Undirbúningur fyrir sýningu á bókasafni Jóns Steffensens í Þjóðarbókhlöðunni. Emelía Sigmarsdóttir og fleiri glugga í bækur.
Undirbúningur fyrir sýningu á bókasafni Jóns Steffensens í Þjóðarbókhlöðunni. Emelía Sigmarsdóttir og fleiri glugga í bækur. — Morgunblaðið/ÞÖK
EITT hundrað ár eru í dag liðin frá fæðingu Jóns Steffensen, prófessors við læknadeild Háskóla Íslands, og í minningu hans verður á föstudag efnt til ráðstefnu og opnuð sýning í máli og myndum um starf, einkalíf og áhugamál Jóns.

EITT hundrað ár eru í dag liðin frá fæðingu Jóns Steffensen, prófessors við læknadeild Háskóla Íslands, og í minningu hans verður á föstudag efnt til ráðstefnu og opnuð sýning í máli og myndum um starf, einkalíf og áhugamál Jóns. Að henni standa Landsbókasafn Íslands - háskólabókasafn og Þjóðminjasafn Íslands.

"Jón Steffensen var merkilegur maður, húmanisti og vísindamaður og afkastamikill fræðimaður á sviði rannsókna í læknisfræði og mannfræði og hafði forgöngu um að stofna Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar og safnaði miklu af lækningatækjum og skráði sögu þeirra," segir Örn Bjarnason, fyrrverandi ritstjóri Læknablaðsins, í samtali við Morgunblaðið. Ásamt Erni hafa þau Gísli Pálsson, Emilía Sigmarsdóttir, Sigurður Örn Guðbjörnsson, Kristín Bragadóttir og Jökull Sævarsson undirbúið ráðstefnuna og sýninguna.

Jón Steffensen nam læknisfræði við HÍ, stundaði síðar framhaldsnám erlendis og var skipaður prófessor í líffærafræði og lífeðlisfræði við HÍ frá 1937. Frá haustinu 1957 kenndi hann eingöngu líffærafræði og vefjafræði til 1972 og hann rak rannsóknastofu í meinefnafræði 1937 til 1972.

Gísli Pálsson prófessor tekur undir að ferill Jóns Steffensen hafi um margt verið merkilegur. "Hann var brauðryðjandi á mörgum fræðasviðum, til dæmis faraldsfræði, sögu læknisfræðinnar, líffærafræði, mannfræði og fornleifafræði og það liggja merk verk eftir hann á öllum þessum sviðum. Mörg þeirra hafa komið út en það eru líka til í handritum verk um rannsóknir hans sem ekki hafa enn verið gefin út."

Hjónin Jón Steffensen og Kristín Björnsdóttir gáfu Háskólabókasafni sex þúsund binda bókasafn sitt eftir sinn dag og hefur bókum um læknisfræðileg efni verið komið fyrir í sérstakri deild á Landsbókasafni - háskólabókasafni sem ber nafn hans. Þar er einnig skrifborð Jóns og málverk af honum. Þá gáfu þau húseign sína við Aragötu sem ganga skyldi til viðhalds og eflingar sérsafninu og til styrktar útgáfu handrita sem tengjast sögu heilbrigðismála. Þá arfleiddu þau Læknafélag Íslands að mestum hluta annarra eigna sinna sem verja skal til að efla og byggja upp Nesstofusafn en Jón átti mikinn þátt í það að Nesstofa, bústaður fyrsta landlæknis Íslands, komst í eigu ríkisins og þar var komið upp lækningaminjasafni.

Eins og fyrr segir verður á föstudag opnuð sýning á bókum, handritum, munum og myndun sem tengjast starfi Jóns Steffensen. Þann dag hefst einnig ráðstefna kl. 15.30 sem heldur áfram laugardaginn 19. febrúar kl. 9 til 16.50. Verða flutt erindi um Jón og störf hans og um efni sem tengjast hinum mörgu fræðasviðum hans. Aðalfyrirlesari á föstudag er prófessor Andy Cliff sem m.a. ræðir um faraldra sem stafað hafa af eldsumbrotum.