— Morgunblaðið/Jim Smart
REKSTUR Flugfélags Íslands gekk mjög vel í fyrra en niðurstöðutölur munu ekki verða kynntar fyrr en samstæðuuppgjör Icelandair verður lagt fram.

REKSTUR Flugfélags Íslands gekk mjög vel í fyrra en niðurstöðutölur munu ekki verða kynntar fyrr en samstæðuuppgjör Icelandair verður lagt fram. Verður þetta því væntanlega þriðja árið í röð sem félagið er rekið með viðunandi hagnaði en innanlandsflug og taprekstur hafa löngum haldist í hendur hér á landi.

Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, staðfestir að afkoman hafi verið vel viðunandi í fyrra og að félagið hafi verið rekið réttum megin við núllið.

Hann segir félagið hafa flutt um 320 þúsund farþega í fyrra en það sé 14% aukning á milli ára sem verði að teljast afar góður vöxtur. "Það sem kom okkur kannski gleðilega á óvart var að aukningin er ekki bara á Egilsstaði eins og við héldum í fyrstu heldur er vöxtur á alla helstu áfangastaði hjá okkur. Hann er á bilinu 8-25% eftir því hvaða staðir eiga í hlut. Þannig að þetta er jákvætt."

Jón Karl segir rekstur innanlandsflugs á Íslandi hafa verið erfiðan, raunar eins lengi og elstu menn muna en undanfarin þrjú ár hafi tekist að reka félagið með viðunandi hagnaði; þannig hafi hagnaður Flugfélags Íslands árið 2003 numið um 240 milljónum króna eftir skatta.

Gerbylting með sölu á Netinu

Spurður um ástæður fyrir betri afkomu segir Jón Karl eftirspurn hafa aukist en eins hafi menn gert miklar breytingar á rekstrinum sjálfum. Ferðavenjur innanlands hafi verið að breytast mjög hratt og fólk fari oftar og veigri sér síður við að fara á milli staða. Þá hafi menn algerlega skorið upp fargjaldareglur og dreifingu á afurðunum félagsins. Félagið hafi verið hefðbundið flugfélag með farmiðasölu. "En við fórum yfir í það að vera með þessa netsölu, sem hefur gjörbylt hjá okkur rekstrinum og sparað verulega fjármuni. Við seljum líka núna einnar leiðar fargjöld og erum ekki lengur með neinar helgarreglur eða annað slíkt. Það hefur gjörbreytt ímynd á því hvað það kostar að fljúga," segir Jón Karl.