Hundrað laxa holl í Hofsá

Þessi 89 sentímetra hængur tók lítinn kón í veiðistaðnum Laxa. …
Þessi 89 sentímetra hængur tók lítinn kón í veiðistaðnum Laxa. Það var Sólveig Björk Skjaldardóttir sem setti í hann og landaði. Ljósmynd/Magnús Viðar Arnarsson

Þriggja daga holl í Hofsá, sem lauk veiðum á hádegi í gær, landaði alls 105 löxum á sjö stangir. Þetta er fyrsta hundrað laxa hollið sem Sporðaköstum er kunnugt um á þessu sumri, ef undan eru skildar Rangárnar sem hafa skilað stöku hundrað laxa dögum.

Laxveiðin á NA-horninu hefur verið betri en í öðrum landshlutum og svo sannarlega mun betri en á sama tíma í fyrra. Hofsá var í gærkvöldi komin í samtals 765 laxa. Til samanburðar var heildarveiðin allt sumarið í fyrra 601 lax.

Mjög mikið er af smálaxi í Hofsá og er hluti af honum mjög smár eða í kringum fimmtíu sentímetrar. Það er raunar alþekkt í Vopnafirðinum að þar gangi smálaxar á hverju ári sem eru minni en gerist og gengur í öðrum ám. 

Nýgenginn smálax sem tók í hylnum Öskumel sem er á …
Nýgenginn smálax sem tók í hylnum Öskumel sem er á neðsta svæði árinnar. Ásdís Helgadóttir veiddi þennan. Öskumelur er annar af tveimur gjöfulustu veiðistöðum, það sem af er sumri. Ljósmynd/Smári Sigurðsson

Síðustu daga hafa nýir fiskar verið að ganga í Hofsá á hverju flóði og er það stærri smálax en vitnað er til hér að ofan. Þá hafa einnig verið að sjást nýgengnir tveggja ára laxar og misstist einn slíkur í Sniðahyl í gær, sem er efsti veiðistaður á næstefsta svæði Hofsár. Var sá fiskur silfurbjartur og talinn vera á bilinu 95-97 sentímetrar.

Staðkunnugir benda á að hluti af aukinni laxagengd í Hofsá kunni að vera að búist var við að hrognagröftur á áður óbyggðum svæðum myndi byrja að skila sér í ár. Þegar talað er um óbyggð svæði er átt við þá hluta vatnasvæðisins sem lax hefur ekki gengið á, en þar hafa hrogn verið grafin síðustu ár.

Ljóst er að miðað við magnið af smálaxinum fyrir austan er innistæða fyrir bjartsýni um að næsta ár geti orðið mun meira af tveggja ára fiski í Hofsá og raunar á NA-horninu.

Veiðireglur í Hofsá leyfa að fimm löxum sé landað á vakt. Öllum fiski er sleppt og hafa verið settar reglur að sama skapi er snúa að leyfilegu agni. Eingöngu er veitt á flugu og eru sökklínur og sökkendar bannaðir og einungis heimilt að nota litla kóna. Er markmiðið með þessum reglum að auka veiðina, þó að einhverjum kunni að finnast það öfugmæli. Ef eingöngu er veitt í yfirborðinu er fiskurinn minna styggður og hylurinn fljótari að jafna sig og veiðimenn sem á eftir koma eiga betri möguleika á að setja í fisk.

Hámarksveiði sem þriggja daga holl getur gert í Hofsá miðað við þessar veiðireglur upp á fimm fiska á vakt eru 210 laxar. En þá þurfa allar stangir að ná kvóta alla daga. Holl upp á 105 laxa er því með fimmtíu prósent af mögulegri hámarksveiði.

Veiði í ánni er jöfn og gáfu öll svæði fiska, allt frá neðsta svæðinu sem nær að ármótum Sunnudalsár upp í Efri foss sem er ólaxgengur á efsta svæði Hofsár. Nokkuð var um lúsuga fiska í hollinu.

Enn er eftir rúmur mánuður af veiðitímabilinu í Hofsá og verður spennandi að sjá hver lokatalan verður, en ljóst að hún er að fara vel yfir þúsund laxa, en það hefur bara gerst einu sinni eftir sumarið 2013.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jorgensen 17. september 17.9.

Skoða meira