræðu Boris Johnson þar sem hann fór yfir stöðuna og þær tilslakanir sem eru framundan í Bretlandi verður öll útivist heimiluð. Þó eru þar ýmsar takmarkanir. Veiðimenn mega bara veiða með fólki úr sömu fjölskyldu og virða þarf fjarlægðarregluna gagnvart öðrum veiðimönnum. En þrátt fyrir þetta má sjá á samfélagsmiðlum að tilhlökkunin er mikil hjá þeim bresku enda stangaveiði afar vinsæl þar í landi.

Þó svo að veiðibann hafi verið í gildi hafa landeigendur mátt stunda sín svæði og þannig hefur aðeins frést af veiði. Það er áhyggjuefni að þeir sem þó hafa verið að stunda veiðar, eins og til dæmis á svæði í ánni Dee hafa ekki verið að lenda í því bingói sem búast hefði mátt við.

UPPFÆRT:

Rétt er að leiðrétta það að veiði er einungis leyfð á Englandi. Hvorki Skotland né Wales hafa leyft veiði á nýjan leik. Þannig háttar til við ána Tweed sem er á landamærum Englands og Skotlands að á Suðurbakkanum þar standa Englendingar og veiða en á Norðurbakkanum í Skotlandi þar er bannað að veiða. Þykir mörgum það súrt í broti að norðanverðu eins og gefur að skilja.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert