Urriðarnir hóstuðu upp murtunni

Ævintýravatn segir Nils Folmer um Þingvallavatn. Víst er að þessi …
Ævintýravatn segir Nils Folmer um Þingvallavatn. Víst er að þessi glæsilegi urriði er ævintýri líkastur. Ljósmynd/NFJ

Nils Folmer Jörgensen var að ljúka mögnuðum veiðitúr á ION svæðinu í Þingvallavatni. Hann sagði veiðina hafa verið góða en aðstæður hafi verið nokkuð krefjandi. Hægur vindur, mikil sól og lítið vatn í Ölfusvatnsánni sem fellur í Þingvallavatn. Þegar svona háttar til er fiskurinn dreifðari og þarf að leita meira að honum. Þegar Ölfusvatnsáin er vatnsmikil leggst fiskur gjarnan rétt utan við ósinn.

Mikið var af fiski í námunda við ósinn og einnig í Þorsteinsvíkinni, sem er hinn hluti svæðisins. „Mér finnst skemmtilegra að veiða þetta svona. Í þessu mikla sólskini og nánast spegilsléttu vatni er auðvelt að sjónkasta á urriðann. En maður þarf virkilega að vanda sig og beita allri þeirri tækni sem maður hefur yfir að ráða. Að kasta á urriðatorfu sem syndir með landinu á grunnu vatni, kallar á varfærnislega framsetningu flugunnar og minnstu mistök styggja fiskinn. En á móti kemur að fátt er meira spennandi en að labba fjöruna og reyna að koma auga á stóran urriða og bíða svo eftir því að fá dauða færið til að kasta á hann. Þetta gerist ekki skemmtilegra.“

Það gerðist oft að urriðarnir hóstuðu upp hálfmeltum murtum þegar …
Það gerðist oft að urriðarnir hóstuðu upp hálfmeltum murtum þegar þeim var landað. Ljósmynd/NFJ

Veiðin var misgóð þessa daga sem Nils eyddi á ION svæðinu. Var allt frá átta fiskum einn daginn upp í 31 urriða þegar best gekk. Hann segir að allir þessar fiskar hafi verið í góðu ásigkomulagi og aðeins einn gat flokkast sem slápur. „Það gerðist oft þegar maður var að losa úr þeim og sleppa að þeir hóstuðu upp helstu fæðu sinni, mismeltum murtum. Það er náttúrulega svo að murtan er ástæðan fyrir því hversu stórir þessir fiskar verða.“

Fyrri hluta veiðitímabilsins var mikið um frekar smáan fisk, á ION mælikvarða allavega. Þetta breyttist hins vegar í síðustu viku og var þá megnið af aflanum stórfiskur. „Þetta vatn er svo mikið ævintýri. Ég átti til að mynda eitt kvöld núna sem ég landaði þremur urriðum yfir áttatíu sentímetra.“

Eitt kvöldið gaf honum þrjá fiska yfir áttatíu sentímetra. Í …
Eitt kvöldið gaf honum þrjá fiska yfir áttatíu sentímetra. Í bakgrunni sést að vatnið er spegilslétt og það voru þurrflugur sem voru að gefa megnið af veiðinni. Ljósmynd/NFJ

Nils notar allt að fimmtán feta langan taum, sem hann mjókkar fram. Síðasti hluti taumsins er 0.20 mm. Hans val er að nota stöng fyrir línu fimm til sex.

Þegar hann er spurður út í hvaða flugur hafi verið að virka kemur nokkuð skemmtilegt í ljós. „Það var alveg svart og hvítt hvað var að virka í ósnum og svo í Þorsteinsvíkinni. Black Gnat, Klink Hammer og CDC Hopper, sem ég hnýti sjálfur voru að virka vel í ósnum. Stærð fjórtán. Svo þegar maður fór yfir í Þorsteinsvíkina þá voru svamp þurrflugur (Foam bugs) að gera allt vitlaust. Enginn fiskur leit við þeim í ósnum. En heilt yfir var fiskurinn að taka þurrflugur en vildi ekki straumflugur og í sumum tilvikum mátti sjá að þær fældu hann,” sagði Nils í samtali við Sporðaköst.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira