Þykkir stórlaxarnir úr Þjórsá í ár

Haukur Ómarsson og Hrafn Hauksson með einn af þessum mögnuðu …
Haukur Ómarsson og Hrafn Hauksson með einn af þessum mögnuðu vorfiskum í Þjórsá í dag. Þessi mældist 80 sentímetrar, en þykktin og holdafarið er ótrúlega gott. Ljósmynd/ES

Opnunardagurinn í Urriðafossi í Þjórsá í dag var býsna góður. Það hafa veiðst fleiri laxar á opnunardegi, en heilt yfir má segja að hann hafi staðið undir væntingum. Fyrir hádegi komu níu laxar á land og voru þeir frá 77 sentímetrum upp í 93 sentímetra. Eftir hádegishlé tók við rólegri tími þó að veiðimenn yrðu varir við fiska og sáu þá stökkva. 

Það var svo upp úr klukkan fimm sem aftur lifnaði yfir þessu. Þeir feðgar Hrafn Hauksson og Haukur H. Ómarsson settu í fisk í Lækjarlátri og lönduðu 80 sentímetra hrygnu eftir stutta viðureign. 

Hjónaveiði. Stefán Sigurðsson veiðir Huldu, en Harpa Hlín tekur ekki …
Hjónaveiði. Stefán Sigurðsson veiðir Huldu, en Harpa Hlín tekur ekki augun af Lækjarlátri. Hún fékk fisk þar skömmu eftir að myndin var tekin. Það var sá ellefti í dag. Ljósmynd/ES

Eftir kaldan, hvassan og blautan morgun var komið ágætt veður seinni part dags og áin var sjatnandi. Fljótlega eftir að Haukur hafði landað, setti Harpa Hlín Þórðardóttir leigutaki í vænan lax í Holunni ofan við Lækjalátur. Sá fiskur var grálúsugur. Það var sá ellefti í dag og enn var Harpa með vinninginn, þann stærsta, 93 sentímetrar.

Hrafn Hauksson og Stefán Sigurðsson voru sammála um að þetta væri fín opnun. „Við höfum alltaf verið með á bilinu fimmtán til átján fiska þennan fyrsta dag. Við sjáum töluvert af fiski og það er ekki útilokað að við endum á því róli," sagði Stefán í samtali við Sporðaköst.

Grálúsugur lax úr Urriðafossi. Stebbi og Harpa lönduðu honum saman. …
Grálúsugur lax úr Urriðafossi. Stebbi og Harpa lönduðu honum saman. Í baksýn er sonur þeirra Matthías, sem er nýorðinn Íslandsmeistari í tveimur flokkum í júdó. Ljósmynd/ES

Hrafn talaði um hversu óvenju þykkur fiskurinn væri og sem leiðsögumaður í laxveiði veit hann hvað hann syngur.

Allir þessir fiskar tóku maðk, en það kom ekki í veg fyrir að Stefán kastaði Frances kón, rauðum. Og það var allt reynt. Matthías sonur Hörpu og Stefáns reyndi meira að segja fyrir sér með púpu og tökuvara.

Heildarniðurstaða dagsins voru fjórtán laxar og má því segja að Þjórsá hafi staðið undir öllum væntingum sem gerðar voru til hennar á opnunardag. „Við erum mjög ánægð með daginn,“ sagði Stefán í kvöld.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert