Frá Bandalagi íslenskra skáta: "Í VEGLEGRI grein um framlag Háskólasjóðs Eimskipafélagsins til Háskóla Íslands sem birt var á blaðsíðu 27 í Morgunblaðinu í gær 9."

Í VEGLEGRI grein um framlag Háskólasjóðs Eimskipafélagsins til Háskóla Íslands sem birt var á blaðsíðu 27 í Morgunblaðinu í gær 9. febrúar sást á stórri mynd er menntamálaráðherra, fjármálaráðherra, háskólarektor og fulltrúi Háskólasjóðs, Björgólfur Thor Björgólfsson, undirrita samninginn. Fyrst skal það nefnt að Eimskipafélaginu er hér með þakkað að styðja svo höfðinglega við Háskólann og fagnaðarefni að stórfyrirtæki sýni svo eftirminnilega stuðning við þessa mikilvægu mennta- og menningarstofnun.

En í baksýn á þessari stóru mynd sést í fánaborg sem sett hefur verið upp í þessu tilefni og þar er ekki rétt farið með íslenska þjóðfánann og er allt of algengt að þetta sjáist jafnvel hjá opinberum stofnunum sem eiga að hafa þekkingu á þessu. Þar var fjórum fánum raðað í beina fánaborg, eða hvirfilraðað. Íslenski fáninn var lengst til vinstri (séð frá áhorfanda) sem er rétt. Við hlið hans er síðan blár fáni (senilega fáni Eimskipafélagsins) þá kemur bil og hægra megin eru tveir eins fánar hvítir (sennilega fánar Háskólans). Samkvæmt fánareglum er þetta ekki leyfilegt, en þar segir: "Ekki skal raða merkjum eða fánum sveitarfélaga, félaga eða fyrirtækja inn á milli þjóðfána. Slíkir fánar skulu hafðir í röðum eða þyrpingum aðskildum frá þjóðfánum." Þetta þýðir að þegar íslenska fánanum og fyrirtækja eða stofnanafánum er styllt upp með íslenska fánanum þarf að aðgreina á milli þeirra og það er til dæmis gert með því að skilja eina stöng eftir auða á milli (í þessu tilfelli að setja ekki fánastöng í 1-2 festingar).

Þetta er ekki áréttað til að halla á þennan viðburð að neinu leyti heldur til að árétta rétta meðferð íslenska fánans og hvetja alla sem eru í því hlutverki að stilla fánanum upp að tryggja að rétt sé með hann farið og kynna sér fánareglurnar.

ÞORSTEINN FR.

SIGURÐSSON,

framkvæmdastjóri

Bandalags íslenskra skáta.

Frá Bandalagi íslenskra skáta