Guðrún Sigríður Jónsdóttir fæddist á Akureyri 22. júlí 1906. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 6. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru María Hafliðadóttir, ljósmóðir á Akureyri, f. á Litla-Eyrarlandi 28.4. 1875, d. 2.11. l967 á Akureyri, og Jón Guðmundsson, byggingarmeistari á Akureyri, f. 10.4. 1875 á Ystu-Vík í Grýtubakkahreppi, d. á Akureyri 11.4. 1944. Bróðir Guðrúnar var Júlíus Baldvin, búsettur á Akureyri, f. 31.5. 1915, d. 23.9. 1999. Kona hans er Sigríður Gísladóttir, f. 17.7. 1916. Þeirra börn eru tvö. Uppeldisbróðir Guðrúnar er Stefán Júlíusson, f. 22.l. 1924 á Akureyri, búsettur á Breiðabóli á Svalbarðsströnd. Eiginkona hans er Ásta Sigurjónsdóttir, f. 25.7. 1931 í Leifshúsum á Svalbarðsströnd. Þeirra börn eru átta talsins.

Guðrún giftist Guðmundi L. Guðmundssyni skipstjóra 3.11. l934. Guðmundur var f. í Reykjavík 17.3. 1908, d. 3.1. 1989 á Reykjalundi í Mosfellsbæ. Foreldrar hans voru Sólveig Steinunn Stefánsdóttir, f. 29.3. 1879 í V-Skaft., d. í Reykjavík 26.1. 1958, og Guðmundur Kristján Bjarnason, skipstjóri, f. 12.12. 1872 í Dalshúsum í Önundarfirði, d. í Reykjavík 11.4. l928. Guðrún og Guðmundur bjuggu á Akureyri. Guðmundur starfaði sem skipstjóri og síðar sem framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Akureyringa. Árið 1959 fluttu þau til Reykjavíkur. Þegar suður kom unnu þau hjón bæði hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði eða þar til Guðmundur veiktist á áttunda áratugnum. Síðar bjuggu þau í Mosfellsbæ. Síðustu árin dvaldi Guðrún á Hjúkrunarheimilinu Eir. Þau áttu tvö börn. Þau eru: 1) María, hjúkrunarfræðingur, f. 9.11. 1935. Hennar maki er Haukur Þórðarson, fv. yfirlæknir á Reykjalundi, f. 3. 12. 1928. Dóttir Maríu og stjúpdóttir Hauks er Dóra Guðrún Wild, hennar maki er Árni Árnason og eiga þau eitt barn en Dóra á tvö börn af fyrra hjónabandi. Börn Hauks af fyrra hjónabandi eru í aldursröð: A) Pétur Haukur Hauksson, maki Anne Grethe Hansen, þau eiga fjögur börn. B) Þórður Hauksson, maki, Kristjana Fenger, þau eiga eitt barn en Þórður á tvö börn af fyrra hjónabandi og Kristjana eitt. C) Magnús, maki Hrafnhildur Guðmundsdóttir, þeirra börn eru þrjú. D) Gerður Sif, maki Karl Benediktsson, þau eiga eitt barn. 2) Jón, geðhjúkrunarfræðingur, f. 19.2. 1946. Hann eignaðist son sem var ættleiddur. Jón hefur búið og unnið í Svíþjóð mörg undanfarin ár.

Útför Guðrúnar verður gerð frá Lágafellskirkju í Mosfellsbæ í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Ef nefna ætti sérkenni í fari Guðrúnar gæti það verið háttprýði og heilindi. Þegar undirritaður kynntist henni fyrir tæpum þremur áratugum var hún kona hress, skilningsgóð og ræðin. Ellin kom í öllu sínu veldi og þar kom áratugum síðar að því að ellikerling náði undirtökunum. Hún ferðaðist samt um með okkur og sóttist eftir félagsskap, spjallaði um það sem fyrir augun bar. Þetta segir okkur m.a. það að henni þótti vænt um félagsskapinn, hver sem í hlut átti. Vissulega kom að því síðar að ferðalög lögðust af enda orðin tæplega 100 ára þegar hún lést. Allajafna naut hún vel heimsókna hvort sem hún dvaldi á heimili sínu, Reykjalundi, Hlaðhömrum eða á Hjúkrunarheimilinu Eir en þar dvaldi hún síðustu árin.

Guðrún var komin af bændum og sjómönnum norðanlands. Móðir hennar var ljósmóðir sem sinnti mjög stóru umdæmi, sannarlega annasöm störf ásamt með húsmóðurstörfunum. Faðir hennar var timburmeistari (nú heitir það byggingarmeistari) og byggði víða. M.a. var hann byggingarmeistari Kristnesspítala og reisti þá stóru byggingu þess tíma ásamt með öðrum. Guðrún átti einn bróður, Júlíus Baldvin. Auk þess ólu foreldrar hennar upp bróðurson Maríu, Stefán Júlíusson.

Eiginmaður Guðrúnar var Guðmundur Guðmundsson, skipstjóri, löngu látinn, börnin eru tvö, bæði löngu vaxin úr grasi.

Það var alltaf hlýtt og bjart þar sem Guðrún fór. Hún hafði eins og nú er gjarnan sagt góða "nærveru". Hún naut sín í félagsskap við fjölskyldu og vini. Hún lagði ung stund á píanóleik, m.a. spilaði hún undir í bíó á tíma þöglu myndanna. Hún tók oft í píanóið á mannamótum og spilaði jafnt ættjarðarlög sem sígilda tónlist. Þegar hún eltist greip hún í píanóið daglega. Þar með sinnti hún þörf sinni fyrir þjálfun huga og handar.

Þrátt fyrir háan aldur hélt Guðrún ávallt reisn sinni og virðuleika,

Við fjölskylda hennar sendum starfsfólki á Reykjalundi, Hlaðhömrum og Eir hjartans þakkir fyrir allt sem þetta ágæta fólk gerði fyrir hana.

Haukur Þórðarson.

Þegar langamma Gunna bjó á Hlaðhömrum komum við systkinin til hennar reglulega tvisvar í viku með mömmu okkar með það sem hana vantaði úr matvörubúðinni. Ef hún sat ekki í ruggustólnum sínum og var að lesa eða horfa á sjónvarpið á hæstu stillingu, en hún var farin að heyra illa, var hún að spila á píanóið en það gerði hún daglega þar til hún varð 90 ára en þá gaf hún mér (Agnesi) píanóið sitt og sagði við mig: "Vertu dugleg að æfa þig, elskan mín."

Við fengum alltaf súkkulaðikex og kók hjá langömmu og ef okkur langaði í nammi gaf hún okkur aura til að kaupa það, alltaf 2000 kr. Við sögðum henni að það væri alltof mikið. 500 kr. væri meira en nóg en hún stóð fast við sitt og neitaði að gefa okkur minna. Eftir að langamma fór á Hjúkrunarheimilið Eir söknuðum við þess að geta ekki hlaupið til hennar á Hlaðhamra. Við reyndum að heimsækja hana eins oft og við gátum og alltaf þegar við komum í heimsókn varð hún svo glöð og brosti til okkar. Okkur hlýnaði alltaf svo um hjartaræturnar þegar hún brosti fallega bjarta brosinu sínu.

Síðustu mánuðina hrakaði henni og stundum þekkti hún okkur ekki strax þegar við komum í heimsókn og spurði mömmu hver við værum. Það var svolítið sárt að langamma sem hafði búið hjá okkur fyrstu árin okkar, verið með okkur um jól og hátíðar þekkti okkur ekki

Nú er elsku langamma Gunna horfin frá okkur en við munum aldrei gleyma henni eða því sem hún gerði fyrir okkur systkinin.

Langömmubörnin

Agnes, Egill og Árni Haukur.

Elskuleg föðursystir mín hefur nú kvatt þennan heim með æðruleysi og vel undir brottförina búin.

Minningarnar hrannast upp, enda samferðatíminn orðinn langur.

Það sem einkenndi Gunnu frænku var góðmennska, hjálpsemi og glaðværð. Hún var falleg kona yst sem innst, með ómótstæðilegt bros og dillandi hlátur, sem ekki er hægt að gleyma.

Hún var ein af þessum manneskjum sem er svo gott að vera nálægt, hún kunni að segja frá og átti gott með að hlusta og skynja tilfinningar annarra, gefa af sér og sjá tilveruna í björtu ljósi. Hún var vel af Guði gerð.

Margan braginn var hún búin að yrkja um atburði innan fjölskyldunnar, enda var hún bæði hagmælt og tónelsk og hitti ævinlega í mark með hæfilegu samblandi af gamni og alvöru.

Fyrir mér og mínum stóð heimili Gunnu frænku alltaf opið og öllum var tekið með kostum og kynjum.

Ég naut þess ríkulega að eiga öruggt athvarf í Hafnarfirðinum á námsárum mínum, þar var mitt annað heimili.

Gunna frænka var afar frændrækin og lét sér umhugað um frændgarð sinn, jafnt yngri sem eldri og hún fylgdist með lífi okkar allra af áhuga. Hún var líka höfuð ættarinnar.

Að leiðarlokum þakkar fjölskylda mín og ég samfylgdina og kveður Gunnu frænku með virðingu og söknuði

Við Egill, María, Júlía, Jón Gísli og Sigríður mágkona biðjum Guð að blessa minningu hennar. Hvíl í friði.

Herdís (Haddí).