Sleit bæði úr himbrima og risalaxi

Fallegt kvöld á Breiðunni í Bíldsfelli. Fyrir neðan veiðimanninn má …
Fallegt kvöld á Breiðunni í Bíldsfelli. Fyrir neðan veiðimanninn má sjá brjóta á Neðri-Garði, þar sem Stefán setti í sjö laxa á stuttum tíma. Ljósmynd/SK

Nú þegar hluti af netum er farið upp úr Hvítá og Ölfusá, horfa margir spenntir til Sogsins og Stóru-Laxár. Stefán Kristjánsson leiðsögumaður með meiru hefur veitt í Soginu í meira en fjóra áratugi. Hann skaust í Bíldsfellið í gærmorgun og lenti þar í miklu ævintýri.

„Ég ákvað að byrja á Breiðunni fyrir ofan Neðri-Garð. Nokkuð fyrir neðan mig voru tveir himbrimar að kafa og ég var svo sem ekki mikið að spá í þá. En ég kasta og eftir smá stund fæ ég hörku töku. Ég var svo sem ekkert að spá hvað þessir himbrimar voru að gera, en ég setti sem sagt í annan þeirra og það varð allt vitlaust. Þeir djöfluðust og djöfluðust á tökublettinum. Ég er nokkuð viss um að fuglinn tók Sunray fluguna mína frekar en að hann hafi flækst í taumnum. Eftir smá stund sleit hann og þeir héldu áfram að brjálast í hylnum,“ sagði Stefán um ferð sína í Bíldsfellið.

Hann ákvað að halda á brott og veiddi aðra veiðistaði á svæðinu og það með litlum árangri. Fékk reyndar tvær flottar bleikjur í Sakkarhólma.

„Ég ákvað svo að fara aftur á Breiðuna og loks kem ég að Neðri-Garði. Himbrimarnir farnir og allt orðið eðlilegt. Ég set fljótlega í fisk.“

Það er skemmst frá því að segja að Stefán setti í sjö laxa og landaði þremur. Var sá stærsti ríflega áttatíu sentímetrar.

Einn af þremur löxum sem Stefán landaði í Bíldsfellinu.
Einn af þremur löxum sem Stefán landaði í Bíldsfellinu. Ljósmynd/SK

„Svo gerist það að ég set í fisk sem ég réð engan veginn við. Hann var hrikalega sterkur og rýkur lengst út á Breiðuna, einhverja 150 metra og fleytir þar kerlingar fram og til baka. Svo veður hann upp ána og ég með alla þessa línu úti átti ekki séns.“

Fiskurinn sleit hjá Stefáni en hann fullyrðir að þetta sé sterkasti fiskur sem hann hefur sett í. Stefán þekkir vel stórlaxa og hefur tekist á við þá nokkra í bæði Víðidal og Laxá í Aðaldal og víðar.

Stefán Kristjánsson með 99 sentímetra fisk úr Víðidalsá. Hann þekkir …
Stefán Kristjánsson með 99 sentímetra fisk úr Víðidalsá. Hann þekkir stórlaxa þegar hann kemst í samband við þá. Ljósmynd/Aðsend

„Ég verð að viðurkenna að ég er mjög spenntur fyrir því að sjá hvað Sogið gerir þegar netaupptakan skilar sér. Ég átti þarna móment sem var alveg frábært,“ sagði Stefán Kristjánsson í samtali við Sporðaköst.

Starir ehf eru með Bíldsfellið og Alviðru á leigu og bættu nýverið við sig Torfastöðum, sem er tveggja stanga svæði og eru þar með allan vesturbakka Sogsins á leigu.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Selá í Vopnafirði Erlendur veiðimaður 14. júlí 14.7.
102 cm Laxá í Aðaldal Páll Ágúst Ólafsson 13. júlí 13.7.
104 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 8. júlí 8.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Ben Sangster 6. júlí 6.7.
100 cm Blanda Neil Boyd 6. júlí 6.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Gijs K. Sipestein 6. júlí 6.7.
102 cm Jökla Nils Folmer Jörgensen 4. júlí 4.7.

Skoða meira