Jóna Janusína Guðjónsdóttir fæddist á Vífilsmýrum í Önundarfirði 6. janúar 1907. Hún lést á Sólvangi í Hafnarfirði 2. febrúar síðastliðinn. Hún var áður búsett í Miðvangi 41 í Hafnarfirði. Foreldrar hennar voru Helga Einarsdóttir á Selabóli í Önundarfirði, f. 31. des. 1866, d. 23. okt. 1938, og Guðjón Sigurðsson, f. í Trostansfirði 28. okt. 1868, d. 31. des. 1937. Þau bjuggu síðast í Efrihúsum í Önundarfirði. Jóna átti átta systkini, þrjú dóu í frumbernsku. Hin voru Hólmfríður, Guðjón, María, Guðbjartur og Ágústa og eru þau öll látin.

Jóna giftist 2. janúar 1932 Magnúsi Jónatanssyni frá Hóli í Önundarfirði, f. 2. janúar 1897, d. 30. mars 1985. Dóttir þeirra er Sigríður Hulda Magnúsdóttir, f. 18. mars 1934, gift Hinriki S. Vídalín Jónssyni, f. 25. ágúst 1932 í Hafnarfirði. Foreldrar hans voru Jón Vídalín Hinriksson, f. 8. des. 1904, d. 20. apríl 1961, og Guðrún Einarsdóttir, f. 3. maí 1900, d. 17. ágúst 1976. Synir Huldu og Hinriks eru: 1) Jón Svavar Vídalín, f. 6. des 1952, maki Guðrún S. Júlíusdóttir, f. 22. febrúar 1955. Dætur þeirra eru Brynja Björk, f. 1. apríl 1979, í sambúð með Valgeiri Sigurðssyni, og Kristín María, f. 16. nóvember 1985. 2) Magnús Jónatan, f. 5. nóvember 1954, maki Guðríður Aadnegard, f. 4. maí 1955. Börn þeirra eru Óli Bjarkar, f. 30. ágúst 1976, í sambúð með Aliciu Rodrigues Prieto, dóttir þeirra er Violeta. Hulda, f. 20. febúar 1982, í sambúð með Erni Smára Blumenstein, þeirra sonur er Leifur. Sigrún, f. 7. desember 1984. 3) Ágúst Björn, f. 6. nóvember 1960, kvæntur Margréti Steingrímsdóttur, f. 24. apríl 1967. Synir Ágústs og Guðbjargar Jónsdóttur eru Örn Ingi, f. 18. ágúst 1983, í sambúð með Mörtu Dís Stefánsdóttur, og Hinrik Þór, f. 5. maí 1989. Börn Margrétar eru Íris Tinna Margrétardóttir og Þorsteinn Bjarni Viðarsson.

Jóna og Magnús hófu búskap í Tungu og byggðu síðan nýbýli á Grund í landi Hóls. Vegna veikinda Magnúsar fluttu þau til Flateyrar 1942, síðan til Reykavíkur 1949 og að síðustu til Hafnarfjarðar.

Jóna vann almenna verkamannavinnu fram undir sjötugt. Hún stundaði nám í Húsmæðraskólanum á Staðarfelli veturinn 1930-1931.

Útför Jónu fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Amma Jóna var ekki bara langalangamman mín heldur var hún líka góð vinkona mín. Ég fór stundum með ömmu Huldu að heimsækja hana og hún var alltaf svo glöð. Við amma Jóna vorum góðir vinir. Hún átti heima hjá öllu gamla fólkinu á Sólvangi en núna er hún búin að flytja upp á himininn til hans Guðs. Hún er búin að breytast í engil og ætlar að vera með hinum englunum. Amma Jóna er samt ennþá vinkona mín.

Elsku amma Jóna, takk fyrir hvað þú varst alltaf góð vinkona mín og ég sendi þér koss í hjartað frá mér.

Leifur Blumenstein.

Elsku langa, þá ertu farin frá okkur. Ég á eftir að sakna þín mikið, þó svo að mér finnist liðinn dálítill tími síðan þú fórst. Þú veist hvað ég meina. Eins og nokkrir aðrir átti ég mjög erfitt með að koma að heimsækja þig á síðustu árum því að þú varst smátt og smátt að hverfa. Mér fannst svo erfitt að tala við þig af því að þú mundir ekki eftir mér. En ég vona að þú eigir eftir að fyrirgefa mér það vegna þess að þó að ég kæmi ekki hugsaði ég oft til þín.

Ég á svo margar góðar minningar um okkar tíma saman, þá allra helst þegar við flugum saman til Hólmavíkur til að hitta ömmu og afa í húsbílnum. Þú varst svo hrædd að ég hélt í höndina á þér allan tímann, enda var þetta líka einhver smá rella. En ég verð að viðurkenna að ég var líka svakalega hrædd en ég reyndi að fela það. Þetta var alveg frábært ferðalag sem ég mun aldrei gleyma. Svo náttúrlega allar þær stundir sem við áttum saman á Miðvangi 41. Eftir skóla eða bara í fríi. Við töluðum saman um heima og geima og svo spiluðum við líka helling. Þú meira að segja vannst mig í kleppara, á þínum aldri.

Nú þegar þú ert farin, vona ég að þú hafir fundið innri frið og hver veit nema þú og langafi hafið fundið hvort annað aftur einhvers staðar.

Ég mun aldrei gleyma þér og ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að hafa þig í mínu lífi svona lengi. Margir eru nefnilega ekki svo heppnir.

Blessuð sé minning þín, elsku langamma mín. Megi Guð geyma þig.

Þín

Brynja Björk.