[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þakkir til Úrvals-Útsýnar HINN 5. janúar fórum við hjónin í vetrarfrí með ferðaskrifstofunni Úrvali-Útsýn til Kanaríeyja. En stuttu eftir komuna þangað veiktist ég, gat lítið ferðast um og endaði að síðustu í hjólastól.

Þakkir til Úrvals-Útsýnar

HINN 5. janúar fórum við hjónin í vetrarfrí með ferðaskrifstofunni Úrvali-Útsýn til Kanaríeyja. En stuttu eftir komuna þangað veiktist ég, gat lítið ferðast um og endaði að síðustu í hjólastól. Við slíkar aðstæður í ókunnu landi eru ekki mörg sund opin.

En þá barst hjálpin. Við höfðum fljótlega samband við fararstjórann og hjúkrunarfræðing ferðaskrifstofunnar, Ölfu Sverrisdóttur. Þar var ekki í kot vísað. Alfa fylgdist náið með mér, aðstoðaði við allar nauðsynlegar útréttingar og fyllti mann þeirri öryggistilfinningu sem var svo nauðsynleg á þeirri stundu.

Er leið að heimferð kom að hlutverki fararstjóranna. Sigurður Sigurðarson fylgdi okkur út á flugvöll í leigubíl, náði í hjólastól og kom töskunum áleiðis og Kjartan L. Sigurðsson náði í sæti á besta stað fyrir mig.

Sigurður kom mér síðan í hendur starfsmanni flugstöðvarinnar sem trillaði með mig alla leið að flugvélardyrum. Þar tóku elskulegar flugfreyjur á móti mér. Tilfinningin var: Ég var kominn heim. Á flugvellinum í Keflavík beið annar hjólastóll eftir mér og ung og elskuleg stúlka ýtti mér áfram síðasta spölinn að færibandinu þar sem farangurinn beið.

Aðstoð starfsfólks Úrvals-Útsýnar þakka ég af heilum hug og ekki síst Ölfu Sverrisdóttur. Hún var sú sem mest reyndi á. Og brást ekki eitt andartak.

Oft les maður í blöðum greinar frá fólki sem telur sig hafa farið halloka í skiptum við ferðaskrifstofur. Þær eru flestar neikvæðar og oft lítt rökstuddar. Því tel ég rétt að greina frá minni reynslu af skiptum við þetta sómafólk sem veitti mér þá bestu þjónustu sem í þess valdi stóð.

Tómas Einarsson,

Skúlagötu 40, Reykjavík.

Verðkönnun ASÍ

ÉG er mjög ósáttur við verðkönnun ASÍ. Þeir gera aðeins könnun í stórmörkuðum en sniðganga hinar smærri verslanir. Ég hef nú í eitt ár keypt alla þá matvöru sem mitt heimili þarf í verslun við Vesturberg sem Kaskó heitir. Ég fullyrði að matvara og reyndar fleira er ekki dýrara þar en í Bónus. Það er slæmt að samtök eins og ASÍ skuli ekki láta þessar smærri verslanir, sem eru að berjast við að halda í við auðhringina, njóta sannmælis með því að gera verðkannanir hjá þeim samtímis.

Einar Jónsson.