12. febrúar 1993 | Innlendar fréttir | 390 orð

Frumvarp um neytendalán til meðferðar á Alþingi Gæti leitt til lækkunar

Frumvarp um neytendalán til meðferðar á Alþingi Gæti leitt til lækkunar lántökukostnaðar FRUMVARP um neytendalán sem viðskipta- og efnahagsnefnd Alþingis hefur til umfjöllunar, miðar, að sögn Vilhjálms Egilssonar, formanns nefndarinnar, að því að tryggja...

Frumvarp um neytendalán til meðferðar á Alþingi Gæti leitt til lækkunar lántökukostnaðar

FRUMVARP um neytendalán sem viðskipta- og efnahagsnefnd Alþingis hefur til umfjöllunar, miðar, að sögn Vilhjálms Egilssonar, formanns nefndarinnar, að því að tryggja að neytendur séu nægilega vel upplýstir um þau lánskjör sem bjóðast á markaði. Slíkt auðveldaði fólki að gera samanburð á sambærilegum grundvelli milli mismunandi lánstilboða, hefði áhrif á samkeppnina og gæti því jafnvel haft áhrif til lækkunar lántökukostnaðar.

Vilhjálmur sagði sérstaka áherslu lagða á að fólk væri upplýst um heildar lántökukostnað með því að reikna út sérstaka hlutfallstölu lántökukostnaðar sem sýndi heildarkostnaðinn í einni prósentutölu. "Þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að settar verði ákveðnar reglur hvernig árleg hlutfallstala kostnaðar er reiknuð út og hvernig upplýsingar um hana eiga að koma fram hlýtur allur samanburður að verða mun einfaldari," sagði Vilhjálmur.

Samkvæmt frumvarpinu nær það til lánssamninga sem gerðir eru við lántakanda af hálfu verslana, framleiðenda og þjónustuaðila með vissum undanþágum. Þær eru t.d. veittar ef lánssamningur gildir til skemmri tíma en þriggja mánaða og ef um er að ræða lægri fjárhæð en 15.000 krónur.

Frumvarpið nær til lána vegna kaupa á lausafé og þjónustu, svo og almennra neyslulána. Frumvarpið tekur jafnt til lánssamninga sem einstaklingur gerir og lögaðili, enda er talið mikilvægt að hér á landi eigi fyrirtæki rétt á upplýsingum í lánsviðskiptum jafnt og einstaklingar. Þá er í frumvarpinu ákvæði þess efnis að í auglýsingum um lán og lánafyrirgreiðslu skuli gefa upp vexti, lántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar. Einnig skal lánveitandi gefa upp staðgreiðsluverð ef hann er líka seljandi vöru eða þjónustu.

Uppfylling EB-tilskipana

Frumvarpið hefur þann tilgang að fullnægja skilyrðum EB-tilskipana vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Í tilskipuninni er gert ráð fyrir að neytandinn hafi ætíð, í tengslum við lánssamning, upplýsingar um árlega hlutfallstölu í prósentum, þ.e. samanlagðan kostnað vegna lánsins, lýst sem árlegri prósentu sem reiknuð er út samkvæmt sérstakri stærðfræðilíkingu eftir reglugerð sem viðskiptaráðherra setur. Tilskipunin leiðir einnig að öðru leyti til samræmingar á kostnaðarliðum sem eiga að koma inn í útreikning á hlutfallstölunni.

Að sögn Vilhjálms er vinnu við frumvarpið að miklu leyti lokið, en eftir er að athuga nánar ýmis útfærsluatriði. Viðtökur umsagnaraðila hafi verið jákvæðar, enda mikið hagsbótamál að neytendur séu upplýstir á þennan hátt. Vilhjálmur sagðist eiga von á því að frumvarpið næði fram að ganga á vorþingi.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.