FH-INGAR fá að öllum líkindum erfiðari andstæðinga í forkeppni Meistaradeildar Evrópu næsta sumar en íslensk knattspyrnulið hafa átt við að etja á undanförnum árum. Þar sem íslensk lið hafa verið slegin út í 1.

FH-INGAR fá að öllum líkindum erfiðari andstæðinga í forkeppni Meistaradeildar Evrópu næsta sumar en íslensk knattspyrnulið hafa átt við að etja á undanförnum árum. Þar sem íslensk lið hafa verið slegin út í 1. umferðinni fjögur ár í röð, KR þrívegis og Skagamenn einu sinni, er Ísland nú komið í veikari styrkleikaflokkinn þegar dregið verður til 1. umferðarinnar í vor.

KR tapaði fyrir Vllaznia frá Albaníu árið 2001, fyrir Pyunik frá Armeníu 2003 og fyrir Shelbourne frá Írlandi 2004, og Skagamenn töpuðu fyrir Sarajevo frá Bosníu 2002. Í öllum tilvikum var Ísland í efri styrkleikaflokki og íslensku liðin áttu því að eiga góða möguleika á að komast áfram. Það kom reyndar í ljós að leikmenn Sarajevo voru ofjarlar Skagamanna en KR-ingar hefðu átt að geta borið sigurorð af öllum andstæðingum sínum, og áttu góða möguleika á því. Það hefði væntanlega nægt FH-ingum til að komast í efri styrkleikaflokkinn að KR hefði komist áfram í eitt skipti af þessum þremur.

KR-ingar voru síðasta íslenska liðið sem komst í gegnum 1. umferð forkeppninnar, með því að sigra Birkirkara frá Möltu samanlagt 6:2 árið 2000, en tapaði síðan fyrir Bröndby frá Danmörku, 1:3 samanlagt, í 2. umferð.

Ísland í 38. sætinu

Samkvæmt nýjum styrkleikalista fyrir Meistaradeildina, sem UEFA hefur gefið út, er Ísland í 38. sæti af 52 þjóðum Evrópu þar sem árangur í Evrópumótunum undanfarin fimm ár er hafður til hliðsjónar. Meistaralið 24 þjóða hefja keppni í 1. umferð og þar er Ísland nú komið niður fyrir miðju, er í þrettánda sæti, og þar með í efsta sæti í neðri styrkleikaflokknum.

Í efri flokknum verða meistaralið eftirtalinna þjóða, sem þar með geta orðið andstæðingar FH-inga:

Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Kýpur, Moldavía, Lettland, Finnland, Bosnía, Georgía, Makedónía, Litháen og Hvíta-Rússland.

Það bendir því allt til þess að FH-ingar þurfti að leggja land undir fót og spila í austurhluta Evrópu í júlímánuði. Flestallar þessar þjóðir eiga sterk topplið sem yrðu Íslandsmeisturunum mjög erfið hindrun.

Í neðri styrkleikaflokknum verða ásamt FH meistaralið Möltu, Írlands, Armeníu, Wales, Albaníu, Norður-Írlands, Eistlands, Lúxemborgar, Aserbaídsjans, Færeyja og Kasakstans.

Portúgalar hagnast á Evrópumeistaratitlinum

Portúgalar hafa unnið sig upp um flokk í Meistaradeildinni í kjölfarið á sigri Porto í deildinni á síðasta tímabili. Nú fá tvö efstu liðin í portúgölsku 1. deildinni sæti í Meistaradeildinni og það þriðja fer beint í 3. og síðustu umferð forkeppninnar. Það eru Grikkir sem missa sæti í staðinn, eitt lið frá þeim í stað tveggja áður kemst beint í Meistaradeildina og eitt fer í forkeppnina.

Þá hafa Tékkar fengið sæti fyrir meistaralið sitt í Meistaradeildinni, í stað Skota, sem nú verða að hefja keppni með bæði sín lið, Celtic og Rangers, í 2. og 3. umferð forkeppninnar. Skoða má styrkleikaflokkunina í heild sinni á mbl.is.