VEGNA fregna um hugsanlegt samkomulag borgaryfirvalda og samgönguráðuneytisins um áframhaldandi flugstarfsemi í Vatnsmýrinni hefur Hverfafélag sjálfstæðismanna í Vesturbæ og Miðbæ samþykkt eftirfarandi ályktun: "Stjórnin Hverfafélags...

VEGNA fregna um hugsanlegt samkomulag borgaryfirvalda og samgönguráðuneytisins um áframhaldandi flugstarfsemi í Vatnsmýrinni hefur Hverfafélag sjálfstæðismanna í Vesturbæ og Miðbæ samþykkt eftirfarandi ályktun:

"Stjórnin Hverfafélags sjálfstæðismanna í Vesturbæ og Miðbæ telur óásættanlegt að gert verði samkomulag á milli borgaryfirvalda og samgönguráðuneytisins um áframhaldandi flugstarfsemi í Vatnsmýrinni án undangenginnar kynningar og umræðna meðal Reykvíkinga um hvað slíkt samkomulag felur í sér. Óviðunandi er að borgaryfirvöld ákveði upp á sitt eindæmi að binda hendur Reykvíkinga allra í svo stóru máli og er ljóst að slíkt samræmist ekki lýðræðislegum vinnubrögðum.

Brýnt er að afdrifaríkar ákvarðanir um framtíð Reykjavíkurflugvallar og hugmyndir um nýtingu dýrmætasta byggingarlands höfuðborgarinnar verði teknar með lýðræðislegum hætti. Slíkt verður best tryggt með því að efna til kosningar þar sem öllum atkvæðisbærum Reykvíkingum gefst kostur á að velja á milli skýrra og raunverulegra valkosta um Reykjavíkurflugvöll og framtíðarskipulag Vatnsmýrarinnar."