„Villisvínið er laxinn í skotveiðinni“

Ingvar með villisvín sem hann felldi í ferðinni. Hann segir …
Ingvar með villisvín sem hann felldi í ferðinni. Hann segir þá félaga bera mikla virðingu fyrir villisvínunum. Ljósmynd/Ingvar

Fimm íslenskir skotveiðimenn og reynsluboltar í hverskyns veiði héldu á vit ævintýranna á Spáni í byrjun vetrar. Vopnaðir gæða rifflum áttu þeir bókaða rekstrarveiði á dádýrum og villisvínum á nokkrum af bestu jörðum Spánar fyrir slíka veiði. Þeir félagar, Axel Þór Gissurarson, Ingvar Kristjánsson, Gunnar Leósson, Brynjar Kristjánsson og Gylfi Rúnarsson vissu að þeir voru að fara í mikið ævintýri og mikla veiði. Stofnar veiðidýra á Spáni eru sterkir og stjórnun og eftirlit með þeim er eins og best gerist.

Ingvar hefur veitt víða um Evrópu. Í Þýskalandi, Póllandi, Eistlandi, Englandi og á Spáni, þannig að hann þekkir vel hvað skiptir máli í þessu. Hann segir þessa veiði sem þeir fóru í vera eins konar Mekka fyrir rekstrarveiði á meginlandinu. „Þeir sem stunda rekstrarveiði vita að þetta er það besta sem er hægt að komast í. Þarna eru bestur veiðilendurnar, flest dýr og skipulag eins best verður á kosið. Spánverjarnir eru að gera þetta mjög vel og það vita þeir sem stunda þetta sport,“ upplýsti Ingvar í samtali við Sporðaköst. Hann var tilbúin að deila þessu ævintýri með okkur.

Menn taka dagsbyrjunina rólega. Góður morgunverður og menn hafa tíma …
Menn taka dagsbyrjunina rólega. Góður morgunverður og menn hafa tíma til að spjalla áður en haldið er á veiðistað. Ljósmynd/Ingvar

Evrópupassinn auðveldar málið

Hann sagði að flestir sem færu í þessar veiðar væru með sín eigin vopn og það væri orðið lítið mál í dag að fara með skotvopn milli landa. „Lang flestir fara með eigin riffla nú orðið. Fyrir nokkrum árum síðan var tekinn upp svokallaður Evrópupassi fyrir veiðibyssur og hann gildir um alla álfuna. Við erum allir sem erum að stunda þetta komnir með svona passa. Þetta er svipað hjá öllum þeim sem bjóða upp á veiði. Maður fær sent boðsleyfi eða visitor permit og gildir það þá í ákveðinn tíma í því landi. Þessu fylgir smá pappírsvinna og nokkur tími en maður tekur því af stóískri ró. Á flugvellinum er lögregla komin með vopnin í sínar hendur þegar við förum í gegn. Þá þarf að sýna þessa pappíra og þeir skoða Evrópupassann og sannreyna seríalnúmer slíka hluti og svo eru menn lausir.“

Í þessari ferð beið bíll eftir þeim félögum á flugvellinum frá fyrirtækinu sem annast og skipuleggur veiðina og var þeim skutlað beint upp á hótel í nágrenni veiðisvæðanna. Daginn eftir rann svo upp fyrsti veiðidagurinn. „Spánverjar gera þetta öðruvísi en margir aðrir. Þeir eru ekkert að rífa sig upp við fyrsta hanagal. Í Austur – Evrópu er oftast byrjað við fyrstu skímu. Spánverjinn er miklu rólegri. Við voru sóttir upp á hótel og farið með okkur á þá jörð sem átti að skjóta á fyrsta daginn. Þar voru uppdekkuð borð og boðið upp á hefðbundinn spænskan morgunverð og mönnum gafst tími til að spjalla og kynnast aðeins enda voru þarna saman komnir veiðimenn víða að úr heiminum.“

Geta verið sendir heim

Kort af veiðisvæðinu er kynnt fyrir öllum og því næst er komið að því að draga um staðsetningu. Þá er dregið númer og á því númeri er einnig nafn leiðsögumannsins sem mun fylgja veiðimanni. Tveir veiðimenn fara saman á svokallaðan stand þar sem þeir veiða þann daginn. Á þessum tímapunkti er alltaf farið yfir tvennt segir Ingvar. Annars vegar hvaða dýr má veiða og svo skerpa menn á öryggisatriðum en það er gert reglulega og mikil áhersla lögð á allt er viðkemur öryggi veiðimanna og þeirra sem vinna við reksturinn og veiðina. „Þeir eru mjög stífir á þeim reglum sem gilda þegar veiðin er hafin. Til dæmis mega menn undir engum kringumstæðum yfir gefa póstana sína. Sérstaklega þegar menn eru í línu og frekar stutt á milli. Það eru alveg dæmi um að menn hafi hreinlega verið sendir heim, sem ekki hafa farið að þessum reglum,“ segir Ingvar.

Gylfi, Brynjar og Axel uppáklæddir og til í daginn. Allir …
Gylfi, Brynjar og Axel uppáklæddir og til í daginn. Allir veiddu þeir vel í ferðinni. Ljósmynd/Ingvar

„Menn taka sér góðan tíma þessi morgunverk og það er orðið full bjart þegar sjálf veiðin hefst. Menn fara svo á sína staði og eru mættir þar vel fyrir klukkan ellefu, en þá hefst veiðin. Þegar þetta byrjar þá eru fimm sex hópar af köllum búnir að dreifa sér um landareignina með mikið af hundum og smala svo dýrunum í ákveðna átt. Mjög fljótlega eftir að þeir leggja af stað hefst fjörið.“

Hann segir veiðina vera meira og minna fríhendis þar sem menn eru jafnvel standandi með þrífót fyrir riffilinn og þar af leiðir að menn eru að skjóta dýr á færi sem getur verið allt að hundrað og fimmtíu metrar. Það sé ekki vel séð að menn séu að teyja sig í lengri færi. „Þetta er allt annar leikur en að skjóta til dæmis hreindýr hér heima, liggjandi með tvífót fyrir byssuna. Það er eitt að liggja með tvífót eða vera standandi með þrífót.“

Þrír af fimm í hópnum þeirra voru með kalíber 30-06 en Ingvar segir það kalíber henta vel fyrir veiðar af þessu tagi.

Axel Þór með dádýr. Aðeins er veitt einn dag á …
Axel Þór með dádýr. Aðeins er veitt einn dag á ári á hverri jörð. Ljósmynd/Ingvar

Oftast þriggja daga veiði

Veiði í ferðum af þessu tagi er oftast nær þrír dagar. Hann segir að stundum séu þetta þó fjórir dagar, en iðulega séu menn alveg búnir á því ef um er að ræða fimm daga. „Þrír dagar er algengast í svona ferðum og það er alveg passlegt að mínu viti.“

Voru einhver draumaaugnablik sem stóðu upp úr í ferðinni.

„Já. Það var mikið af svoleiðis. En ég held að síðasti dagurinn standi nú alveg upp úr, allavega hjá mér. Við vorum búnir að veiða vel þannig að maður gat farið að velja sér færi og líka að skjóta ekki og bara taka myndir og njóta náttúrunnar. Það var gaman að hreinlega fylgjast með atferli dýranna án þess að vera að skjóta.“

Eftir að búið er að fella dýrin er svo sem bara hálf sagan sögð. Veiðistjóri kannar á hverju svæði hvaða dýr hafa verið skotin, bæði tegund og kyn. „Leiðsögumenn merkja hvert dýr og staði þar sem dýr eru, með litríkum borðum og svo eru þau dregin með múlösnum að næsta vegi og tekin þar upp á bíla. Kjötiðnaðarmenn eru á staðnum og tryggja rétta og bestu meðhöndlun á skrokkunum. Þá eru líka mættir bílar sem geta bæði kælt kjötið eða fryst það og þessu er svo öllu komið á veitingastaði í Þýskalandi þar sem þetta kjöt er á boðstólum.“

Gunnar Leósson með verðlauna dýr. Spánn er þekktur með skotveiðimanna …
Gunnar Leósson með verðlauna dýr. Spánn er þekktur með skotveiðimanna sem eitt besta landið þegar kemur að skipulagi og magni dýra. Ljósmynd/Ingvar

Veltan 7 milljarðar evra

Stórgripaveiði er mikilvæg atvinnugrein á Spáni. Þar gengur veiði af þessu tagi undir nafninu Monteria. Á hverri jörð er bara veitt einn dag á hverju ári og er veiðin eingöngu til þess að grisja stofnana þannig að afkoma dýranna sé tryggð og að þau dýr sem eru á svæðinu hafi nægt æti. „Landið ber ekki endalaust af dýrum og því þarf að grisja. Í mörgum Evrópuríkjum gefa stjórnvöld út lágmarkskvóta sem þarf að fella. Ef að þeim kvóta er ekki náð geta landeigendur jafnvel fengið sekt. Þannig er kerfið til dæmis í Póllandi. Með þessu er verið að tryggja ákveðið jafnvægi í náttúrunni. Við erum meira og minna búin að útrýma úlfum í Evrópu en þeir sáu um að halda mörgum af þessum dýrum í skefjum.“

Samkvæmt tölum frá spænska umhverfis– veiðiráðuneytinu þá veltir Monteria 7 milljörðum evra. Þar er verið að tala um veiðileyfin og það sem við er að etja í því samhengi. Þessar tölur staðfesta að þessi veiði er afar mikilvægt í dreifðari byggðum Spánar.

Dæmigert landslag þar sem þeir félagar voru að skjóta.
Dæmigert landslag þar sem þeir félagar voru að skjóta. Ljósmynd/Ingvar

Laxinn í skotveiðinni

Hvað kostar svona ævintýri?

„Þessi ferð var að kosta með öllu rétt um níu hundruð þúsund á mann. Þá er ég búinn að taka allt inn í þetta. Ferðakostnað og allan kostnað. En það er svolítið í þessum bransa að verðmiðinn segir til um veiðilíkurnar. Ef þú ert að borga minna þá eru oftast færri dýr. Verð og gæði fara yfirleitt saman í þessu þegar kemur að dýrafjölda. Á Spáni er þetta að kosta á bilinu átta til níu hundruð þúsund og þá er allt að frétta og góð veiði.“

Þeir félagar veiddu allir stór og flott dýr í ferðinni. Bæði villisvín og hirti. „Ég hugsa samt að ég geti sagt fyrir hönd flestra íslenskra veiðimanna sem fara á veiðar af þessu tagi að þá er mest spennandi að veiða villisvínin.“

Af hverju er það?

„Þau eru bæði mjög hörð af sér og mjög vör um sig. Þetta er mjög verðug og flott bráð. Þau eru skothörð og geta verið hættuleg. Þau geta spólað í þig ef þú hittir ekki. Það er þekkt staðreynd að á hverju ári slasa villisvín nokkra veiðimenn í Evrópu. Það hefur líka komið fyrir að þau hafi hreinlega drepið veiðimenn. Við berum mikla virðingu fyrir villisvíninu og þau eru nánast laxinn í skotveiðinni.“

Fyrir áhugasama er rétt að benda á að hægt er að nálgast allar upplýsingar á heimasíðu félagsins, sem Ingvar og félagar versluðu við. Það heitir Spain world wide hunts og heimasíðan er einfaldlega spainworldwidehunts.com.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira