Þóra Kristjánsdóttir fæddist í Eyrarhúsum í Tálknafirði 28. apríl 1913. Hún lést á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 5. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Kristján Kristjánsson frá Mýri í Bárðardal, kennari, hreppstjóri og útvegsbóndi í Tálknafirði og síðar skógarvörður á Vöglum í Fnjóskárdal. Hann var sonur Kristjáns Ingjaldssonar umboðsmanns að Mýri í Bárðardal Jónssonar ríka og Helgu Stefánsdóttur, föðursystur Stephans G. Stephanssonar skálds. Móðir Þóru var Þórunn Jóhannesdóttir Þorgrímssonar, sem var kunnur útvegsbóndi á Sveinseyri við Tálknafjörð, og konu hans Ragnheiðar Kristínar Gísladóttur. Þau Þórunn og Kristján eignuðust ellefu börn og náðu níu þeirra fullorðinsaldri en tvö dóu í frumbernsku. Systkini Þóru, sem upp komust, voru: 1) Ólafur, verkstjóri á Patreksfirði, kona hans Oddný Sölvadóttir; 2) Sigríður; 3) Ragnheiður Kristín, giftist Matthíasi E. Guðmundssyni, lögreglumanni í Reykjavík; 4) Jóhannes, deildarstjóri KEA á Akureyri, kona hans var Gerður Benediktsdóttir; 5) Kristbjörg, gift Jóhannesi Eiríkssyni, ráðsmanni við Kristneshæli; 6) Haraldur; 7) Helga; 8) Guðrún, gift Þóri Valdimarssyni, starfsmanni við Kristneshæli. Þóra var næstyngst. Aðeins Kristbjörg er á lífi af systkinunum, en hún varð 100 ára 18. janúar síðastliðinn.

Þóra giftist 21. október 1938 Sigursteini Jónssyni vélstjóra frá Grenivík, f. í Holti við Grenivík 12. júlí 1910, d. 18. ágúst 1949. Foreldrar hans voru Jón Oddsson og Egedía Jónsdóttir. Þau eignuðust fjögur börn, þau eru: 1) Hildur Mary, f. 18. ágúst 1940, d. 25. apríl 1999. Eiginmaður hennar, Níels Brimar Jónsson, f. 24. janúar 1942, d. 27. apríl 2004. Þau eignuðust þrjú börn, Hönnu Þóreyju, Steinunni Elsu og Jón Viðar. 2) Þórunn Eydís, f. 12. maí 1944. Eiginmaður hennar er Þór Þorvaldsson, f. 7. október 1939. Þau eiga fimm dætur, Margréti Þóru, Helgu Sigríði, Ingibjörgu Ebbu, Hjördísi Völu og Steinunni Maríu. 3) Jón Kristján, f. 4. apríl 1947. Eiginkona hans var Fjóla Sigurðardóttir. Þau skildu. Þau eignuðust þrjú börn, Guðmund Þór, Sigurstein Mar og Eydísi Mary. 4) Steinunn, f. 18. september 1949, d. 20. ágúst 1960. Barnabarnabörn Þóru eru 17.

Þóra ólst upp í Eyrarhúsum til fimm ára aldurs, en var þá í kjölfar veikinda móður sinnar send í fóstur til Ágústar Kristjánssonar og Margrétar Ingibjargar Jónsdóttur í Norðurbotni í Tálknafirði þar sem hún dvaldist fram yfir fermingu. Þóra fór þá norður að Vöglum í Fnjóskadal til foreldra sinna. Hún var við nám að Laugum í Reykjadal veturinn 1934-35. Þóra og Sigursteinn bjuggu á Grenivík, en einnig um tveggja ára skeið á Patreksfirði þar sem hann var vélstjóri hjá Vatneyri, frystihúsi bræðra Þórunnar móður Þóru. Þau fluttu norður á ný vorið 1949 og ráðgerðu að byggja sér hús á Grenivík þegar Sigursteinn fékk botnlangabólgu um borð í Garðari EA og lést af völdum veikindanna. Eftir lát hans hélt Þóra börnum sínum heimili með tengdamóður sinni og Þóroddi mági sínum. Hún vann við ýmis tilfallandi verkefni, s.s. saltfiskverkum, beitingu, bakstur og fleira en kenndi einnig handavinnu við Grenivíkurskóla. Fljótlega eftir að yngsta dóttir hennar lést tæplega 12 ára gömul úr heilablóðfalli flutti Þóra búferlum til Akureyrar. Hún starfaði á Kristneshæli, hjá skóverksmiðjunni Iðunni og var ráðskona á síldarplönum, fyrst á Raufarhöfn og síðar hjá bæði Sunnuveri og Norðursíld á Seyðisfirði hjá Hreiðari Valtýssyni og Elsu Jónsdóttur. Þóra tók við starfi ráðskonu á Sólborg, heimili fyrir þroskahefta þegar til þess var stofnað árið 1970 og starfaði þar uns hún lét af störfum árið 1978 sökum heilsubrests. Hún fór á Dvalarheimilið Hlíð í apríl 1980.

Útför Þóru fer fram frá Glerárkirkju á Akureyri í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Jarðsett verður í Grenivíkurkirkjugarði.

Amma okkar, Þóra, hefur nú fengið hvíldina, eftir langan dag og strangan. Hún kveið ekki vistaskiptunum, sannfærð alla tíð um að "fyrir handan" myndi hún á ný hitta ástina sína, Sigurstein og dæturnar tvær sem fóru á undan henni, Steinunni og Hildi.

Fyrst munum við ömmu Þóru á heimili okkar við Litluhlíð, en þangað kom hún þegar við vorum fárra ára.

Síðar fékk hún svo vist á Dvalarheimilinu Hlíð og þangað voru farnar ófáar ferðirnar. Það þótti alltaf jafnspennandi að heimsækja ömmu á elliheimilið, ellóið, enda margt sem heillaði. Fyrst og fremst þótti okkur varið í nammiskúffu gömlu konunnar, þess beðið í ofvæni að hún gæfi út veiðileyfi á þá ágætu skúffu. Svo átti hún forláta stól sem snerist og ekki leiðinlegt að setjast í hann og láta snúa sér í fleiri hringi. Yfirleitt var ákveðið fyrirfram hversu marga hringi mátti fara í hvert sinn! Á tímabili tók hún upp á því að leysa ungviðið út með peningagjöfum, var með þar til gerða poka með tíu króna peningum sem sérstaklega voru til þess ætlaðir að gleðja ungviðið sem leit inn til hennar. Á þessu stóra heimili, sem Hlíð er var líka gaman að fara í feluleiki, ferðast á milli hæða með lyftunni og svo gátu börnin líka dundað sér við leiki á gólfinu inni á herberginu hennar. Það var því alltaf spennandi að fara í heimsóknir á Hlíð.

Ömmu þótti einkar skemmtilegt að bregða sér út í bíltúr og var þá ýmist ekið um bæinn, farið út í sveit og svo var toppurinn að fara alla leið út á Grenivík. Gjarnan dró hún þá upp veskið sitt og splæsti í bakkelsi sem helst átti að kaupa í Kristjánsbakaríi. Þetta var heilmikið ferðalag og margt spjallað.

Ömmu þótti gaman að gefa og fyrir kom að hún var að ota að okkur ýmsum eigum sínum, þar á meðal fatnaði og ef henni þóttu undirtektirnar ekki nægilega góðar lét hún þess getið "að þetta væri nú bara alveg nýmóðins". Skyldi ekkert í okkur að færast undan því að taka við þessum ágætum flíkum "sem væru komnar í móð aftur", eins og hún orðaði það. Þessi orðatiltæki hennar hafa lifað í fjölskyldunni og munu örugglega gera um ókomin ár.

Við leiðarlok vonum við innilega að hún fái þá ósk sína uppfyllta að hitta nú fyrir gengna ástvini sína, svo sem hún þráði svo heitt.

Hjördís Vala og Steinunn María.

"Hreinlæti, þrifnaður og reglusemi er æskilegt að sé svo mikill á heimilum að sem sjaldnast fari úr skorðum og þar af leiðandi ekki að taka stóra ræstingardaga. Gott máltæki segir að maður ætti helst ekki að þurfa að færa í lag heldur eigi maður ætíð að hafa í lagi. Einnig er húsmæðrum heimilanna nauðsynlegt og jafnvel öllu heimilisfólki að muna annað máltæki og það er: Að hafa vissan stað fyrir hvern hlut og hvern hlut á þeim vissa stað."

Svo skrifaði Þóra Kristjánsdóttir hjá Kristjönu Pálsdóttur á Kvennaskólanum á Laugum veturinn 1934-35. Tilvitunin er tekin úr kaflanum Vorræsting en þar kemur fram að samt sé nú sjálfsagt að gera allsherjar ræstingu á öllu innan og jafnvel utan bæjar að vorinu, þegar tíð er orðin góð og nokkurn veginn orðið þurrt í kringum bæina. Síðan er nákvæmlega útlistað hvernig best er að bera sig að við umrædda vorhreingerningu.

Þarna var námsmeyjum einnig kennt að búa til sápu, hvernig best færi á að þvo hvítan þvott og mislitan, ullarþvott og gluggatjöld og nokkrar síður í glósubókinni fjalla sérstaklega um hreinsun á karlmannafötum, stífingu þeirra og pressingu. Námsefnið tileinkaði Þóra sér með ágætum, hreinlætið í fyrirrúmi og þess gætt að ekki færi svo úr skorðum að taka þyrfti stóra ræstingardaga, hlutirnir hver á sínum vissa stað.

Lífið fór ekki alltaf mildum höndum um Þóru Kristjánsdóttur. Henni féll ætíð þungt að hafa ekki notið æskuáranna í stórum hópi systkina sinna, á hinu mannmarga og stönduga heimili foreldra sinna fyrir vestan. Sagði stundum frá því hvað hún orgaði á leiðinni, fimm ára gömul þegar verið var að flytja hana á milli bæja, frá Eyrarhúsum eftir að móðir hennar veiktist. Líka frá kvöldinu þegar hún nýkomin í fóstrið var vakin upp og allt heimilisfólk þusti út á hlað þar sem gaf að líta uppljómaðan himin í suðri. Þá var hafið Kötlugosið 1918 og þóttu mikil undur að sjá himininn loga. Fátt virðist hún annað hafa kært sig um að muna frá barnæskunni. Lítið annað var í það minnsta til frásagnar.

Besti tími ævinnar voru árin með Steina, eiginmanninum sem reyndist henni afar vel. Milli þeirra voru miklir kærleikar. Hann var hrifsaður úr faðmi fjölskyldunnar, Þóru og barnanna þriggja, tæplega fertugur en mánuði síðar fæddist yngsta dóttirin sem fékk nafn hans. Það er ekki öfundsvert hlutskipti að standa uppi ekkja með fjögur börn, 36 ára gömul, engar almannatryggingar til staðar, meðlög eða bætur af neinu tagi. Góðviljað fólk bætti það upp að svo miklu leyti sem hægt var, systur sem tóku að sér að sjá börnunum fyrir fatnaði, trillukarlar lögðu nýveidda ýsu á tröppurnar á Akurbakka þegar þeir komu af sjónum, þorpsbúar keyptu af henni nýbakaðar smákökur, tengdamóðir hennar og mágur sem héldu með henni heimili. Það var henni kappsmál að hafa börnin hjá sér, senda þau ekki til vandalausra svo mikið var á sig lagt.

Að missa svo hana Steinu, sem ekki náði 12 ára aldri var meiri harmur en hægt er með góðu móti að ráða við og sjálfsagt hefur aldrei almennilega verið komist yfir þá raun.

Þessir atburðir gerðust áður en ömmubörnin komast til vits og ára. Þau muna konu sem var hress og kát, konu sem hafði yndi af því að gefa og gleðja, miðla af reynslu, kenna bænir, vestfirsk orðatiltæki, segja sögur af síldarplönum. Konu sem kom eins og stormsveipur inn í eldhús dætra sinna með gamanyrði á vör, hnoðaði, hrærði, þeytti og skellti á augabragði upp veislu, 15 sortir, ekkert múður og kökurnar sumar á fjölda hæða. Engum duldist hver stjórnaði í eldhúsinu þegar ættmóðirin var mætt með hvíta svuntu. Fyrirmæli gefin á báða bóga og eftir þeim var farið möglunarlaust.

Þóra enda vön að hafa mikið umleikis, fór létt með að elda ofan í fjöldann allan af hungruðu síldarsöltunarfólki á árum áður. Þá sýndust mörg spjót á lofti í einu og mikill gustur á þeirri gömlu. Metnaðurinn að bjóða bragðgóðan mat en ekki síður var mikið lagt upp úr ráðdeild og aðhaldsemi þegar kom að því að kaupa inn. Nýta matinn vel og bjóða afganginn daginn eftir í nýjum búningi. Bruðl tíðkaðist ekki.

Þegar að austan var komið eftir síldarvertíð var veskið í þykkara lagi. Þá var ekkert til sparað ef unnt var að gleðja ungar sálir. Pantaði Óla vindil út í Skarðshlíð og svo var ekið til heildsalans Valda Bald þar sem súkkulaðikex var verslað í kassavís Hennar háttur og vani að kaupa stórt inn. Þannig fékkst alltaf mestur afslátturinn.

Heilsuna missti hún snemma. Ekki orðin sjötug þegar eitt og annað fór að gefa sig í skrokknum. Fór því til þess að gera "ung" inn á stofnun, en lét sér vel líka. Ekki vön öðru en taka því sem að höndum ber, þegjandi oftast og hljóðalaust. Dvalarheimilið Hlíð var hennar heimili í nær 25 ár. Þar var gott starfsfólk og alveg prýðis matur, sagði hún og taldi sig bæði hafði vit á og smekk fyrir góðri matseld. Um meira var ekki beðið. Fyrir fáum árum missti hún svo elstu dótturina, Hildi. Þeirri harmafregn tók hún af æðruleysi, brá orðið hvorki við sár né bana. Sjálf hefði hún kosið að fá að fara í hennar stað. Því fékk hún bara ekki ráðið.

Á Hlíð hafði hún hvað mest yndi af handavinnunni. Átti þar góðar stundir við að mála myndir á boli fyrir langömmubörnin, kodda- og svæfilver sjálfsagt í hundraðatali handa afkomendum sínum, gestum og gangandi. Það er því viðeigandi að kveðja ömmu Þóru, nú þegar lagt er upp í Grenivíkurförina hinstu og vitna til þeirra áletrana sem hvað mestra vinsælda nutu á svæflunum hennar: Góða nótt.

Sofðu rótt.

Margrét Þóra.