„Laxveiði er engin geimvísindi“

Ásgeir Heiðar veiðir undir Þórufossi í Laxá í Kjós. Hann …
Ásgeir Heiðar veiðir undir Þórufossi í Laxá í Kjós. Hann segir Kjósina háskóla laxveiðimannsins. Ljósmynd/Einkasafn

Einn af mestu reynsluboltum í veiði á Íslandi er Ásgeir Heiðar. Hann hefur verið leiðsögumaður veiðimanna í flestum ám á Íslandi og var atvinnuveiðimaður í fuglaskytteríi í hartnær þrjá áratugi. Hann er veiðimaður vikunnar.

Ertu enn í leiðsögn með laxveiðimenn?

„Það er ekki orðið mikið. Ég fer í eitt holl í sumar í leiðsögn og það er í Þverá/Kjarrá. Ég er að fara þangað í fyrsta skipti á ævinni. Þar með bætist hún í safn þeirra áa sem ég veiði ekki fyrr en ég er búinn að gæda í henni. Ég hef bara haft þetta þannig að ég hef aldrei veitt í á sem ég hef ekki byrjað á að gæda í fyrst.“

Er ekki einhver mótsögn í þessu?

„Kannski, en einhvern tímann er allt fyrst“

Reynir maður ekki að fá með sér menn sem eru þaulkunnugir staðháttum þegar maður ræður leiðsögumann?

Tekist á við lax í Elliðaánum. Þessi tók í Teljarastreng …
Tekist á við lax í Elliðaánum. Þessi tók í Teljarastreng en hér er Ásgeir kominn nokkru neðar að slást við stórlaxinn. Ljósmynd/Einkasafn

„Ég átti engra kosta völ hérna áður fyrr. Maður átti engan pening til að fara í laxveiði. Ég var bara silungsveiðimaður dauðans. Svo uppgötvaði ég að þessi laxveiði er bara einföld og þægileg og fullt af pening og rosa gaman. Ég byrjaði í Kjósinni og var þar í mörg ár og svo fór ég að fara með menn bara hingað og þangað. Þetta endaði með því að ég er búinn að gæda í flest öllum ám landsins. Mér hefur alltaf reynst mjög auðvelt að lesa vatn, og í öllum veiðiskap setur maður sig í fótspor bráðarinnar til að skilja atferlið“

Ásgeir segist hafa mest gaman af krefjandi ám, helst litlum þar sem beita þarf allri tækni og innsýn sem veiðimaðurinn hefur yfir að ráða. Hann segist ekki hrifinn af stórum, miklum og hægum breiðum þar sem veiðiskapurinn snýst bara um að kasta og taka skrefið og kasta og taka skrefið.....

„Ég hef alltaf sagt að Laxá í Kjós er háskóli laxveiðimanna. Hún er rosalega krefjandi og það hjálpar mikið að vera góður silungsveiðimaður þar. Hún er svo fjölbreytileg og maður getur nýtt sér silungsveiðitækni í henni. Miðsvæðið er hægrennandi, þar er hægt að veiða með þurrflugum og púpum og svo eru stríðari svæði í henni.“

Laxinum landað. Hann mældist 88 sentímetrar og þetta var alvöru …
Laxinum landað. Hann mældist 88 sentímetrar og þetta var alvöru viðureign því Ásgeir Heiðar var með stöng fyrir línu þrjú, sem eru afar léttar græjur. Ljósmynd/Einkasafn

Þú hefur verið hluti af þessu laxveiðidæmi í áratugi. Hvernig líst þér á stöðuna?

„Mér finnst nokkuð góð. Það er mikið af ungum og flinkum silungsveiðimönnum að koma upp og þetta eru veiðimenn með góðan hugsunarhátt. Eru ekki að drepa meira en þeir þurfa og jafnvel sleppa öllu. Persónulega vil ég helst hafa valfrelsi þegar kemur að því að sleppa fiski. Auðvitað fylgi ég þeim reglum sem settar eru á því svæði sem ég er að veiða. En ég vil helst hafa valfrelsi. Ég tek ekki mikið af fiski og hundarnir mínir eru farnir að hlaupa í felur ef ég býð þeim bleikan fisk.

Mér sýnist líka fín staða á laxinum okkar. Stórlaxinn er að sækja í sig veðrið og lax er að koma almennt vel haldinn úr hafi og ég held að þetta sé bara í ágætisstandi.“

Ásgeir Heiðar hefur haldið því fram að fluguval skipti litlu máli. Jafnvel engu.

„Stærðin skiptir máli. Hvernig hún berst fyrir fiskinn er aðalatriðið. Laxveiði er engin geimvísindi. Ég get lagað veiðimann á fimmtán mínútum. Hvort sem það er nýliði eða vanur maður. Reyndar er erfiðara að eiga við gömlu hundana. Ég byrja á að horfa á manninn kasta. Ef hann getur komið línunni þokkalega frá sér þá byrja ég á staðsetningu við veiðistaðinn eða hylinn. Ef þetta er hraður staður þá set ég veiðimanninn aðeins út í ána og ofar, til þess að losna við að mendingu. Mending er ekkert annað en að laga og því að laga það sem getur verið í lagi. Flugan þarf að byrja að veiða frá því að hún lendir og þar til hún kemur að bakkanum. Maður þarf alltaf að hugsa fram í agnið. Hvað gerist ef að þú hreyfir stöngina? Hvað gerist ef þú tekur skref? Hvað gerir flugan í vatninu þá? Hún kippist til og hreyfist óeðlilega. Þá færðu ekki þetta sving sem virkar á laxinn. Hann tekur fluguna þegar hún svingar fyrir hann eða er að fara frá honum. Þess vegna er ég ekki að kaupa andstreymis tæknina í laxi, það er enginn lax að snúa sér við og elta einhverja púpu. Silungur tekur það sem er eðlilegt í vatninu. Lax tekur það sem er óeðlilegt í vatninu.“

Hornið á Nessvæðinu í Laxá í Aðaldal. Ásgeir Heiðar hefur …
Hornið á Nessvæðinu í Laxá í Aðaldal. Ásgeir Heiðar hefur verið með menn í leiðsögn í flestum laxveiðiám landsins. Ljósmynd/Einkasafn

Hann heldur áfram með hvernig hann lagar menn. „Það þarf að veiða veiðistað, kerfisbundið. Ef þú ert með lítinn stað skaltu veiða hann sentímetra fyrir sentímetra. Ef þú ert með stærri stað, eins og góða breiðu, þá geturðu tekið skrefið. En aldrei, aldrei, hreyfa þig eftir að þú ert búinn að kasta flugunni. Það liggur dauðarefsing við því að taka skref eftir að þú ert búinn að kasta. Lykilatriðið er að hugsa fram í agnið. Ég læt menn svo veiða stað og hundskamma þá ef þeir skilja eftir eyðu. Svona geturðu veitt skammlaust. Menn verða að átta sig á því að mending lætur fluguna fara í svona ess hreyfingu og þá fer hún ekki að veiða fyrr en langt frá bakkanum. Svo að lokum. Það sem fær lax til að taka er hraði flugu, í samhengi við hraða vatns. Það er viss hraði á flugunni sem egnir laxinn rosalega og ef þú nærð þessum rétta hraða þá ertu með þetta,“

Við ræðum Elliðaárnar sem Ásgeir Heiðar segir að sé tæknilega erfið á. Hann er farinn að svipast um eftir fyrstu löxunum og sá sjóbirting þar í gær. Hann segir að hin síðari ár sé laxinn farinn að mæta fyrr og fyrr. Í fyrra sá fyrsti laxinn 27. maí, en hér áður fyrr var aldrei fisk að sjá fyrr en eftir að júní var byrjaður.

Færðu sömu ánægju út úr veiðiskap með stöng, eins og þú gerðir?

„Uss, ég fer ekki í vöðlur nema mér sé borgað fyrir það“ sagði hann og hlær. Það liggur við að það sé þannig. Mér finnst gaman að fara eitthvert einn og glíma við einhverja á. Ég hef aldrei veitt fyrir félagsskap. Ég tel að ef þú ætlar að verða góður veiðimaður þá skaltu veiða einn. Þá er ekkert að trufla. Þetta sá ég vel þegar ég var að gæda Bernd Koberling í gamla daga. Ég kannski yrti á hann og honum brá svo mikið að hann átti það til að detta í ána. Hann var algerlega einn í sínum hugarheimi og trúði því að í hverju einasta kasti að fiskur myndi taka,“

Hann telur að hann hafi lært mest af því að fylgjast með Koberling að veiða. Honum verður hugsað til ársins 1989, þegar hann var töluvert með Koberling, en það sama ár hitti hann Bandaríkjamann sem var af indversku bergi brotinn. „Ég missti andlitið þegar ég horfði á hann veiða. Hann kom með fyrstu Winston stöngina sem ég hef séð. Seinna gaf hann mér hana. En þessi veiðimaður vildi bara veiða hvítfryss og hratt vatn. Ég var að sjá hitch í fyrsta skipti. Maður hafði heyrt af Portlandsbragði en það var í fyrsta skipti sem ég sá plast túpu notaða. Ég fór niður í veiðihús og tók alla penna sem ég fann og klippti endana af öllum fyllingum til að hnýta svona plast túpur.  Það hefði verið gaman ef þessir tveir hefðu hist og getað séð og lært tækni hvors annars.“

Pointerinn Black Diamond hefur tekið stand á þrjár rjúpur á …
Pointerinn Black Diamond hefur tekið stand á þrjár rjúpur á Mosfellsheiði. Ásgeir hefur átt hunda frá því hann var barn. Ljósmynd/ÁH

Það er ekki hægt að skilja við Ásgeir Heiðar án þess að hrósa honum fyrir myndirnar sem hann birtir reglulega á facebook síðu sinni af veiðihundunum að taka stand á rjúpur. Myndirnar eru ótrúlega magnaðar og ástæða fyrir alla skotveiðiáhugamenn að kíkja á þær.

Þú þjálfar mikið á heiðinni og tekur flottar myndir?

„Já ég er búinn að vera með hunda frá því að ég var krakki. Labrador og síðan enska pointera í um þrjátíu ár og hef langmest gaman af þeim. Þeir taka stand og mjög skemmtilegt að fylgjast með þeim.“

Hann hefur rakað til sín verðlaunum fyrir sína hunda. Hann hefur átt fimm veiðimeistara og er enn að.

Ásgeir var atvinnumaður í rjúpnaveiði í 27 ár. Það þótti ekki gott ár nema fimm til sex hundruð rjúpur væru skotnar á vertíð. „Það var ónýtur dagur ef maður kom ekki með 20 til 25 fugla á bakinu. Þá þurfti að vinna það upp næsta dag.“

Ásgeir hugsar um stund þegar hann er spurður, hversu margar rjúpur hann hafi á samviskunni. En svarar þó.

„Ég var að giska á þetta einhverju sinni og talan 15-20 þúsund var svona það sem var líklegt. Maður náttúrulega byrjaði svo ungur á þessu. Fyrstu árin tók maður strætó upp að Lögbergi og var með sundurtekna einhleypu. Var ekki einu sinni kominn með bílpróf,“ segir þessi magnaði veiðimaður sem séð hefur flest í þessum bransa, en á þó enn örugglega eftir að sjá ýmislegt.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.
102 cm Vatnsdalsá Sigurður Héðinn 11. september 11.9.
100 cm Eystri-Rangá Hilmar Ingimundarson 10. september 10.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Rögnvaldur Örn Jónsson 8. september 8.9.
101 cm Laxá í Aðaldal Nils Folmer Jörgensen 30. ágúst 30.8.
102 cm Kjarrá Jake Elliot 30. ágúst 30.8.

Skoða meira