5. febrúar 1993 | Innlendar fréttir | 296 orð

Börn bandarískra hermanna leita feðra sinna Þrautaganga fyrir marga -segir

Börn bandarískra hermanna leita feðra sinna Þrautaganga fyrir marga -segir Stefán Geir Karlsson sem ásamt fleirum hefur undirbúið samráðsfund UPPKOMIN börn bandarískra hermanna, sem þjónað hafa hér á landi, ætla að hittast á sunnudag og ræða hvernig þau...

Börn bandarískra hermanna leita feðra sinna Þrautaganga fyrir marga -segir Stefán Geir Karlsson sem ásamt fleirum hefur undirbúið samráðsfund

UPPKOMIN börn bandarískra hermanna, sem þjónað hafa hér á landi, ætla að hittast á sunnudag og ræða hvernig þau komast í samband við feður sína. "Það veit enginn, sem ekki hefur reynt á sjálfum sér eða sínum nánustu, hvað það er að þekkja ekki föður sinn. Ég á von á að um 30-40 manns komi á fundinn, þar á meðal einhverjir af landsbyggðinni," sagði Stefán Geir Karlsson í samtali við Morgunblaðið.

Stefán Geir hefur unnið að undirbúningi fundarins, ásamt Birni Leóssyni, sem hafði uppi á bandarískum föður sínum í fyrra. Hann komst í tölvuvædda skrá á þingbókasafninu í Washington yfir alla bandaríska þegna, sem neytt hafa atkvæðisréttar síns í kosningum og fann heimilisfang föður síns. "Við ætlum að rita niður nöfn feðra fundarmanna og láta fletta þeim upp í skránni, með aðstoð sendiráðsins í Washington," sagði Stefán Geir.

Stefán sagði að fyrir marga hefði það reynst mikil þrautaganga að hafa uppi á feðrunum. "Konan mín hefur leitað föður síns af og til í fjórtán ár," sagði hann. "Hún varð vongóð þegar bresk samtök stríðsbarna unnu mál gegn Pentagon, bandaríska varnarmálaráðuneytinu, og fengu að komast í skýrslur yfir fyrrum hermenn. Þá kom hins vegar í ljós, að hluti skýrslanna hafi eyðilagst í bruna, þar á meðal skýrslan um tengdaföður minn."

Stefán Geir sagði að það vekti mönnum mikla bjartsýni hversu vel Birni Leóssyni hefði gengið að hafa uppi á föður sínum með hjálp skrárinnar í þingbókasafninu. "Björninn er þó ekki unninn þótt stríðsbarn hafi uppi á föður sínum, því þessi mál eru afar viðkvæm, bæði fyrir barnið og föðurinn."

Fundur íslensku stríðsbarnanna verður haldinn í fundarsal ÍSÍ í Laugardal á sunnudag kl. 15.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.