Stoltir eigendur Feðgarnir Lee Davies (t.v.) og Anthony Davies.
Stoltir eigendur Feðgarnir Lee Davies (t.v.) og Anthony Davies.
BÁTASMIÐJAN Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi nýverið nýjan Cleopatra 33 bát til Milford Haven í vesturhluta Wales. Það er fjölskyldufyrirtæki sem stendur að kaupunum, eigendur þessu eru bræðurnir Lee, Nathan og Simon, ásamt föður sínum Anthony Davies.

BÁTASMIÐJAN Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi nýverið nýjan Cleopatra 33 bát til Milford Haven í vesturhluta Wales. Það er fjölskyldufyrirtæki sem stendur að kaupunum, eigendur þessu eru bræðurnir Lee, Nathan og Simon, ásamt föður sínum Anthony Davies. Lee Davies verður skipstjóri á bátnum. Þess má til gamans geta að Simon er betur þekktur sem leikmaður velska landsliðsins og Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Báturinn, sem hefur hlotið nafnið Industrious, er 10 metra langur og mælist 10 brúttótonn. Heimahöfn bátsins er í Milford Haven. Báturinn er sérútbúinn til humar- og krabbaveiða með gildrum. Lest bátsins er fyrir fjórtán 380 lítra fiskikör. Lestin er einnig útbúin með úðarakerfi til að halda humri lifandi um borð. Í lúkar er svefnpláss fyrir tvo skipverja, ásamt eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofni og ísskáp. Aðalvél bátsins er af gerðinni Cummins og er 430 hestöfl. Siglingatæki eru af gerðinni Simrad. Reiknað er með að báturinn hefji veiðar í Wales í næstu viku.