ÞAÐ er víðar en á Íslandi, sem deilt er um nöfn og nafnalög.

ÞAÐ er víðar en á Íslandi, sem deilt er um nöfn og nafnalög. Frændur vorir í Noregi hafa líka sínar skoðanir á þessum málum og finnst sumum þeirra fulllangt gengið þegar búið er leyfa nöfn á borð við "Keikoburger" og "Filibom-bom-bom".

Gulbrand Alhaug, prófessor við háskólann í Tromsø, er einn af þeim, sem eru ekki alveg sáttir við úrskurði norsku nafnanefndarinnar, og í viðtali við Aftenposten nefnir hann sem dæmi "Batman", sem nú hefur verið úrskurðað gott og gilt.

Hann er líka hneykslaður á því, að Þrándheimsbúinn Espen Scheide skuli hafa fengið viðurkennt millinafnið "Keikoburger"; að ævintýramaðurinn Aleksander Gamme heiti nú "Filibom-bom-bom" að millinafni og að sjónvarpsmanninum Espen Thoresen skuli hafa verið leyft að taka sér ættarnafnið "Gerðusvovel". Thoresen bað raunar um annað nafn, "Tilhamingju", en því var hafnað.

Alhaug segir, að gömlu norsku nafnalögin hafi verið of ströng en þau nýju séu bara skrípaleikur.