Konumoskan í borginni Isfahan í Íran.
Konumoskan í borginni Isfahan í Íran.
Í Morgunblaðinu á sunnudag féll niður texti, sem átti að fylgja grein eftir Sigrid Valtingojer um Íran og lýsir þeim hörmungum sem íranska þjóðin hefur þurft að ganga í gegnum á undanförnum aldarfjórðungi.

Í Morgunblaðinu á sunnudag féll niður texti, sem átti að fylgja grein eftir Sigrid Valtingojer um Íran og lýsir þeim hörmungum sem íranska þjóðin hefur þurft að ganga í gegnum á undanförnum aldarfjórðungi. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum og birtist textinn hér:

"Á undanförnum 25 árum hafa róttækir sögulegir atburðir og breytingar átt sér stað í Íran.

BYLTING, sem kollvarpaði pólitískum, félagslegum og þjóðfélagslegum aðstæðum fólksins.

STRÍÐ, sem geisaði lengur en seinni heimsstyrjöldin í Evrópu og kostaði tæpa milljón karla, kvenna og barna lífið.

NÁTTÚRUHAMFARIR - jarðskjálftar hafa kostað fjölda mannslífa og valdið gríðarlegri eyðileggingu.

STRAUMUR íransks menntafólks í útlegð og straumur af afgönsku flóttafólki til Írans - fyrir vikið hýsir Íran fleira flóttafólk en flest önnur lönd í heimi.

Það má segja, að hver einasta fjölskylda syrgi píslarvotta, sem létu lífið annaðhvort í byltingunni, í stríðinu eða sem pólitískir andófsmenn.

Og öll þessi fórn var til einskis.

Í dag berst fólk við margvísleg vandamál eins og atvinnuleysi, of lítið framboð af skólum og menntunarmöguleikum og ritskoðun klerka á öllum sviðum.

Þrátt fyrir allt þetta hefur íbúafjöldi tvöfaldast á síðastliðnum 25 árum. 70% Írana eru undir 25 ára aldri. Þetta er sterkt afl og hjá þessum hópi ungs fólks liggur framtíðarvonin. Krafist er betri menntunar og meira frelsis sem ekki kosta róttæka byltingu, heldur næst fram með þolinmæði og þrautseigju fólksins í landinu á næstu árum."