Þann 29. ágúst veiddist 79 sentímetra hrygna í Laxahyl í Hafralónsá. Þessi stóri lax tók flugu sem heitir Jens og er skírð í höfuðið á Sigurði Jens, sem var á sínum tíma formaður veiðifélags Hafralónsár. Veiðimaðurinn var séra Þuríður Björg Wiium Árnadóttir sem er ekki bara sóknarprestur Hofprestakalls í Vopnafirði heldur einnig varaformaður veiðifélags Hofsár.
Leiðsögumaður með Þuru, eins og hún er kölluð, var Ólafur Ragnar Garðarsson. Hann sagði í samtali við Sporðaköst að grunsemdir hjá honum hefðu vaknað strax í baráttunni við fiskinn. „Hann svamlaði svo mikið í yfirborðinu og þetta var allt eitthvað svo skrítið. Þegar Þura landaði honum sá maður græna litinn eins og maður þekkti úr vinnu í fiskbúð frá því í gamla daga, þegar um var að ræða eldislax,“ sagði Óli í samtali við Sporðaköst.
Þura var fyrst í stað afar kát með fiskinn. „Svo sá maður að hann var illa farinn á sporði og uggum. Þá varð þetta bara ömurlegt og ég fékk pínu sjokk þegar ég áttaði mig á því að mögulega væri þetta eldislax. Þarna er maður í einhverri óspilltustu náttúru í heimi og lendir svo í þessu,“ sagði séra Þuríður í samtali við Sporðaköst í dag. Henni barst í morgun tölvupóstur frá Hafrannsóknastofnun, þar sem staðfest var að um eldislax væri að ræða.
„Maður berst svo á móti þessu eldi af því að maður óttast að þessi lax sem stöðugt er að sleppa úr kvíum, blandist laxinum okkar. Svo bara allt í einu verður þessi ótti að veruleika. Þetta er ömurlegt," upplýsti Þura.
Guðni Guðbergsson, sviðstjóri hjá Hafrannsóknastofnun staðfesti í samtali við Sporðaköst að um eldislax væri að ræða. „Frekari rannsóknir standa yfir og þá að öllum líkindum getum við séð hvaðan þessi hrygna er upprunnin,“ sagði Guðni.
Fleiri fiskar hafa borist stofnuninni og er verið að rannsaka þá, en oft tekur tíma að fá niðurstöðu úr erfðaefnisrannsóknum á borð við þær sem nú standa yfir á nokkrum fiskum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Lagarfljót | Jóhannes Sturlaugsson | 2. október 2.10. |
100 cm | Stóra - Laxá | Vigfús Björnsson | 30. september 30.9. |
102 cm | Laxá í Aðaldal | Aðalsteinn Jóhannsson | 19. september 19.9. |
103 cm | Víðidalsá | Rob Williams | 17. september 17.9. |
101 cm | Stóra - Laxá | Jim Ray | 16. september 16.9. |
102 cm | Víðidalsá | Svanur Gíslason | 15. september 15.9. |
101 cm | Miðfjarðará | Stebbi Lísu | 14. september 14.9. |