Ævintýrið í Leirá heldur áfram

Matthías með 90 sentimetra fisk. Þessi er sá stærsti sem …
Matthías með 90 sentimetra fisk. Þessi er sá stærsti sem pabbi hans, Stefán, man eftir úr Leirá. Ljósmynd/IO

Það hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með þróun mála í vorveiðinni í litlu sjóbirtingsánni Leirá í Leirársveit. Opnunardagurinn í gær skilaði sextíu fiskum á stangirnar tvær sem veitt er á. Stefán Sigurðsson, annar eigandi Iceland Outfitters sem er með ána á leigu, sagði í samtali við Sporðaköst að þau hefðu verið mjög heppin með skilyrði í gær, en mikið magn af fiski er í ánni.

„Þegar við vöknuðum í gær var lítið vatn í ánni og hún tær og við áttum von á að þetta yrði mjög viðkvæmt. Svo fór fljótlega að rigna og vatnsmagnið jókst hratt og kom græn slikja á ána. Það eru bestu skilyrðin. Þá hættir birtingurinn að verða var við mann,“ sagði Stefán.

Stefán með sjóbirting sem stóð áttatíu sentimetra. Árið 2017, þegar …
Stefán með sjóbirting sem stóð áttatíu sentimetra. Árið 2017, þegar þau tóku við Leirá, veiddust tveir tittir í opnun. Eftir að veiða og sleppa var tekið upp hefur mikil aukning orðið. Ljósmynd/IO

Það er skemmst frá því að segja að Stebbi og fjölskylda lentu í meiri háttar veislu. Leirá var ekki hátt skrifuð þegar Stebbi og Harpa tóku hana á leigu fyrir fimm árum. „Fyrsti dagurinn okkar þá, vorið 2017, gaf tvo fiska og það voru tittir. Við tókum strax þá stefnu að sleppa öllum fiski og frá þeim tíma hefur þetta verið að aukast jafnt og þétt. Ekki bara fjöldi fiska heldur erum við farin að sjá töluvert af alvöruhöfðingjum. Stærsti í gær sem var landað var 90 sentimetrar.“

Það vakti mikla athygli í fyrra þegar 36 birtingar veiddust á opnunardaginn. Þessi dagur í gær slær honum algerlega við.

Sýnir þetta ekki glögglega hvað hægt er að gera þegar umgengni um svona veiðisvæði er breytt?

„Jú. Þetta er magnað í þessum sjóbirtingsám og maður er að sjá stöðugan árangur milli ára. Það væri óskandi að við værum líka að sjá þennan árangur í laxveiðinni.“ Hann hlær.

Um tíma var nánast löndunarbið í Leirá. Enn einn boltabirtingurinn …
Um tíma var nánast löndunarbið í Leirá. Enn einn boltabirtingurinn kominn í háfinn. Ljósmynd/IO

Leirá er um fjögurra kílómetra langt veiðisvæði og í hana gengur líka lax. Í gær voru Stefán og fjölskylda að fá fiska í nánast öllum veiðistöðum fyrir neðan veiðistað númer fjórtán. Eins og gefur að skilja voru margir af þessum stöðum að gefa marga fiska. Öll veiðin í gær var á púpur og veitt andstreymis. Squirmy wormy gaf vel og einnig hefðbundnar púpur.

„Það var svo mikið stuð í þessu að við reyndum ekki straumflugur. Eins og ég hef mjög gaman af þeirri veiði því neglurnar eru svo flottar.“

Meðalsjóbirtingurinn í Leirá núna er á bilinu 55 til 60 sentimetrar. Stefán segir að aflinn hafi mest verið slíkir fiskar og svo voru einhverjir minni og nokkrir mjög stórir. „Ég fékk tvo fiska yfir áttatíu sentímetra og þó nokkra á bilinu 70 til 75 sentimetra. Maður var aðeins farinn að hafa áhyggjur í gær af því hvort það væri ekkert af smáfiski. Hann þarf að vera líka.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert