Jóhannes Kr. Guðmundsson fæddist á Raufarhöfn hinn 13. október 1934. Hann lést á Landspítalanum í Landakoti hinn 3. febrúar síðastliðinn. Móðir hans var Sigríður Magnúsdóttir og faðir hans var Guðmundur Halldór Jóhannesson. Alsystir hans var Hólmfríður Þuríður, en hún dó árið 2000. Hálfsystkini hans eru Árni Hrafn Árnason, Ingigerður R. Árnadóttir og Magnea R. Árnadóttir.

Eftirlifandi eiginkona Jóhannesar er Guðlaug Guðlaugsdóttir fædd að Heiði í Holtum í Rangárvallasýslu. Þau giftust hinn 31. desember árið 1959 og eignuðust fjögur börn sem eru: 1) Guðmundur Hallur, f. 1957, maki hans er Vilhelmína Nielsen og eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn. 2) Ragna Hrönn, f. 1960, maki hennar er Kristinn Gústafsson og eiga þau þrjú börn og fjögur barnabörn. 3) Helma Björk, f. 1964 og á hún eitt barn. 4) Kristín Heiða, f. 1972, sambýlismaður hennar er Steinn Viðar Ingason og eiga þau tvö börn. Fyrir átti Jóhannes eina dóttur, Valgerði Önnu, f. 1954, og á hún fjögur börn og fjögur barnabörn. Sambýlismaður hennar er Þórir Erlendsson.

Jóhannes ólst upp á Raufarhöfn hjá ömmu sinni Hólmfríði Þuríði Guðmundsdóttur og afa sínum Magnúsi Stefánssyni frá Skinnalóni á Melrakkasléttu. Þegar hann var 17 ára gamall flutti hann til Reykjavíkur.

Hann vann ýmis störf, meðal annars við verslun, útgáfu og sem framkvæmdastjóri Alþýðublaðsins.

Hann var virkur félagi í Alþýðuflokki Reykjavíkur.

Jóhannes og eiginkona hans Guðlaug stofnuðu Samtök lungnasjúklinga árið 1997.

Útför Jóhannesar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Það er með trega í hjarta að ég sest hér niður á fögrum vetrarmorgni og hripa línur á blað - nokkur minningarorð um kæran baráttufélaga. Ekki verður hjá því komist að tár fylli hvarma en þau eru ekki eingöngu sorgartár heldur líka gleðitár. Það er gott þegar minningarnar draga líka fram margar gleðistundir.

Leiðir okkar Jóhannesar lágu fyrst saman í lok maí 1995, á lungnadeild Reykjalundar. Sátum við oft og spjölluðum og miðlaði hann mér af sinni miklu reynslu. Ekki spillti svo fyrir þegar í ljós kom að við Guðlaug Guðlaugsdóttir, eftirlifandi eiginkona Jóhannesar, erum bræðradætur. Og enn bætti í þegar Jóhannes komst að því, að hann og sambýlismaður minn, Vatnar Viðarsson, eru náskyldir. Töluðum við um þau hjónin á okkar heimili sem stórfrændann og stórfrænkuna. Það sem kom mér mest á óvart á lungnadeild Reykjalundar, hvað þetta mikið veika fólk var alltaf skapgott og stutt í brosið hjá öllum. Ekki skorti uppá glettni og gott skap hjá Jóhannesi. Það var alveg sama á hverju gekk með sjúkdóm hans þá sá hann alltaf eitthvað spaugilegt og jákvætt og sagði svo skemmtilega frá öllu sem á daga hans dreif. Þessa samverudaga okkar á Reykjalundi var mikið brallað og grínast og má segja að lagður hafi verið grunnur að ýmsum góðum málum þar. Vil ég fyrst nefna að við stofnuðum Mæðukór lungnadeildar Reykjalundar. Þetta var ekki venjulegur mæðukór - heldur kór þeirra, sem áttu við mæði að stríða. Það var ekkert smávegis sem var sungið. Við fórum niður í setustofu, þar sem var flygill og sungum og sungum. Margir söfnuðust svo í kringum okkur á þessum söngstundum og undirleikari okkar var eldri dama með parkinsonsjúkdóm á háu stigi, en það kom nú aldeilis ekki að sök. En á þessum dögum var einnig mikið rætt um málefni lungnasjúklinga og varð það úr að við Jóhannes hófum undirbúning að stofnun Samtaka lungnasjúklinga. Margir góðir menn og konur komu þar við sögu og langar mig að nefna fyrsta Guðlaugu, sem studdi okkur og styrkti alla stund, Hauk Þórðarson, fyrrverandi yfirlækni á Reykjalundi og Björn Magnússon, lungnasérfræðing, sem þá var starfandi á lungnadeildinni á Reykjalundi. Undirbúningurinn tók tæp tvö ár og 20. maí, 1997 var stofnfundurinn haldinn á Reykjalundi. Jóhannes var þá á lungnadeild Reykjalundar og var ákaflega mikið veikur. Hann lét þó veikindi sín ekki aftra sér frá því að taka þátt í stofnfundinum, eins og fyrirfram hafði verið ákveðið. Með hjálp hjúkrunarfólks og lækna deildarinnar tókst honum að komast niður í safnaðarsalinn og stíga í ræðustól og flytja ávarp. Hann var þá kjörinn formaður Samtaka lungnasjúklinga og gegndi því embætti til ársins 2001.

Það var ákaflega gott að vinna með Jóhannesi og smitaði hann frá sér þeim eldhuga, sem í honum bjó. Hann var mikill baráttumaður, hafði ákveðnar skoðanir á málunum og lá ekkert á þeim. Þetta eru ákaflega góðir kostir og hann var þeim ríkulega gæddur. Á samstarf okkar Jóhannesar bar aldrei skugga og voru það mikil gæfuspor fyrir mig að hitta hann fyrir á Reykjalundi og samsjúklinga mína þar, því þau gæddu mig nýrri lífssýn.

Eftir að Samtök lungnasjúklina voru tekin inn í SÍBS í október 1998, vann Jóhannes ötullega að öllu starfi þar og gegndi hinum ýmsu trúnaðarstörfum. Hann sat í kynningar- og markaðsnefnd SÍBS, svo og í ritnefnd SÍBS-blaðsins. Hann gekk heilshugar að öllum verkum og lagði svo sannarlega fram mikið og óeigingjarnt starf í þágu Samtaka lungnasjúklinga og SÍBS. Nú er skarð fyrir skildi.

Langar mig að láta hér að lokum fylgja eitt af mínum uppáhaldsljóðum, Ef til vill:

Ef til vill færðu aftur að hvílast í grasi

örskammt frá blessuðum læknum, rétt eins og forðum,

og hlusta á vingjarnlegt raul hans renna saman

við reyrmýrarþyt og skrjáf í snarrótar-

punti,

finna á vöngum þér ylgeisla sumarsólar

og silkimjúka andvarakveðju í hári,

er angan af jurtum og járnkeldum þyngist

og jaðraki vinur þinn hættir að skrafa við stelkinn

Ef til vill færðu aftur að hvílast í grasi

með amboðin hjá þér sem forðum, og

titrandi hjarta

mæla í hljóði fram þakkir til lækjar og ljóss,

til lífsins á þessu hnattkorni voru í geimnum,

til gátunnar miklu, til höfundar alls sem er.

(Ólafur Jóh. Sigurðsson.)

Við Vatnar sendum Guðlaugu og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum þeim styrks til handa. Við kveðjum góðan dreng með trega og kærri þökk.

Brynja Dís.

Jóhannes Kr. Guðmundsson var sannur og einlægur jafnaðarmaður. Hann var jafnaðarmaður af djúpri hugsjón. Í honum var eðalmálmur í gegn og enginn verðskuldaði frekar nafngiftina eðalkrati en hann. Óeigingjarn, ávallt reiðubúinn til að miðla af sjóði ómetanlegrar pólitískrar reynslu, hjartahlýr og fullur af kátínu. Hann hafði sérstaklega falleg augu, sem voru hlý og djúp, og blikuðu af glettni. Í kringum hann var alltaf gleði og kæti. Jói var einstök félagsvera, og gæddur ótrúlegum skipulagshæfileikum. Það sýndi sig þegar hann tók að sér að skipuleggja sumarferðir Alþýðuflokksins. Eitt sumarið fóru á áttunda hundrað manns með flokknum til Eyja, og Jói sagði sjálfur að það hefði verið þvílík þröng um borð í Herjólfi að formaðurinn sjálfur, Benedikt Gröndal, hefði átt fullt í fangi með að komast í brúna til að halda ræðu!

Jóhannes Kr. Guðmundsson var einn af þeim sem báru uppi starf Alþýðuflokksins í Reykjavík um áratugi og sérlega gaman að vinna með honum og Garðari svila hans Jenssyni. Jói var enginn aukvisi þegar kom að kosningum. Hann var burðarásinn í sigri Vilmundar í prófkjörinu sem var undanfari sigursins 1978. Hann var ósínkur á þá reynslu þegar hann og fleiri góðir félagar í Alþýðuflokknum tóku þátt í að skipuleggja prófkjörið 1991. Fyrir þá aðstoð hans gat ég aldrei fullþakkað, fremur en öll þau góðu ráð sem hann gaf mér löngum síðar.

Í samræmi við jafnaðarhugsjón sína tók Jóhannes þátt í íslensku samfélagi. Hann vildi vernda lítilmagnann og rétta þeim hjálparhönd sem þurftu. Sjálfur lenti hann í erfiðum veikindum sem hann mætti af einstöku og aðdáunarverðu æðruleysi. Eftir dvöl á Reykjalundi beitti hann sér fyrir stofnun samtaka lungnasjúklinga og varð fyrsti formaður þeirra. Því hlutverki sinnti hann af natni og elju og þreyttist ekki á að brýna fyrir okkur félögunum að það væri skylda okkar sem jafnaðarmanna og þingmanna að gera miklu betur við heilbrigðiskerfið.

Þegar Samfylkingin var stofnuð studdi hann hreyfinguna af sömu einurðinni og baráttugleðinni og hann studdi Alþýðuflokkinn áður. Þegar sló í bakseglin á fyrstu árum flokksins og ekki sá alltaf til lands í stórsjóunum brást ekki að Jói var fyrstur á dekk til að undirstrika fyrir áhöfninni að mótlætið herti menn bara. Jóhannes Kr. Guðmundsson var ómetanlegur félagi og fyrir hönd Samfylkingarinnar færi ég honum bestu þakkir fyrir öll hans góðu störf í þágu hreyfingarinnar um áratugi. Ég bið Guð að blessa eiginkonu hans, Guðlaugu, og fjölskyldu þeirra.

Össur Skarphéðinsson.

Jóhannes Guðmundsson var hjartalagskrati. Lífssýn hans og lífsskoðun var sá kristni arfur að við höfum skyldur við náungann, að okkur kemur við líðan þeirra, sem ekki geta búið sér viðunandi lífsmáta, sakir æsku eða elli, ómegðar eða sjúkdóma. Fyrir rúmri öld varð til stjórnmálahreyfing, sem gerði þessa lífssýn að stefnu sinni, hún kallar sig sósíaldemókrata - jafnaðarmenn.

Jafnaðarstefnan var því Jóhannesi jafn eðlileg og laufið er trénu. Hann gekk í Alþýðuflokkinn og hjartalagskratinn varð löggiltur sósíaldemókrati, sem kunni fræðin.

Jóhannes sótti ekki eftir vegtyllum eða völdum innan Alþýðuflokksins. Hann vék sér þó ekki undan slíku þegar eftir var leitað, sem oft var. Hann var félagslegur atgervismaður og hafði áhrif langt umfram titla og embætti.

Jóhannes vann mikið fyrir Alþýðuflokkinn. Ein af ákvörðunum hans, þegar hann var framkvæmdastjóri Alþýðublaðsins, var að ráða Jón Baldvin sem ritstjóra blaðsins, til þess eins og hann sagði, að skapa Jóni aðstæður til að vinna að pólitík. Alþjóð veit hvað varð, en enginn veit hvað orðið hefði ef Jóhannes hefði látið ógert að leiða saman Alþýðuflokkinn og Jón Baldvin.

Einn af hæfileikum Jóhannesar var þrívíð sköpunargáfa. Hann hannaði og lét smíða ketil til að kynda íbúðahús, hann mátti kynda með rafmagni, kolum, mó, timbri og olíu. Ketilinn kallaði hann Nýtil og var það réttnefni. Mér hefur komið þessi uppfinning í hug þegar strjálbýlið kveinkar sér undan óniðurgreiddu rafmagni. Jóhannes var í þessu eins og ýmsu öðru, nokkuð á undan sinni samtíð.

Lundarfar Jóhannesar var einstakt, oft eins og náðargáfa. Hann hafði glaðlega, jákvæða og gefandi lund. Enginn var lengi reiður eða leiður í návist hans. Þó var hann enginn brandarakarl eða trúður. Hann var flæðandi lind af einlægni, hlýju, gleði og æðruleysi. Líklega var sú lind hans dýrasta eign og mesti styrkur. Jóhannes lenti í miklum veikindum og fór í afar stóra skurðaðgerð á lungum. Líf hans hékk þá oft á bláþræði og sextán eða átján sinnum í þeirri legu lenti hann á gjörgæsludeild, en aldrei æðraðist hann og aldrei hvarf honum kímnin né brosið í augunum. Þegar hann fór að hjarna við var hann sendur á Reykjalund. Þar gerði hann sér grein fyrir að lungnasjúklingar gætu haft stuðning hver af öðrum. Á Reykjalundi beitti hann sér fyrir stofnun Samtaka lungnasjúklinga og var kjörinn fyrsti formaður þeirra.

Í dag er kveðjustund og nú skilur leiðir. Við hjónin þökkum Jóhannesi og hans góðu konu, fyrir allar dýrmætu stundirnar sem við áttum saman: Í Skerjó, Reyrengi og Skeifu á flokksþingum og fundum, ferðalögum og mannamótum. Við þökkum fyrir gleðistundirnar, raunastundirnar og sigurstundirnar. Mest þökkum við þó fyrir einlægu vináttuna, sem við áttum alltaf vísa, í ranni þeirra Jóhannesar og Guðlaugar. Elsku Lauga, þú og börnin missið nú mest en þið eigið líka mest af dýrmætum minningum um góðan mann og félaga, föður og afa. Það er okkar bæn að þær minningar megi vera ykkur huggun harmi gegn.

Kristín Viggósdóttir,

Birgir Dýrfjörð.

Jóhannes Guðmundsson var ekki bara framkvæmdastjóri Alþýðublaðsins og fulltrúi atvinnurekandans gagnvart okkur, eins og hann sagði oft hlæjandi með kímni í augum, hann var líka vinur og félagi. Hann bar í sér sumt af því fínasta í mannlegum samskiptum sem okkur fannst sjálfsagt að ætti sér upphaf í dýpstu rótum jafnaðarstefnu. Það voru forréttindi að starfa á litlu blaði með mikla sögu í kompaníi við eldhuga og gott fólk. Á sinn hátt var nýr dagur eins og nýtt líf - launavinnan eins og langskólanám - og Alþýðublaðið eins og akademía. Jóhannes Guðmundsson gerði ekki kröfu til rektorsembættisins í þeim skóla. Hann kenndi okkur hins vegar eitt og annað um lífið og tilveruna sem aðrir höfðu ekki inngrip í. Jóhannes Guðmundsson kenndi okkur til dæmis að til væru fleiri hendur en ósýnileg hönd markaðarins. Hann minnti okkur á með sjálfum sér að líka væri til hjálparhönd, sýnileg og ósýnileg, hlý og sterk. Við þökkum Jóa samfylgdina og fjölskyldu hans vottum við samúð okkar.

Helgi Már Arthursson,

Garðar Sverrisson.