Bleikjuveiði af bátum bönnuð á Pollinum

Ívar Rúnarsson, þrettán ára með 67 sentímetra bleikju úr Eyjafjarðará. …
Ívar Rúnarsson, þrettán ára með 67 sentímetra bleikju úr Eyjafjarðará. Bleikjuveiðin hefur átt mjög undir högg að sækja. Veiði á ósasvæðinu er einn af þeim þáttum sem Veiðifélagið horfir til í því samhengi. Ljósmynd/BÞB

Stjórn Veiðifélags Eyjafjarðarár hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem ítrekað er að bannað er að veiða bleikju af smábátum á Pollinum við Akureyri. Segir jafnframt að þeir sem virði ekki bannið geti átt von á að verða kærðir til lögreglu. Pollurinn er skilgreindur að hluta sem ósasvæði Eyjafjarðarár. Bleikjuveiði í ánni hefur átt mjög undir högg að sækja síðustu ár og er nú vart orðin svipur hjá sjón miðað við það sem þekktist áður. Á facebooksíðu Veiðifélagsins er þetta bann ítrekað eins og fyrr segir. Hér að neðan má sjá hluta af þeirri færslu sem vakið hefur blendin viðbrögð.

„Vegna umræðu um bann við bleikjuveiðum af smábátum á Pollinum (ósar Eyjafjarðarár) vill Stjórn Veiðifélagsins koma eftirfarandi á framfæri:
Þetta fyrirkomulag var sett í kjölfarið á því að Fiskistofa hótaði að loka ánni fyrir allri veiði nema stjórn Veiðifélagsins kæmi á ábyrgu veiðistjórnunarkerfi á Pollinum enda tilheyrir hann ósasvæði Eyjafjarðarár skv. ósamati frá 2002 (selta sjávar mæld of fl.) og ná ósarnir alla leið að Hallandssnesi. Þetta er því ekki einhver geðþótta ákvörðun veiðifélagsins heldur beinhörð fyrirmæli Fiskistofu sem við verðum að hlýða ellegar eiga það á hættu að ánni verði skellt í lás.“

Kort sem Veiðifélag Eyjafjarðarár hefur útbúið. Bleikjan í ánni, sem …
Kort sem Veiðifélag Eyjafjarðarár hefur útbúið. Bleikjan í ánni, sem á ós í Pollinum hefur átt undir högg að sækja. Þeir sem stundað hafa þessa veiði eru ekki sáttir. Ljósmynd/Veiðifélag Eyjafjarðarár

Líflegar umræður hafa orðið um þetta bann og hafa ýmsir orðið til að gagnrýna það. Hins vegar hefur Veiðifélag Eyjafjarðarár upplýsingar frá því í fyrra sem félagið segir að sýni að þarna sé stunduð rányrkja, eins og þeir kjósa að kalla það. Um þennan þátt segir í yfirlýsingu Veiðifélagsins; 

„Í fyrra kortlagði góður maður veiðar smábáta á bleikju á Pollinum fyrir Veiðifélagið og niðurstöðurnar voru sláandi.
Í heildina eru allt að 20-25 bátar hvers eigendur/notendur eru aktífir í þessari rányrkju á bleikju í ósum Eyjafjarðarár. Sóknardagarnir eru á bilinu 30-40 hjá þeim sem eru duglegastir og aflinn oft á bilinu 5-7 fiskar í hverri ferð og jafnvel farnar 2-3 ferðir á dag.
Sumir nota allt að 4 stangir í einu þar sem agn er dregið á eftir bátunum og siglt fram og til baka. Þeir kræfustu beittu netum óhikað. Veiðifélagið hefur undir höndum upplýsingar um alla þá báta sem nýttir voru í þessa iðju.
Það þarf engann ólympíufara í stærðfræði að sjá að þessar tölur eru gígantískar í stóra samhenginu og bornar saman við skráða veiði stangveiðimanna í ánni sjálfri.
Veiðifélagið gerir sér fulla grein fyrir því að það hangir fleira á spýtunni með hnignun bleikustofnins en þessar veiðar (hlýnun sjávar, malarnám og fl.) en við getum öll verið sammála um að þessar gengdarlausu veiðar af bátum í ósum Eyjafjarðarár, á Pollinum, spila verulega rullu í þessari framvindu. Allt tal um annað eru menn að tala gegn betri vitund, vilja bara "hafa þetta eins og þetta hefur alltaf verið" en það mun þá enda með því að bleikja á Pollinum og í Eyjafjarðará mun heyra sögunni til að verulegu eða öllu leyti.
Þá verða menn að spurja sig að því hvort þeim finnst það bara allt í lagi?“
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert