SIGSTEINN var alinn upp í stórum systkinahópi, tólf af fjórtán systkinum komust á legg. Elstir voru fimm bræður, svo fjórar systur, þá Sigsteinn og loks tvær systur til viðbótar.

SIGSTEINN var alinn upp í stórum systkinahópi, tólf af fjórtán systkinum komust á legg. Elstir voru fimm bræður, svo fjórar systur, þá Sigsteinn og loks tvær systur til viðbótar. Sigsteinn segist því hafa verið alinn upp umkringdur konum og að það hafi haft mikil og góð áhrif á hann.

"Ég vildi alltaf verða klæðskeri eða bakari en ekki bóndi," segir Sigsteinn og hlær. "Þegar systur mínar voru farnar að sauma út vildi ég fá að sauma út líka," rifjar hann upp. "Svo þegar þær voru allar farnar að heiman þá lentu sum af þessum kvenmannsverkum á mér. Ég kunni til dæmis á prjónavél, ég prjónaði sokka og nærföt. Ég prjónaði og prjónaði heima í Tungu."

Hann segir að metnaður unga fólksins á Austurlandi á þessum fyrstu áratugum aldarinnar hafi verið að fara í skóla á Eiðum. Mikil vonbrigði voru það fyrir Sigstein að fá synjun, þar sem hann hafði sótt of seint um. Séra Ásmundur Guðmundsson, síðar biskup, var skólastjóri á Eiðum á þessum tíma. "Mörgum árum seinna þegar ég er orðinn bóndi á Blikastöðum og Ásmundur orðinn biskup yfir Íslandi þá kom hann og messaði á Lágafelli en þar var ég meðhjálpari. Ég minnti hann á að hann hefði ekki getað tekið við mér í Eiðaskóla á sínum tíma. "Það fór nú í verra," sagði biskupinn," rifjar Sigsteinn upp.