Frá sýningu Magnúsar Árnasonar í Kling og Bang-galleríi.
Frá sýningu Magnúsar Árnasonar í Kling og Bang-galleríi. — Morgunblaðið/Ómar
Opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 14-18. Sýningu lýkur 27. febrúar.

MAGNÚS Árnason er ungur myndlistarmaður sem nýlega lauk námi við akademíuna í Vínarborg. Hann var með nokkuð eftirtektarverða innsetningu á Grasrót 2003 í Nýlistasafninu, kofa með hræi, og sýnir nú innsetningu í Kling og Bang-galleríi undir yfirskriftinni "Sjúkleiki Benedikts". Gengur hann út frá svipuðum hrolli og hann gerði í Nýlistasafninu. Virkar innsetningin einna helst sem leikmynd fyrir einhvern vírus-trylli eða geimverusjúkdómamynd. Maður gengur inn í galleríið sem er þakið möl. Birkitré standa upp úr mölinni og birkifnykurinn fyllir andrúmið. Fuglshræ hanga á greinum sem listamaðurinn hefur troðið með þéttifrauði sem sýnist vera einhverskonar kýli eða púpur fyrir geðslegar geimverur sem hafa sprungið inni í fuglunum og flætt út um augu og gogga. Í næsta herbergi er hlaðin varða og undir kraumar eitthvað dularfullt. Það sér maður á gervigufu sem læðist undan vörðunni svo maður flýtir sér niður í kjallarann. Herbergið þar er lokað með vír þöktum tjöru og fiðri. Þangað þorir enginn inn nema aðalhetja myndarinnar. Mér dettur Hilmir Snær í hug eða Antonio Banderas. - Spurning um "budget". Handan hurðarinnar er svo ógnin sjálf, Benedikt myrkrahöfðingi.

Ég ætla nú ekki að láta uppi endinn. Á hann alveg út af fyrir mig. En þetta er ekki margra stjarna sýning. Svosem ágætis skemmtun ef maður leyfir ímyndunaraflinu að leiða sig á milli herbergjanna. Mikil framkvæmd af hálfu listamannsins. En heildarmyndin? Prýðilegt "propps" fyrir B-hrylling.

Jón B.K. Ransu